Samþykktir

Samþykktir Hagsmunasamtaka heimilanna

1. gr. Heiti, varnarþing og félagssvæði

  • Samtökin heita Hagsmunasamtök heimilanna fta., skammstafað HH.

  • Heimili samtakanna, skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.

  • Félagssvæði samtakanna nær til alls landsins.

  • Samtökin starfa samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.


2. gr. Forsendur

  • Samtökin eru frjáls og óháð stjórnmálaflokkum og öðrum hagsmunaaðilum.

  • Samtökin starfa á lýðræðislegum grunni með það að leiðarljósi að félagar hafi jafnan rétt til áhrifa.

  • Þar sem ákvæði þessara samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.


3. gr. Tilgangur

  • Samtökin eru vettvangur fyrir fólkið í landinu til að verja og bæta hagsmuni heimilanna í landinu.

  • Samtökin eru málsvari og talsmaður félagsmanna í umræðu um hagsmuni heimilanna til skemmri og lengri tíma.

  • Samtökin koma fram fyrir hönd félagsmanna og neytenda á fjármálamarkaði í hverskyns hagsmunamálum, svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum eða hverjum öðrum málferlum er snerta réttindi þeirra.


4. gr. Markmið

  • Markmið samtakanna er að beita sér fyrir lagabreytingum og / eða lagasetningum til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

  • Markmið samtakanna er að stuðla að leiðréttingu veðlána heimilanna vegna brota gegn réttindum neytenda eða forsendubrests, jafna ábyrgð milli lántaka og lánveitenda, bæta réttarstöðu neytenda í lánaviðskiptum og stuðla að réttlátum og sanngjörnum lánskjörum fyrir neytendur.

  • Markmið samtakanna er að efla vitund neytenda um réttarstöðu sína og samtakamátt.

  • Samtökin vinna að tilgangi sínum og markmiðum eftir öllum lögmætum leiðum og með réttmætum samtakamætti. Í því skyni geta samtökin höfðað dómsmál eða leitað annarra réttarúrræða til að vernda heildarhagsmuni neytenda og stutt neytendur í fordæmisgefandi málum.

  • Samtökin geta unnið að tilgangi sínum og markmiðum með aðild að og þátttöku í starfsemi félagasambanda sem hafa samrýmanlegan tilgang og markmið.


5. gr. Aðild og úrsögn

  • Aðild að samtökunum er einstaklingsbundin og miðast við að lágmarki 18 ára aldur.

  • Umsókn um aðild skal vera skrifleg, til dæmis með rafrænni skráningu á heimasíðu samtakanna, fyllt út á félagsfundi og/eða með öðrum skriflegum sannanlegum hætti. Sama á við um úrsögn úr samtökunum.


6. gr. Aðalfundur

  • Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið.

  • Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda fyrir lok febrúarmánaðar ár hvert. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir félagsmenn samtakanna. Boða skal til aðalfundar með tölvupósti og opinberri tilkynningu á heimasíðu samtakanna, www.heimilin.is, með minnst 14 daga fyrirvara. Fundargögn skulu vera aðgengileg félagsmönnum minnst 3 dögum fyrir fund. Stjórn er heimilt að verða við óskum félagsmanna um fundarboðun með pósti greiði viðkomandi félagsmaður sendingarkostnað sem hlýst af fundarboðun.

  • Framboð til stjórnar skal berast eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Hafi ekki borist nægur fjöldi framboða innan þess frests skal fundarstjóri óska eftir framboðum á aðalfundi.

  • Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Skýrsla stjórnar

  2. Reikningar félagsins

  3. Lagabreytingar

  4. Kosning stjórnar

  5. Kosning varamanna

  6. Kosning skoðunarmanna

  7. Önnur mál

  • Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað. Stjórn er heimilt að bjóða öðrum áheyrn með fundarsetu.

  • Á aðalfundi skal stjórn gefa skýrslu ársins um starf og árangur samtakanna.

  • Ársreikning skal staðfesta með áritun meirihluta aðalstjórnar að minnsta kosti. Formaður og gjaldkeri skulu ávallt staðfesta ársreikning með áritun sinni. Ársreikning skal leggja fyrir á aðalfundi.

  • Heimilt er að halda fundi með rafrænum hætti. Þá er heimilt að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti.

  • Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar ef fyrir liggja brýn málefni sem ekki geta beðið reglulegs aðalfundar, eða ef 20% félagsmanna fara fram á slíka boðun með tillögu um dagskrá.


7. gr. Almennir félagsfundir og vinnufundir

  • Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem stjórn samtakanna telur ástæðu til. Boða skal til félagsfundar með að lágmarki þriggja daga fyrirvara.

  • Stjórn skal ætíð boða til félagsfundar innan 14 daga komi fram ósk um það frá meirihluta stjórnarmanna eða 20% félagsmanna.

  • Vinnufundir skulu kynntir á heimasíðu félagsins.


8. gr. Afgreiðsla mála

  • Á aðalfundum og öðrum félagsfundum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum. Komi fram ósk um skriflega atkvæðagreiðslu skal orðið við því.

  • Heimilt er að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti. Þá er heimilt að hafa opið fyrir atkvæðagreiðslu í allt að þrjá daga frá lokum fundar.

  • Heimilt er stjórn að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um málefni án þess að fyrst hafi verið boðað til fundar nema samþykktir kveði á um annað.


9. gr. Stjórn

  • Stjórn samtakanna skal skipuð 5 aðalmönnum og 3-5 til vara, sem kosnir skulu á aðalfundi samtakanna. Stjórnin kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi. Firma félagsins ritar meirihluti stjórnar.

  • Stjórnarstörf eru ólaunuð, en heimilt er að greiða fyrir útlagðan kostnað vegna rekstrar samtakanna. Þrátt fyrir það getur stjórnarmaður til jafns við aðra gefið kost á sér til verkefna, sem stjórn ákveður að stofna til og kaupa þjónustu fyrir gegn eðlilegu og sanngjörnu endurgjaldi, enda hafi atkvæði hans ekki ráðið úrslitum um þá ákvörðun. Skal hann þá jafnframt víkja sæti við allar frekari ákvarðanir stjórnar um verkefnið. Gera skal skriflegan þjónustusamning um hvert verkefni, sem innihaldi skýra verklýsingu og upplýsingar um alla kostnaðarskiptingu verkefnisins milli verkkaupa og verksala.

  • Stjórnin skal koma saman til fundar að minnsta kosti mánaðarlega og skal hún halda fundargerðir. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til fundar í stjórninni þegar tveir stjórnarmenn óska þess.

  • Stjórnarmenn skulu boða forföll, komist þeir ekki á stjórnarfund. Nú sækir aðalmaður ekki stjórnarfundi um tveggja mánaða skeið. Fyrirgerir hann sér þá sæti sínu í stjórn, nema um lögmæta ástæðu sé að ræða, tekur sæti síðasta manns í varastjórn og fyrsti varamaður tekur sæti í stjórn í hans stað.


10. gr. Verkefni stjórnar

  • Stjórn samtakanna fer með æðsta vald í málefnum þeirra milli aðalfunda. Hún undirbýr aðalfund og aðra félagsfundi. Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti. Stjórnarfundir eru lögmætir ef 4 eða fleiri stjórnarmenn eða varamenn þeirra eru mættir.

  • Við afgreiðslu mála á stjórnarfundum fer hver stjórnarmaður með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns fundarins. Varamaður hefur aðeins tillögurétt á stjórnarfundi nema hann leysi af stjórnarmann.

  • Stjórn semur stefnuskrá hvers starfsárs. Stjórn skal hafa yfirumsjón með daglegri starfsemi samtakanna eða ræður sérstakan aðila til þess og til sértækra verkefna.

  • Stjórn setur nefndum samtakanna reglur þar sem fram kemur hlutverk nefndanna.

  • Fastráðnir starfsmenn samtakanna skulu ekki samhliða gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.

  • Í samþykktum þessum eru stjórnmálasamtök skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Trúnaðarstörf fyrir stjórnmálasamtök eru störf í stjórnum, ráðum og nefndum og önnur sambærileg störf á vegum eða í þágu stjórnmálasamtaka. Formlegir talsmenn stjórnmálasamtaka, frambjóðendur þeirra, starfsmenn og kjörnir fulltrúar teljast einnig gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.


11. gr. Staðbundnar deildir og nefndir

  • Félagsmönnum er heimilt að stofna staðbundnar deildir sem starfa sjálfstætt á ákveðnum svæðum landsins, en þó eftir samþykktum og stefnuskrá samtakanna.

  • Innan samtakanna starfa málefnanefndir sem annast upplýsingaöflun, greiningu, úrvinnslu og málefnauppbyggingu einstakra málefna samkvæmt stefnuskrá.

  • Stjórn skipar formenn nefnda.

  • Stjórn hefur heimild til að skipta út formönnum nefnda ef þurfa þykir.

  • Aðeins félagsmenn geta verið nefndarmenn. Nefndarmönnum er þó heimilt að leita sér sérfræðiaðstoðar og álits utan samtakanna.

  • Nefndarstörf eru ólaunuð.


12. gr. Fjármál

  • Stjórn ber fram tillögur um félagsgjöld til samþykktar á aðalfundi. Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.

  • Gjaldkera er heimilt með fyrirfram samþykki stjórnar að endurgreiða stjórnarmönnum eða nefndarmönnum sannanlega útlagðan kostnað vegna sérstakra verkefna í þágu félagsins.

  • Stjórn er heimilt að stofna til kostnaðar innan fjárhagsramma samtakanna vegna daglegs reksturs, fundahalda og aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar.

  • Samtökunum er heimilt að taka við frjálsum fjárframlögum frá öðrum en stjórnmálaflokkum / hreyfingum og fjármálastofnunum. Fjárframlög veita fjárveitanda ekki rétt til ítaka eða áhrifa í samtökunum. Samtökunum er heimilt að sækja um styrki í opinbera sjóði.

  • Berist samtökunum frjáls fjárframlög er stjórn heimilt, innan fjárframlaga, að stofna til kostnaðar vegna húsnæðisleigu vegna aðalfunda og almennra félagsfunda og aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar, þjónustu eða vöru.

  • Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn úr hópi félagsmanna.


13. gr. Breytingar

  • Samþykktum þessum verður ekki breytt nema breytingatillaga hafi verið rædd á aðalfundi og að minnsta kosti 2/3 fundarmanna séu samþykkir tillögunni. Fyrirhuguð breyting skal kynnt í fundarboði og liggja fyrir í fundargögnum.


14. gr. Slit

  • Samtökunum verður aðeins slitið með samþykki eftir umræðu á löglega boðuðum aðalfundi.

  • Geta skal sérstaklega tillögu um félagsslit í fundarboði. Tillagan telst samþykkt, ef 2/3 hlutar fullgildra félagsmanna eru á aðalfundi og 2/3 fundarmanna greiða tillögunni atkvæði sitt. Ef ekki eru nægilega margir félagsmenn á fundinum, skal boða til aukaaðalfundar innan mánaðar. Við boðun þess fundar skal þess sérstaklega getið, að fyrir fundinum muni liggja tillaga um félagsslit. Á aukaaðalfundi þarf tillagan stuðning 4/5 hluta atkvæðisbærra mættra félaga til að hljóta samþykki óháð mætingu.

  • Heimilt er að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti.

  • Verði samtökunum slitið, skal eignum þeirra ráðstafað til almannaheillafélags eða -félaga sem starfa að neytendamálum eða til stuðnings við fólk í fjárhagserfiðleikum. Með almannaheillafélögum er átt við lögaðila sem uppfylla skilyrði skráningar á almannaheillaskrá samkvæmt lögum um tekjuskatt eða almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum um félög til almannaheilla.



Athugasemdir:

Samþykktir þessar voru lagðar fyrir á stofnfundi Hagsmunasamtaka heimilanna þann 15. janúar 2009 og þar lagt í hendur stjórnar að útfæra frekar og þær samþykktar af stjórn þann 4. febrúar 2009. Á öðrum aðalfundi samtakanna, 27. apríl 2010 voru samþykktar breytingar á 4. grein (Markmið) og 6. grein (Aðalfundur). Á fjórða aðalfundi samtakanna 31. maí 2012 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn) og 10. grein (Verkefni stjórnar). Á sjötta aðalfundi samtakanna 15. maí 2014 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn). Á sjöunda aðalfundi samtakanna 21. maí 2015 var samþykkt að bæta nýrri málsgrein við 6. gr. (Aðalfundur). Á níunda aðalfundi samtakanna 20. maí 2017 var samþykkt breyting á 6. gr. (Aðalfundur). Á 10. aðalfundi samtakanna 20. febrúar 2018 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn). Á 12. aðalfundi samtakanna 25. febrúar 2020 var samþykkt breyting á 9. grein (Stjórn). Á 13. aðalfundi samtakanna 23. febrúar 2021 voru samþykktar breytingar á 9. gr. (Stjórn) og 10. gr. (Verkefni stjórnar). Á 14. aðalfundi samtakanna 23. febrúar 2022 voru samþykktar breytingar á 1. grein (Heiti, varnarþing og félagssvæði), 2. gr. (Forsendur), 3. gr. (Tilgangur), 4. gr. (Markmið) og 12. gr. (Fjármál). Á 15. aðalfundi samtakanna 23. febrúar 2023 var samþykkt breyting á 14. gr. (Slit). Samþykktirnar hafa verið uppfærðar til samræmis við þessar breytingar.

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum