Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Alvarleg afbrot kunna að hafa verið framin af sýslumanni

Hagsmunasamtök heimilanna taka undir ummæli Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, í morgunþætti Útvarps Sögu síðastliðinn föstudag. Snorri sagði þá að sér hefði verið brugðið eftir að hafa skoðað gögn frá tveimur aðilum og myndbandsupptöku annars þeirra af nauðungaruppboði á húsnæði hans hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Gögnin gæfu vísbendingar um að málsmeðferð við nauðungarsölur þessar hefði verið með þeim hætti að um talsvert alvarleg lögbrot gæti verið að ræða af hálfu opinberra aðila, og ef það sem hann hefði séð væri ekki tilefni til lögreglurannsóknar þá vissi hann í raun og veru ekki hvað væri tilefni til lögreglurannsóknar.

Þessi ummæli vöktu talsverð viðbrögð, meðal annars þau að Sýslumaðurinn í Reykjavík sendi frá sér yfirlýsingu síðar sama dag þar sem ummælunum var vísað á bug. Yfirlýsing sýslumannsins er afar þversagnakennd svo vægt sé til orða tekið, og er þar meðal annars reynt að nota það sem rök að Snorri hafi tekið fram að hann hafi ekki rannsakað málið formlega. Að sjálfsögðu hefur formleg lögreglurannsókn ekki farið fram þar sem málið er nýtilkomið, og eru ummæli Snorra fullkomlega eðlileg þar sem hann er eingöngu að lýsa því viðhorfi að hann telji að slík rannsókn þurfi að hefjast. Eins og kom fram í umræddu viðtali hafði hann einmitt kynnt sér málið rækilega, og er því enginn fótur fyrir aðdróttunum sem koma fram í yfirlýsingu sýslumannsins um að það hafi hann ekki gert.

Sýslumaður heldur því einnig fram að ekki verði séð að Snorri hafi kynnt sér lög og reglur sem gilda um meðferð nauðungarsölumála, né greint frá því í hverju möguleg brot séu fólgin. Þessi ummæli í garð Snorra um að hann hafi kynnt sér mál og dregið af því ályktanir, án þess að kynna sér þau lög sem eiga við, eru bersýnilega út í hött og allt að því fjarstæðukennd. Ekki síst í ljósi þess að umrædd gögn koma frá landskunnum baráttumanni gegn óréttmætum nauðungarsölum, Sturlu Jónssyni. Sturla er þekktur fyrir það meðal annars að ganga um með útprentað eintak af lögum um nauðungarsölu næstum hvert sem hann fer, og eru því engar líkur á öðru en að Snorri hafi á þessum fundum fengið kynningu á þeim lögum og öðrum lögum sem eiga við um slík mál.

Fulltrúar á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna hafa frá miðju ári 2010 gert ítarlegar rannsóknir á málsmeðferð við nauðungarsölur og fullnustugerðir hér á landi með hliðsjón af lögum á sviði neytendaréttar og þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Niðurstöðum þeirra rannsókna hafa samtökin komið á framfæri með greinargerð um fullnustur án undangengins dóms. Í meginatriðum eru þær á þá leið að sú málsmeðferð brjóti í bága við reglur um neytendavernd sem eiga að gilda hér á landi vegna EES-samningsins, auk þess að ganga í berhögg við Mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæði stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð. Hafi slíkt brot af hálfu embættismanns í för með sér velferðarmissi fyrir brotaþola getur það jafnframt verið refsivert með 2-16 ára fangelsisvist samkvæmt 2. mgr. 130. gr. almennra hegningarlaga ef sök sannast.

Fulltrúar samtakanna hafa líka kynnt sér gögn Sturlu Jónssonar, þau sem ummælin vísa til, og hafa komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og Snorri. Það er að segja að gögnin gefi sterkar vísbendingar um að alvarleg lögbrot kunni að hafa verið framin af fulltrúa sýslumanns við fyrirtöku og málsmeðferð í viðkomandi nauðungarsölumáli.

Nauðsynlegt er að stemma stigu við því óréttlæti og mannréttindabrotum sem eiga sér iðulega stað á skrifstofum sýslumanna og heimilum landsmanna þegar þar eru framkvæmd nauðungaruppboð. Þolendur slíkra brota eiga rétt á skaðabótum vegna þeirra, og hætta er á því að næstu misseri muni flóðbylgja slíkra skaðabótamála dynja á dómskerfinu verði ekkert að gert.

Jafnframt er samtökunum kunnugt um dæmi þess að slík brot hafa verið kærð til Alþjóða glæpadómstólsins, enda er mjög alvarlegt þegar þeir opinberu embættismenn sem eiga að standa vörð um réttindi fólks gera sér far um að brjóta gegn þeim. Að minnsta kosti eitt slíkt tilvik hefur nú þegar verið tekið til athugunar dómstólsins, sem metur hvort það skuli hljóta formlega meðferð.

Ráðamenn þjóðarinnar stæra sig gjarnan af því við hátíðleg tilefni að Ísland sé meðal fremstu landa heims á sviði mannréttinda og að hér sé til staðar öflugt réttarríki. Það skýtur því skökku við að hér skuli vera framin mannréttindabrot nánast daglega og það af opinberum embættismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnvöld til að standa við stóru orðin og sýna það í verki að þeim sé alvara með slíkum yfirlýsingum, en þær séu ekki aðeins ætlaðar sem skrautfjaðrir.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum