Óháð ráðgjafarþjónusta á fjármálamarkaði
Hagsmunasamtök heimilanna veita félagsmönnum óháða ráðgjöf í viðskiptum sínum á lánamarkaði. Við leggjum áherslu á réttindagæslu og lausnamiðaða þjónustu fyrir heimilin í landinu. Afstaða samtakanna er sú að heimilin eigi ekki að vera háð ráðgjöf eða afstöðu fjármálafyrirtækja í viðskiptum sínum enda eru þau ekki hlutlaus í þeirri afstöðu. Það er því nauðsynlegt að óháð ráðgjöf á fjármálamarkaði sé öllum aðgengileg. Hagsmunasamtök heimilanna byggja á þekkingu á lögum og reglum á sviði neytendaverndar á fjármálamarkaði og reynslu félagsmanna af eftirmálum gjaldþrota bankanna 2008. Samtökin eru óhagnaðardrifið almannaheillafélag og starfrækt í þeim tilgangi að efla málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum.
Hafðu samband
Hægt er að senda fyrirspurn á póstfang Hagsmunasamtaka heimilanna og við svörum samdægurs eða næsta virka dag. Starfsmenn samtakanna taka vel á móti öllum sem til samtakanna leita, einnig er boðið uppá viðtalstíma á mánudögum og þriðjudögum frá kl. 10:00-13:00 í síma 546-1501. Við hvetjum félagsmenn til að nýta sér ráðgjafarþjónustu samtakanna - heimilin@heimilin.is.
Kostnaðarþátttaka
Eina skilyrðið fyrir þjónustu er að vera skráður félagsmaður. Félagsgjaldið er 5.900 krónur en valkvætt. Við hvetjum þá sem til okkar leita að greiða félagsgjaldið en félagsmenn geta einnig styrkt samtökin með fjárhæð að eigin vali. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði frá stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna og gerir aðild að samtökunum eins sveigjanlega og nokkur kostur er. Greiðsluseðill fyrir félagsgjaldið er sendur í heimabanka félagsmanna einu sinni á ári. Á hann fellur ekki kostnaður. Með aðild styður félagsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna við gagnrýna rödd um hagsmunamál heimilanna og ráðgjafarþjónustu samtakanna - Hér er hægt að skrá sig í samtökin: Félagaskráning.
Frádráttarbær frjáls framlög
Hagsmunasamtök heimilanna eru fjölmenn samtök, því félagsmenn hafa verið yfir 8.000 talsins um langt árabil. Þau eru rekin að stærstum hluta fyrir félagsgjöld og að nokkru leyti opinbera styrki en við tökum einnig við frjálsum framlögum. Við viljum vekja athygli á eftirfarandi:
Frjáls framlög einstaklinga að fjárhæð 10.000 - 350.000 kr. og framlög rekstraraðila allt að 1,5% af rekstrartekjum eru frádráttarbær frá tekjuskattsstofni.