Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Heimilin hafa beðið nógu lengi!

Heimilin hafa beðið nógu lengi!

Ræða formanns á aðalfundi Hagsmunasamtaka heimilanna 23. febrúar 2021. 

Ágætu félagsmenn, árið 2020 er liðið og í byrjun nýs árs eru Íslendingar í miðri efnahagskreppu vegna heimsfarsóttar sem enginn sá fyrir. Árið 2020 var metið fordæmalaust í umræðunni á sama hátt og gjaldþrot bankanna 2008 var einnig fordæmalaus atburður. Ekki eru nema tólf ár frá gjaldþroti allra íslensku bankanna og enn skemmri tími er frá þeirri kreppu sem fylgdi í kjölfarið.

Uppgjör og málefnaleg umræða um endurreisn bankakerfisins og áhrif á íslensk heimili hefur ekki átt sér stað. Það var átak að koma af stað umræðu um heimilin 15.000 þúsund á opinberum vettvangi. Það tókst með staðfestu og nú eru þau viðurkennd staðreynd og ítrekað nefnd í opinberri umræðu. Ef ekki væri fyrir Hagsmunasamtökin hefði þessum heimilum hreinlega verið sópað undir teppið; á þau væru aldrei minnst í opinberri umræðu. Þau væru grafin og gleymd. Slíkt er skammarlegt virðingarleysið sem raunverulegum fórnarlömbum bankahrunsins hefur verið sýnd.

Það er til marks um þetta skammarlega virðingarleysi að ráðamenn hafa ekki enn hlustað á kröfu samtakanna um Rannsóknarskýrslu heimilanna, en hana hefði verið gott að hafa nú þegar ný kreppa er brostin á með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heimilin. Samtökin hafa þó haldið áfram að minna á kröfu sína um Rannsóknarskýrslu heimilanna og var hún meðal annars ítrekuð í nýlegu opnu bréfi til fjármálaráðherra. Í því var álit stjórnar á hugmyndum um sölu á hlutafé ríkisins í Íslandsbanka kynnt og fyrirhugaðri sölu mótmælt. Ekki síst í ljósi þess að ofangreint uppgjör hefur ekki átt sér stað. Samtökin gegna því augljóslega enn mikilvægu hlutverki í gagnrýnni umræðu um hagræna stefnumörkun, kjör og réttindi heimilanna á fjármálamarkaði.

Ár í skugga Covid

Það er vægt til orða tekið að segja að síðastliðið ár hafi verið „öðruvísi“ og það hafði að sjálfsögðu áhrif á starfsemi samtakanna. Árið mótaðist óhjákvæmilega af Covid og varnaraðgerðum fyrir heimilin. Allt í einu stóðum við frammi fyrir öðru hruni og barátta okkar fór að snúast um að koma í veg fyrir að skelfilegar afleiðingar þess fyrir heimilin myndu endurtaka sig. Okkur varð strax ljóst að það var ekki í boði að „sjá hvað setur og bíða róleg“ eftir aðgerðum stjórnvalda til að verja heimilin, enda værum við enn að bíða þar sem enn hefur ekkert bólað á þeim. Það var því strax 11. mars í fyrra sem við sendum frá okkur áskorun til ríkisstjórnarinnar um viðspyrnu fyrir hagkerfið og heimilin. Þá hafði ríkisstjórnin sent frá sér áætlun um viðspyrnu í efnahagslífinu vegna Covid 19 en ekki minnst einu orði á heimilin, frekar en þau væru ekki til.

Þetta er því miður sama hugarfarið og einkenndi aðgerðir stjórnvalda í kjölfar bankahrunsins 2008, þar sem ekkert var gefið eftir gagnvart heimilunum heldur voru þau látin taka á sig höggið af fullum þunga, með skelfilegum afleiðingum.

Í þessari fyrstu yfirlýsingu samtakanna sagði meðal annars:

  • Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til Ríkisstjórnar Íslands að endurtaka ekki mistök fyrri ríkisstjórna og muna að aðgerðir hennar eigi fyrst og fremst að snúast um að verja heimilin í landinu. Þá er vert að minna á að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja stjórnkerfið eða fjármálafyrirtækin.

  • Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að strax verði sett þak á verðtryggingu lána heimilanna að hámarki 3,5%. Hefði það verið gert í kjölfar bankahrunsins 2008 hefði margt farið á annan veg og þúsundir fjölskyldna ekki misst heimili sín.

  • Hagsmunasamtök heimilanna benda á að það sem veldur heimilunum meiri skaða en nokkuð annað er hækkun verðbólgu vegna þess séríslenska og stórhættulega fyrirkomulags sem heitir verðtrygging á lánum heimilanna.

  • Fari verðbólgan af stað hefur enginn stjórn á því sem gerist nema gripið sé í taumana strax með fyrirbyggjandi aðgerðum. Aðstæður eins og þær sem núna hafa skapast staðfesta það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist frá seinasta hruni að afnema beri með öllu verðtryggingu lána heimilanna án tafar, því hún veldur bæði þeim og hagkerfinu öllu stórfelldum skaða.

  • Vonandi kemur ekki til þess, en fari allt á versta veg þá verður Ríkisstjórn Íslands einnig að grípa til “frestheimilda” á greiðslum húsnæðislána á sama eða svipaðan hátt og Ríkisstjórn Ítalíu er að gera.

  • Hagsmunasamtök heimilanna bjóða Ríkisstjórn Íslands aðstoð sína og óska hér með formlega eftir aðkomu að þeim leiðum og lausnum fyrir heimilin í landinu sem sannarlega þarf að fara í á þessum sérstöku tímum sem nú ganga yfir, því sameinuð getur íslensk þjóð sigrast á öllum vanda.

Allt það sem við sögðum í þessari fyrstu áskorun okkar vegna Covid til ríkisstjórnarinnar hefur verið kjarninn í baráttu okkar síðan þá:

  • Ríkisstjórnin verður að verja heimilin og taka pólitíska ákvörðun um að ENGINN skuli missa heimili sitt vegna áhrifa Covid 19.

Síðan þá og til loka síðasta árs höfum við sent frá okkur fjölda fréttatilkynninga, umsagna og greina til að vekja athygli á stöðu heimilanna og þörf þeirra fyrir vernd í fordæmalausu ástandi. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögð ráðamanna hafa verið skammarlega lítil. Enn á greinilega að höggva í sömu knérunn og fórna heimilunum. Eftir bankahrunið 2008 var það gert með beinum aðgerðum og brotum á lögvörðum réttindum heimila, en núna virðist eiga að endurtaka leikinn með aðgerðarleysi. Það er einfaldlega EKKERT gert til að verja heimilin og nú er sá tími að koma að þær aðgerðir sem þó var farið í, frystingar bankanna, hlutabótaleið og tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru að renna sitt skeið á enda. Hvað tekur þá við er ekki enn þá ljóst. Vonandi verður ástandið ekki jafn slæmt og við óttumst, en það er ljóst að mörg heimili munu lenda í erfiðleikum verði ekkert að gert.

Þrátt fyrir allt er ljóst að ýtni Hagsmunasamtakanna breytti umræðunni og hafði áhrif á hana. Áður en við létum í okkur heyra var hvergi minnst á heimilin, en eftir það sáu ráðamenn að minnsta kosti sóma sinn í að viðurkenna tilvist þeirra þó lítið sem ekkert hafi verið um aðgerðir þeim til hjálpar. Þeirra aðgerða er enn þá beðið. Stuðningslán eða -styrkir fyrir heimilin munu þó vonandi líta dagsins ljós áður en of langt um líður en Hagsmunasamtökin styðja þau og eiga sæti í vinnuhópi um útfærslu þeirra. Við lýsum þó jafnframt yfir vonbrigðum yfir þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd þessara aðgerða enda er tíminn til aðgerða naumur áður en skaði er skeður.

Áhrif HH á ákvarðanatöku og lagabreytingar

Samtökin voru í fararbroddi í gagnrýni á frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um nauðungarsölur, til að heimila rafrænar nauðungarsölur. Í stað þess að stöðva nauðungarsölur í efnahagskreppu lagði dómsmálaráðherra fyrir þing tillögu um að gera nauðungarsölu hraðvirkari og auðveldari. Fréttatilkynning samtakanna: Dómsmálaráðherra vill síma-nauðungarsölur, vakti mikla athygli bæði innan og utan Alþingis. Umsögn samtakanna varð meðbyr fyrir kraftmikla og gagnrýna umræða á þingi sem hafði áhrif á alla umfjöllun um frumvarp dómsmálaráðherra. Rafrænum nauðungarsölum var hafnað eftir umræðu í nefnd. Bæði þetta og krafan um Rannsóknarskýrslu heimilanna sýna mikilvægi þess málstaðar sem þessi samtök standa fyrir. Í samfélagi þar sem grunneining hagkerfisins - heimilið - er ítrekað vanrækt í opinberri stefnumótun. 

Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því hversu mikið samtökin láta að sér kveða á vettvangi stjórnmálanna. Við höfum átt gott samstarf við þingmenn úr mörgum flokkum sem hafa lagt fram fyrir okkur fjölda fyrirspurna og jafnvel frumvarpa sem samtökin lagt drög að. Eðli málsins samkvæmt eru samtökin sjaldnast nefnd á nafn þegar þannig stendur á, enda markmiðið ekki að fá sérstaka viðurkenningu fyrir það, heldur að ná fram upplýsingum eða lagabreytingum sem bæta réttindi neytenda á fjármálamarkaði. Á síðasta ári voru lagðar fram fjölmargar fyrirspurnir á Alþingi sem voru samdar að frumkvæði samtakanna eða að höfðu samráði við þau.

Einnig get ég fullyrt að fá ef nokkur samtök eða hagsmunaaðilar séu betur vakandi yfir lagabreytingum og sendi inn fleiri umsagnir við frumvörp en Hagsmunasamtök heimilanna. Sem dæmi sendum við Alþingi og stjórnvöldum 61 umsögn 2019-2020 og 44 á undanförnu starfsári. Það má lesa ýmislegt úr þessum tölum um afköst samtaka með nánast enga yfirbyggingu, sem eru rekin af sjálfboðaliðum og með einungis tvo starfsmenn í hlutastarfi. En það má líka sjá á þessu hversu mikilvæg Hagsmunasamtök heimilanna eru. Á síðustu tveimur þingum hafa meira en 100 sinnum verið gerðar lagabreytingar, eða tilraunir til lagabreytinga, sem snerta hagsmuni neytenda á fjármálamarkaði beint eða óbeint. - Hundrað sinnum!!!

Í annál samtakanna hafa verið skráð 218 atriði frá síðasta aðalfundi. Það þýðir að nær alla virka daga ársins gerðu samtökin eitthvað sem ástæða var til að færa í annál. Það er fyrir utan önnur dagleg störf og aðstoð við félagsmenn. Ég minni á að þetta eru afköst grasrótarsamtaka með samtals eitt starfshlutfall og nokkra öfluga stjórnarmenn í sjálfboðavinnu meðfram fullu starfi. Það væri gaman að sjá annál ónefnds umboðsmanns á vegum ríkisins sem sagður er þjóna sama hópi og HH. Sá hefur ekki enn birt opinberlega ársskýrslu ársins 2019, en árið 2018 fékk hann 280 milljónir króna til rekstrarins og hafði 18-20 starfsmenn á launaskrá.

HH eru einu varnaraðilar neytenda á fjármálamarkaði

Hagsmunasamtök heimilanna eru EINU aðilarnir á Íslandi sem hafa einhverja heildarsýn yfir réttindi og hagsmuni neytenda á fjármálamarkaði og þeir einu sem verja þau. Það skal enginn velkjast í vafa um að sótt er að réttindum þeirra úr öllum áttum, af fjársterkum og valdamiklum aðilum. Það er meðal annars á þeim forsendum sem samtökin hafa sóst eftir fjárveitingum úr ríkissjóði. Það er ekkert eðlilegt við það að einu samtökin sem verja réttindi neytenda gegn fjársterkustu aðilum landsins, séu fjársvelt samtök sem treysta á sjálfboðavinnu. Misræmið á milli aðila er svo mikið að það er engin leið að réttlæta það.

En á ríkið yfirleitt að koma að því að styrkja svona samtök? Það er pólitísk spurning sem er stærri en bara hvort styrkja eigi Hagsmunasamtök heimilanna. Á ríkið yfirleitt að styrkja eitthvað? Á Íslandi er það þannig að ríkið styrkir ýmislegt og allskonar og á meðan það er svo, er engin spurning að ríkinu ber að styðja myndarlega við baráttu neytenda á fjármálamarkaði og jafna þannig aðeins völlinn á milli neytenda og valdamikill hagsmunavarða fjármálafyrirtækja.

Staðreyndin er sú að ef Hagsmunasamtök heimilanna væru í Bandaríkjunum þá væru þau, miðað við höfðatölu, ein stærstu óhagnaðardrifnu samtök í heimi, með 8,5 milljónir félagsmanna. Ef sama hlutfall þeirra borguðu valfrjáls félagsgjöld og raun ber vitni, hefðu HH milljarða til umráða. Samtök af þeirri stærðargráðu myndu ekki þurfa ríkisstyrk. Baráttan væri samt í aðalatriðum sú sama og hér heima og þar er eitt þing eins og hér á landi, þó á því sitji fleiri en 63 þingmenn. Hagsmunasamtök heimilanna eru risastór samtök miðað við hina frægu höfðatölu, en hún hefur ekki mikið að segja þegar kemur að raunverulegum tekjum því þær margfaldast ekki í takti við hina margfrægu höfðatölu.Þegar svo er einnig litið til þess hverjum við erum að verjast og hvað þeir hafa á milli handanna, er einfalt að réttlæta aðkomu ríkisins að því að styrkja starfsemi Hagsmunasamtakanna.

Neytendur eiga rétt á óháðri fjármálaráðgjöf

Einnig hafa Hagsmunasamtök heimilanna lengi leitað eftir fjárveitingum til að geta boðið neytendum upp á óháða ráðgjöf á fjármálamarkaði. Það er vægast sagt tímaskekkja og gengur gegn sjónarmiðum neytendaverndar, að einu ráðgjafar neytenda í þeirra stærstu fjárfestingum séu þeir sem sitja hinum megin við borðið, kröfuhafarnir sjálfir. Án þess að fara nánar á þessum vettvangi út í fáránleikann sem felst í þessu fyrirkomulagi, er ástæða til að fagna því að núna í janúar veittir félagsmálaráðherra samtökunum styrk upp á 10 milljónir. Þetta er hærri styrkur en samtökin hafa nokkurn tímann fengið og hækkar samanlagðan styrk samtakanna í 12 ára sögu þeirra, úr 20 milljónum í 30 milljónir. Hagsmunasamtökin munu nota þennan styrk til að byggja upp og efla ráðgjöf sína til félagsmanna og er sú vinna nú þegar hafin. Samtökin þakka félagsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, kærlega fyrir og vona að framhald verði á þessu, enda er vægast sagt vitlaust gefið í baráttu samtakanna við allt fjármagnið í landinu; hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF), bankana og „kerfið“ eins og það leggur sig.

Baráttan fer fram á hinu pólitíska sviði

Hagsmunasamtök heimilanna eiga rætur sínar og upphaf í eftirmálum hrunsins og því andrúmslofti tortryggni sem þá ríkti af augljósum ástæðum. Í lögum og samþykktum félagsins má sjá skýr merki þeirrar tortryggni og við sem nú sitjum í stjórn höfum velt fyrir okkur hvort komin sé tími til að endurskoða og kannski aðeins hreinsa þann jarðveg. Nú er það ekki svo að traust ríki milli HH og stjórnvalda. Því fer fjarri eins og t.d. fjöldi umsagna okkar um lagabreytingar ber vitni um. Það er og verður alltaf hlutverk HH að verja heimilin, grípi stjórnvöld til aðgerða gegn hagsmunum þeirra, og vinna að bættum hag þeirra með öllum hætti. 

Skömmu eftir að ég varð formaður HH sagði vinkona mín við mig í samtali „...nú þegar þú ert komin á kaf í pólitík...“ í einhverjum umræðum okkar á milli. Ég fyrtist við og sagðist ekkert vera komin í pólitík, Hagsmunasamtök heimilanna væru ópólitísk samtök. Hún horfði á mig, og sagði „Ásta mín, þetta er pjúra pólitík.“ Þetta var rétt hjá henni. Það leið ekki á löngu áður en ég sá það. Stærsti hluti baráttu HH fer fram á hinu pólitíska sviði, því það er þar sem ákvarðanir sem varða hagsmuni heimilanna eru teknar.

Núna eru 12 ár liðin frá hruni og við erum mörg sem höfum barist í fremstu línu sammála um það að lengra verði ekki komist án þess að fara inn á pólitíska sviðið. Ég hef því ákveðið, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, að bjóða mig fram í Alþingiskosningunum í haust fyrir Flokk fólksins. Það eru sem betur fer fleiri en ég í stjórn Hagsmunasamtakanna og það fólk mun að sjálfsögðu gæta þess að Hagsmunasamtökin haldi pólitísku hlutleysi sínu áfram, komi ég til með að sýna einhverja tilburði í aðrar áttir. Að því sögðu þá eigum við alls ekki að óttast það að Flokkur fólksins, eða nokkur annar flokkur sem stjórnarmenn kunna að vilja starfa fyrir, fái ítök í Hagsmunasamtökum heimilanna. Trúið mér, í stjórn HH er baráttufólk sem brennur af hugsjón fyrir réttlæti og hagsmunum heimilanna. Ef þetta fólk lætur til sín taka á vettvangi stjórnmálaflokka með hagsmuni heimilanna að leiðarljósi gæti það haft í för með sér breytingar á stefnu þeirra til hins betra.

Við eigum ekki að hræðast pólitíkina. Við eigum að henda okkur inn í hana og breyta henni. Ég hef heyrt marga segja að þeir gætu ekki hugsað sér að fara í pólitík því hún sé svo óheiðarleg. Ég veit ekki betri leið til að breyta því, en að heiðarlegt hugsjónafólk bjóði sig fram til starfa í stað þess að halda sig til baka og gefa hinum „óheiðarlegu“ eftir völlinn. Vondir hlutir gerast þegar gott fólk stendur hjá og leyfir þeim að gerast.

Næsta haust verður tækifæri til að breyta Íslandi, bjóðum okkur fram til starfa, og snúum leiknum við. Tökum völlinn af þeim sem hafa spilað með óheiðarlegum hætti, gefum þeim rauða spjaldið og rekum þá út af.

Heimilin hafa beðið nógu lengi. Tíminn fyrir réttlæti er núna!

 

fyrir hönd stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður




© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum