Neytendaréttur

Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir auknum réttindum lántakenda á fjármálamarkaði frá því í janúar 2009. Þrátt fyrir framþróun á réttindum neytenda í viðskiptum á fjármálamarkaði síðasta áratug hafa Íslendingar ekki tileinkað sér evrópskan neytendarétt með fullnægjandi hætti. 

Eftir gjaldþrot þriggja einkarekinna banka í október 2008 og við endurreisn bankakerfis brást íslenskt réttarkerfi heimilunum. Enginn lærdómur hefur verið dreginn af þessu í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir margvíslegar umbætur á löggjöf á þessu sviði sem megi rekja beint til EES-samningsins, hefur þeim lögum og reglum ekki verið fylgt í réttarframkvæmd. Því miður hefur réttur neytenda því verið hafður að engu í næstum öllum tilfellum sem á hann hefur reynt.

Frá fjármálahruninu árið 2008 og í kjölfar þess hefur ítrekað reynt á þessa löggjöf fyrir dómstólum. Réttindi neytenda samkvæmt lögum um neytendalán hafa aðeins náð fram að ganga í einu tilfelli. Á hinn bóginn skipta þau dæmi hundruðum þar sem dómstólar virðast hreinlega hafa litið fram hjá lögum um neytendalán og sérreglum um neytendasamninga. 

Dæmi um að lög um neytendalán hafi reynst haldlaus fyrir dómstólum:

(Tekið skal fram að hér er ekki um tæmandi talningu að ræða.)

 • Hrd. 471/2010 (vextir lána með ólögmætri gengistryggingu)

 • Hrd. 604/2010 (vextir lána með ólögmætri gengistryggingu)

 • Hrd. 660/2010 (gengistryggð lán - neitað um ráðgefandi álit)

 • Hrd. 62/2011 (gengistryggð lán - neitað um ráðgefandi álit)

 • Hrd. 636/2012 (gengistryggð lán - lögbannskröfu hafnað)

 • Hrd. 327/2013 (gengistryggð lán - neitað um ráðgefandi álit)

 • Hrd. 328/2013 (gengistryggð lán - neitað um ráðgefandi álit)

 • Hrd. 519/2013 (gengistryggð lán - lögbannskröfu hafnað)

 • Hrd. 751/2013 (gengistryggð lán - “prófmál”, var fellt niður)

 • Hrd. 805/2013 (vanræksla á upplýsingaskyldu um lánskostnað)

 • Hrd. 812/2013 (upplýsingaskylda - neitað um ráðgefandi álit)

 • Hrd. 170/2014 (vextir lána með ólögmætri gengistryggingu)

 • Hrd. 202/2014 (vextir lána með ólögmætri gengistryggingu)

 • Hrd. 349/2014 (vanræksla á skriflegri samningsgerð og upplýsingaskyldu)

 • Hrd. 533/2014 (vanræksla á skriflegri samningsgerð og upplýsingaskyldu)

 • Hrd. 160/2015 (vanræksla á upplýsingaskyldu um lánskostnað - verðbætur)

 • Hrd. 243/2015 (vanræksla á upplýsingaskyldu um lánskostnað - verðbætur)

 • Hrd. 598/2015 (vanræksla á skriflegri samningsgerð og upplýsingaskyldu)

 • Hrd. 384/2016 (vanræksla á upplýsingaskyldu um lánskostnað - verðbætur)

 • Hrd. 81/2017 (vanræksla á skriflegri samningsgerð og upplýsingaskyldu)

 • Hrd. 597/2017 (vanræksla á upplýsingaskyldu um lánskostnað)

 • Hrd. 623/2017 (kostnaður lána með ólögmætri gengistryggingu)

 • Hrd. 636/2017 (kostnaður lána með ólögmætri gengistryggingu)

 • Hrd. 844/2017 (vanræksla á skriflegri samningsgerð og upplýsingaskyldu)

 • Lrd. 203/2018 (vanræksla á upplýsingaskyldu um lánskostnað)

  • Sbr. Ákvörðun Hæstaréttar Íslands 2019-81

Tilvik þar sem lög um neytendalán hafa komið neytendum að gagni:

Hrd. 623/2016 (skortur á forsendum breytilegra vaxta í samningi) 


EES-reglur um neytendalán hafa því reynst haldlausar fyrir íslensk heimili síðasta áratuginn. Áhrif þessa hafa í mörgum tilfellum verið geigvænlegar fyrir þær fjölskyldur sem ella hefðu jafnvel ekki þurft að missa heimili sín í kjölfar hrunsins.

Samkvæmt framangreindu telja samtökin ljóst að EES-reglur um neytendalán feli í sér mikla og góða kosti fyrir íslenska neytendur. Á hinn bóginn er ljóst að á meðan íslenskir dómstólar hafa þær reglur að engu, skiptir innleiðing þeirra litlu fyrir íslenska neytendur. Hvað þetta varðar er úrbóta þörf.

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum