Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Vaxtahækkanir eru ekkert lögmál og engin þörf á þeim

Vaxtahækkanir eru ekkert lögmál og engin þörf á þeim

Hagsmunasamtök heimilanna senda áskorun til  ríkisstjórnarinnar og lánveitenda um að halda aftur af vaxtahækkunum.

Samtökin vekja athygli á hvernig heimilin eru nú sem oftar, gjörsamlega berskjölduð fyrir vaxtaákvörðunum lánastofnana.

Eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki í ársbyrjun hafa meginvextir Seðlabanka Íslands verið hækkaðir þrisvar, um 0,25 prósentustig í hvert skipti. Flestir lánveitendur hafa fylgt þeim hækkunum dyggilega eftir með sambærilegum hækkunum á vöxtum húsnæðislána og þannig lagt auknar fjárhagslegar byrðar á stærstan hluta íslenskra heimila.

Það sem af er ári hafa bankarnir skilað vænum hagnaði eða á hálfu ári meira en árshagnaði þeirra hvert undanfarinna þriggja ára þrátt fyrir þrengingar vegna heimsfaraldurs. Á næstu dögum birta þeir afkomutölur þriðja ársfjórðungs sem hefur verið boðað að verði enn betri.

Með svo góða afkomu sem raun ber vitni geta bankarnir ekki með nokkru móti haldið því fram að nein þörf sé á því að hækka vexti húsnæðislána. Nægur er hagnaðurinn fyrir og engin þörf á að sækja hærri vaxtatekjur úr vösum neytenda.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnendur og eigendur bankanna að láta neytendur njóta góðs af velgengninni og sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að halda aftur af frekari vaxtahækkunum á húsnæðislánum.

Hagsmunasamtökin minna jafnframt á þá staðreynd að bankarnir skulda heimilum landsins enn þá töluverðar vaxtalækkanir. Á tímabili munaði 230% á því sem vextir bankanna voru og því sem þeir hefðu átt að vera ef vaxtalækkanir seðlabankans skiluðu sér jafn vel til neytenda og hækkanir.

Heimilin eiga þessar vaxtalækkanir inni hjá lánastofnunum og þeim ber að gera upp skuld sína við þau og endurgreiða oftekið fé. Það minnsta sem þeir gætu gert væri að hækka ekki vexti og draga nýlegar hækkanir þeirra til baka.

Heimilin eru ekki veiðilendur bankanna til að auka nú þegar stjarnfræðilegan hagnað þeirra. Vissulega hefur verðbólga aukist en bankarnir eru augljóslega ekki á flæðiskeri staddir og þurfa ekkert á því að halda að hækka álögur á heimili landsins sem mörg hver berjast nú þegar í bökkum.

Gæta þarf að og verja réttarstöðu neytenda gagnvart þessu ofurvaldi. 

Tveir af þremur bönkum eru í meirihlutaeigu ríkisins.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórnin beiti eigendavaldi sínu og grípi inn í þessa oftöku af varnarlausum heimilum landsins sem er algjörlega ónauðsynleg, ekki síst með hliðsjón af gríðarlegum hagnaði bankanna.

 

Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana!

Hagsmunasamtök heimilanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum