Fjölmiðlar - Síðan er í vinnslu

Afneitun og hvítþvottur

Nú þegar fimmtán ár eru liðin frá hruninu er reynt að endurskrifa söguna og óþægilegum fórnarlömbum sópað undir teppið. Sjónvarp allra landsmanna sýndi þætti, Baráttan um Ísland, sem voru ekkert annað en hvítþvottur og móðgun við hin raunverulegu fórnarlömb hrunsins. Nú skal fimmtán þúsund heimilum sópað undir teppið og látið sem þau hafi ekki verið til. 

Það er til háborinnar skammar að enn skuli dregið í efa að 15.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín í gin bankanna, hvort sem var í gegnum nauðungarsölu eða nauðasamninga við þá.* Það eitt og sér staðfestir þörfina á rannsókn á þeim aðgerðum sem stjórnvöld réðust í eftir hrun, sem gerðu heimilin að varnarlausum leiksoppum fjármálafyrirtækjanna. Engin pólitískur vilji virðist þó vera fyrir því inni á Alþingi, nema þá hjá einum flokki.

Lesa áfram...

Hrunið er óuppgert

Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Ásthildur Lóa Þórsdóttir og nýr alþingismaður Flokks fólksins var í viðtali í Morgunblaðinu 31. janúar síðastliðinn. Það er óneitanlega fagnaðarefni að kröftugur málsvari og baráttumanneskja fyrir málstað samtakanna veki athygli fjölmiðla á málefnum sem hafa í raun og veru tekið rúman áratug að komast að í opinberri umræðu. Málefnum sem mætt hefur verið lengi með þöggun og fyrirstöðu gegn þeirri kröfu að raunverulegar afleiðingar efnahagshrunsins verði rannsakaðar. Málstaður Hagsmunasamtaka heimilanna snýst því ekki síst um bætta réttarstöðu lántakenda og óháða hagsmunagæslu en baráttan myndar sprungur i vegginn, eins og viðmælandi orðar það í viðtalinu. 

Vald bankanna er mikið

Meðal þess sem fjallað er um í Morgunblaðsviðtalinu eru þau tíu lagafrumvörp sem þingmaðurinn hefur lagt fram á Alþingi frá því það kom saman í desember.

Lesa áfram...

Sjálfboðaliðar sem unnu þrekvirki

Fréttatilkynning samtakanna frá 6. desember: Í tilefni af alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans (5. desember) vilja Hagsmunasamtök heimilanna þakka fyrir og vekja athygli á starfi sjálfboðaliða á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna eftir hrun. Eftir gjaldþrot bankanna 2008 og þegar stofnanir samfélagsins brugðust stigu sjálfboðaliðar í stjórn og aðrir velunnarar samtakanna inn í neyðina og veittu stuðning. 

Starf þeirra var umfangsmikið og í raun þrekvirki í mikilli neyð fólks í mörg ár. 

Hagsmunasamtök heimilanna eru þekkt fyrir þátttöku sína í opinberri umræðu um ýmis hagsmunamál heimilanna í hruninu. Það sem minna eða jafnvel lítið sem ekkert hefur verið fjallað um, er stuðningur og aðstoð samtakanna við heimili og fjölskyldur sem stóðu varnarlaus gagnvart ofurvaldi ríkisins og fjármálafyrirtækja. Lengi vel var sú vinna eingöngu innt að hendi af sjálfboðaliðum í stjórn samtakanna. Síðar tók starfsmaður þeirra við lögfræðilegri aðstoð og þjónustu við félagsmenn. Það er staðreynd að fjölmörg heimili glíma enn við langtíma afleiðingar gjaldþrota bankanna sem ekki hefur verið fjallað nægilega vel um á opinberum vettvangi. 

Stofnanir brugðust í efnahagshruninu, (sjá nánar).

 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Lesa áfram...

Stofnanir brugðust í hruninu

Það er skýr afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna, að öll heimili eigi rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri lögfræðiráðgjöf og réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Afstaða samtakanna byggir á reynslu þeirra af efnahagshruninu og langvarandi áhrifum gjaldþrota bankanna 2008 á lífsskilyrði félagsmanna og annarra sem til samtakanna hafa leitað. 

Fólk var varnarlaust

Á árunum eftir hrun var eignarréttur fólks lítilsvirtur og fjölskyldur sem neyddust til að selja heimili sín festust í kjölfarið á ómannvænum leigumarkaði til langs tíma, án lánstrausts. Þetta fólk hafði þó ekkert rangt gert. Lán stökkbreyttust eftir gjaldþrot bankanna og hækkun greiðslubyrðar var mörgum ofviða en það sem meira var, bankarnir og lánastofnanir beittu ófyrirséðri hörku við innheimtu lána og gjaldfellingu þeirra. Stjórnkerfið og stofnanir eins og Alþingi og Umboðsmaður skuldara brugðust þessum fjölskyldum. Þrátt fyrir að lánveitendum væri skylt að gera upp eftir nauðungarsölur miðað við fullt markaðsverð fasteigna kröfðu þeir lántakendur engu að síður um meintar eftirstöðvar lána og skráðu fólk á vanskilaskrá til margra ára. Fólk var varnarlaust. Óteljandi álitamál fóru í gegnum dómskerfið og kærunefndir, með takmörkuðum árangri fyrir lántakendur og eini raunverulegi stuðningurinn var á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna. Langvinn áhrif hrunsins á lífsskilyrði stórs hóps félagsmanna hafa hvorki verið viðurkennd né rannsökuð. Enn leita félagsmenn í ráðgjöf til að leysa úr þessum langtímavanda, þó mikið vatn hafi runnið til sjávar.

Lesa áfram...

Fólk leitar til samtakanna vegna hrunskulda

Viðtal við formann Hagsmunasamtaka heimilanna í Reykjavík síðdegis - 26. ágúst síðastliðinn hefur vakið athygli. Fólk hefur í kjölfarið leitað til samtakanna eftir ráðgjöf og nýir félagsmenn hafa bæst í hópinn. Í viðtalinu vakti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna Ásthildur Lóa Þórsdóttir athygli á því að ennþá sé fólk fast á vanskilaskrá vegna gamalla hrunskulda.

Oftar en ekki er um að ræða einstaklinga sem misstu heimili sitt í hruninu. Húsnæðið var selt á uppboði undir markaðsverði og jafnvel þó bankinn sé fyrir löngu búinn að fá greitt að fullu upp í sína kröfu, þá er fólk ennþá fast á vanskilaskrá og fær enga fyrirgreiðslu. Hrunið er því miður enn að hafa áhrif á lífsskilyrði fólks sem missti eigur sínar vegna gjaldþrota bankanna. Það er fyrir löngu orðið tímabært að þessir einstaklingar endurheimti líf sitt. 

Samtökin hafa lengi vakið athygli á málefnum þessa hóps en mætt daufum eyrum. Við munum halda áfram að halda málefnum þeirra á lofti, ásamt öðru sem úr þarf að bæta í viðskiptum venjulegs fólks á fjármálamarkaði.

Reykjavík síðdegis: Margir sem fóru illa út úr hruninu komast ekki af vanskilaskrá - Reykjavík síðdegis 26. ágúst

 

Hagsmunasamtök heimilanna



Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum