Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki

Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki

Fréttatilkynning

Þak á verðtryggingu lána heimilanna tryggir fjölskyldum þak yfir höfuðið. Á blaðamannafundi í Seðlabankanum í gær sagði Seðlabankastjóri að það væri ekki skynsamleg ráðstöfun að frysta verðtrygginguna.

Rök hans fyrir því voru eftirfarandi:
„Í fyrsta lagi erum við ekki að sjá að það sé að koma mikil verðbólga.

Í öðru lagi, vextir hafa verið að lækka verulega. Meðal annars þeir vextir sem heimilin greiða.“ Auk þess sem hann nefndi sérstaklega að slík aðgerð gæti grafið undan trausti á því að Seðlabankanum takist það markmið sitt að halda verðbólgu skefjum.

Í öðru viðtali notaði Seðlabankastjóri orðin “búumst” og “reyna” í þessu samhengi og sagði: “...þegar við búumst ekki við verðbólgu” og “...við munum reyna að varðveita þennan kaupmátt”.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nokkrar athugasemdir við þessi orð og afstöðu Seðlabankastjóra.

Það er vissulega rétt að vextir hafa verið að lækka, sem er mjög jákvætt, en þó hefur lækkun þeirra ekki skilað sér að fullu til neytenda, sem er ekki nógu gott.

En það að setja “þak á verðtryggingu á lánum heimilanna” í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans eins og Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á er bara allt annað mál og í raun sjálfsögð öryggisráðstöfun til að koma til móts við þá almennu hræðslu sem er hjá heimilunum í landinu um að allt fari á versta veg eins og gerðist í bankahruninu 2008.

Það eina sem gerist með “þaki” á verðtrygginguna er að þá er tryggt að hún fari ekki upp fyrir einhver ákveðin mörk. Þau mörk geta verið í fullu samræmi við verðbólgumarkmið og spár Seðlabankans sem nú er 2,5%. Miðað við 1% - 1,5% skekkjumörk væri hægt að setja þakið við 3,5% - 4% og tryggja að verðtryggingin færi ekki upp fyrir þau mörk.

Miðað við spár Seðlabankans er ekki hætta á verðbólgu eða verðbólguskoti og vonandi ganga þær spár eftir. En, með fullri virðingu fyrir Seðlabankanum, starfsfólki bankans og Seðlabankastjóra, þá er hér eingöngu um spár og áætlanir að ræða sem settar eru fram í fordæmalausu ástandi sem erfitt er að spá um hvar endar. Enda kemur það berlega fram í orðum Seðlabankastjóra sjálfs þegar hann segir í viðtölum um þetta “ við búumst ekki við verðbólgu” og “við munum reyna að varðveita kaupmátt”.

Spár ganga ekki alltaf eftir og við getum búist við hverju sem er alveg sama hvað Seðlabankinn mun reyna að gera.

Heimilin þurfa á þeirri fullvissu að halda að fari allt á versta veg séu þau varin fyrir verðbólgu sem fer út böndunum og þeim gamalkunnu afleiðingum sem því myndi fylgja.

Það mundi alls ekki grafa undan trausti á Seðlabankanum að setja þak í samræmi við eigin markmið á verðtrygginguna við t.d. 3,5% til 4%. Þvert á móti væri slík aðgerð til marks um trú Seðlabankans á eigin spám og mundi því auka traust á sama tíma og slík aðgerð myndi senda skýr skilaboð til þeirra sem gætu látið sér detta í hug að reyna að rugga bátnum á móti Seðlabankanum. Einnig myndi þessi aðgerð hafa gríðarlega mikið að segja fyrir heimilin enda hafa mörg þeirra nú þegar miklar áhyggjur af verðbólgu og er í fersku minni afleiðingar bankahrunsins 2008.

Til að setja þessa kröfu Hagsmunasamtaka heimilanna í víðara samhengi þá er, með því að setja þak á verðtryggingu lána heimilanna, ekki eingöngu verið að hugsa um þá sem eru með verðtryggð lán heldur líka þá sem eru með svokölluð óverðtryggð lán því vextir þeirra eru að hluta til byggðir á verðbólgustigi í landinu.

Óverðtryggð lán munu því einnig hækka ef verðbólga fer úr böndunum og svo má heldur ekki gleyma því að nánast öll leiga heimilanna í landinu er verðtryggð þannig að þak mun líka takmarka hækkanir á leiguverði.

Þak á verðtryggingu lána heimilanna mun einnig takmarka mjög verðhækkanir á allri nauðsynjavöru heimilanna því verðtryggingin hefur gríðarleg áhrif á allt hagkerfið og ef hún nær að hækka og leika lausum hala þá spinnur hún upp í víxlverkun vexti og verðbólgu til skiptis eins og margoft hefur gerst.

Þessi einfalda aðgerð, sem vonandi mun aldrei reyna á, mun auka traust heimilanna á ríkisstjórnina og Seðlabankann og slá um leið á þann ótta sem fjölmargir glíma við um hvað framtíðin ber í skauti sér á þessum fordæmalausu tímum.

Að lokum vilja Hagsmunasamtök heimilanna taka það fram að þessi krafa er ekki sett fram sem ádeila á nýjan Seðlabankastjóra eða starfsfólk bankans enda er allt annað og miklu meira traustvekjandi hvernig bankinn er rekinn í dag og hvernig tekið er á málum í núverandi ástandi heldur en gert var eftir bankahrunið.

Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að Seðlabankastjóri endurskoði afstöðu sína svo heimilin geti treyst því án nokkurs vafa að þau séu varin fyrir áhrifum verðbólgu, fari hún af stað. Heimilin þurfa þá fullvissu og þeim þarf að veita öryggi á óvissutímum.

Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu “þaki”.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum