Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Leiðrétting stjórnvalda eykur flækjustig og sniðgengur neytendarétt

Nú þegar niðurstöður leiðréttinga stjórnvalda á verðtryggðum húsnæðislánum hafa verið birtar, er rétt að hvetja umsækjendur til að kynna sér útkomur þeirra rækilega áður en þeir staðfesta þær og veita samþykki sitt fyrir þeim. Fyrstu athuganir gefa til kynna að niðurstöður séu í mörgum tilvikum langt frá þeim væntingum sem skapaðar hafa verið. Eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á taka leiðréttingar stjórnvalda á engan hátt mið af lögum um neytendalán.

Þann 24. nóvember síðastliðinn birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt þess efnis að það bryti í bága við tilskipun um neytendalán að miða útreikning lánskostnaðar við 0% verðbólgu. Þetta atriði er meðal annars tekist á um í máli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka fyrir félagsmenn, en það verður flutt þann 5. janúar næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fram til þessa hafa íslenskir dómstólar aldrei farið þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í neinu máli.

Sú leiðrétting sem fengist með dómi sem félli neytendum í hag myndi ganga mun lengra en sú leiðrétting sem stjórnvöld hafa nú boðið upp á. Þessu hafa stjórnvöld brugðist við með nýrri eftiráforsendu fyrir leiðréttingunni í reglugerð nr. 1160/2014 frá 22. desember, sem kveður á um að ríkissjóður taki yfir endurkröfur neytenda að því marki sem nemur fjárhæð hinnar opinberu leiðréttingar, verði niðurstöður dómstóla neytendum í hag. Þannig virðist framkvæmdavaldið ætla að blanda sér í úrlausn dómstóla á einkaréttarlegum ágreiningi, en slík afskipti brjóta í bága við stjórnarskrárbundna þrískiptingu ríkisvaldsins.

Opnað var fyrir þann möguleika að samþykkja niðurstöður leiðréttingar stjórnvalda eftir hádegi 23. desember síðastliðinn og er frestur til að samþykkja niðurstöður 90 dagar eða til og með 23. mars 2015. Er því óþarfi að gera það í flýti, heldur er miklu frekar ástæða til að fara vandlega yfir niðurstöðurnar áður en tekin er afstaða til þeirra. Einnig er rétt að benda umsækjendum á að yfirfara útreikninga á niðurstöðum leiðréttingarinnar vandlega, og hvort þær séu réttar, ekki síst í ljósi þeirra margbrotnu frádráttarliða sem lögin um leiðréttinguna kveða á um. Auk þess má benda á að með skiptingu lána í frum- og leiðréttingarlán áður en dómar falla um ólögmæti kynningar verðtryggingarinnar fyrir neytendum, eykst flækjustig leiðréttingarinnar, sem var þó nóg fyrir.

Vegna hinnar lagalegu óvissu getur mögulega verið við hæfi að samþykkja ekki leiðréttinguna undir eins heldur frekar að bíða átekta um sinn, en frestur til samþykkis er fram í marsmánuð 2015. Þetta er þó einstaklingsbundið og séu umsækjendur í vafa um hvort skuli samþykkja leiðréttingu, ráðleggja Hagsmunasamtök heimilanna þeim að leita sér óháðrar ráðgjafar um það álitaefni. Komi í ljós að fjárhæð leiðréttingar hafi í einhverjum tilvikum verið rangt reiknuð eða ráðstöfun hennar byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum, er hægt að gera athugasemdir eða beina kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu fasteignaveðlána á vefsíðunni leidretting.is.

Loks er því mótmælt að leiðréttingin sé notuð til þess að þvinga fram innleiðingu rafrænna skilríkja sem eru útgefin af, og í þágu, fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Það samrýmist ekki sjónarmiðum um einstaklingsfrelsi og persónuvernd, að stjórnvöld þvingi neytendur til viðskipta við einkafyrirtæki með þessum hætti. Skorað er á stjórnvöld að endurskoða þá ákvörðun, enda ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nota veflykil, eða venjulega undirskrift til þess að samþykkja leiðréttinguna.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum