Starfsemin
Hagsmunasamtök heimilanna starfa í þágu íslenskra heimila. Markmiðið samtakanna er að hafa áhrif á umræðuna um lánakjör heimilanna og stuðla þannig að lagabreytingum til að bæta kjör og efla vernd heimila í viðskiptum sínum. Samtökin senda frá sér fjölda umsagna við lagafrumvörp ár hvert og reka óháða ráðgjafarþjónustu.
Eitt meginbaráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna frá stofnun er að verðtrygging neytendalána verði afnumin enda hækkar hún lán, leigu, vöruverð og framfærslukostnað allra heimila. Á stefnuskrá samtakanna er lögð rík áhersla á að réttur fjölskyldunnar til heimilis sé virtur. Umræða um hagsmuni heimilanna á fjármálamarkaði um lánskjör og skilyrði er brýn.
Óháð ráðgjafarþjónusta
Samtökin veita félagsmönnum óháða ráðgjöf um lánaviðskipti sín, með hliðsjón af vernd í löggjöfinni og reynslu samtakanna af efnahagshruninu. Ráðgjöf Hagsmunasamtaka heimilanna er óháð starfsemi fjármálastofnanna að öllu leyti, því stuðningur og úrlausn mála er eingöngu veitt með hliðsjón af hagsmunum þess skjólstæðings sem um ræðir hverju sinni. Fyrirspurnir til samtakanna eru margbreytilegar og hafa verið á milli 200 til 300 á ári hverju - um nokkurt skeið. Þær voru lengst af lagalegs eðlis og fjölluðu því oftar en ekki um réttindi, skyldur og önnur álitamál lánasamninga. Aukinn þungi hefur hinsvegar færst í fyrirspurnir og aðstoð vegna greiðsluerfiðleika tengdum húsnæðisskuldbindingum og öðrum lánum.
Einstaklingar geta því leitað til samtakanna ef greiðslubyrgði lána er orðin íþyngjandi, réttarstaða þeirra er óljós eða lánveitendur veita ekki þá þjónustu sem viðkomandi þarfnast. Afstaða samtakanna er sú að heimilin eigi ekki að vera háð ráðgjöf eða afstöðu fjármálafyrirtækja í viðskiptum sínum enda eru þau ekki hlutlaus í þeirri afstöðu. Það er því nauðsynlegt að óháð ráðgjöf sé öllum aðgengileg.
Fjármál
Hagsmunasamtök heilmilanna eru rekin af félagsgjöldum og styrkjum. Megintekjulind samtakanna eru félagsgjöld. Greiðsluseðill er sendur félagsmönnum einu sinni á ári, á vormánuðum og því er stillt í hóf, til að tryggja aðgengi sem flestra að mikilvægri réttindagæslu. Samtökin eru almannaheillafélag og þeir sem hafa áhuga á að styrkja samtökin geta lagt inná tilgreindan reikning neðst á forsíðu vefsins eða sent fyrirspurn á skrifstofu samtakanna - heimilin@heimilin.is. Þess má geta að styrkur til samtakanna er frádráttarbær til skatts, samkvæmt lögum um almannaheillafélög og almannaheillaskrá.
Ársskýrslur Hagsmunasamtaka heimilanna:
Ársskýrsla 2023-2024
Ársskýrsla 2022-2023
Ársskýrsla 2021-2022
Ársskýrsla 2020-2021
Ársskýrsla 2019-2020