Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Leigumarkaðurinn og húsnæðisliður vísitölunnar

Leigumarkaðurinn og húsnæðisliður vísitölunnar

Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur sífellt hallað undan fæti hjá heimilum landsins. Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill lýsa yfir fullum stuðningi við baráttu Samtaka leigjenda. 

Ástandið á leigumarkaðnum er vægast sagt hræðilegt. Það er ekki of djúpt í árina tekið að segja að hann einkennist af stjórnleysi, kerfisbundinni fjárkúgun og misbeitingu á varnarlausum leigjendum, sem einhversstaðar þurfa höfði sínu að halla.

Þessu ástandi hefur verið mætt af ámælisverðu skeytingarleysi af hendi stjórnvalda og ekki nóg með það, heldur er það við þennan ógnarmarkað sem hlítir engri stjórn sem Hagstofan vill miða húsnæðislið vísitölunnar, sem nær augljóslega ekki nokkurri átt.

Það er vitaskuld algjörlega út í hött að lán heimilanna verði fyrir áhrifum á hækkun kaffibauna eða hveitis úti í heimi, eða því að skortur á húsnæði hleypi verði þess stöðugt upp, því ekkert af þessu er á ábyrgð neytenda heldur alfarið utan áhrifasviðs þeirra.

En fyrst að lán meirihluta heimilanna taka breytingum til samræmis við vísitölu neysluverðs, nær alltaf til hækkunar, þarf virkilega að vanda til verka.

Húsnæðisliðurinn hefur, þrátt fyrir langa baráttu fyrir afnámi hans, verið algjörlega ósnertanlegur og lotið lögmálum sem ekki einu sinni Hagstofan þóttist geta breytt. Það vekur því vægast sagt furðu að allt í einu geti starfsmenn Hagstofunnar breytt húsnæðisliðnum án þess að nokkur opinber eða fagleg umræða hafi farið fram um það. Þvert á móti hefur þessi mikilvæga ákvörðun verði tekin á ólýðræðislegan hátt í bak við luktar dyr og mörgum spurningum er ósvarað. Allt þetta ferli er vægast sagt sérstakt og nauðsynlegt að fá skýringar á því sem átt hefur sér stað á bakvið tjöldin.

En að niðurstaðan sem tekin var með þessum ólýðræðislega hætti, sé að miða húsnæðisliðinn við stjórnlausan leigumarkað sem lýtur engum lögmálum öðrum en græðgisvæðingar, nær ekki nokkurri átt og Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla þessum vinnubrögðum og niðurstöðu þeirra harðlega.

 

Grimmilegt ofbeldi Seðlabankans gegn heimilum landsins

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á því vaxtaofbeldi sem heimili landsins hafa verið beitt á undanförnum tveimur árum og ekki sér enn fyrir endann á.

Það er ekki hægt að bæta böl með því að búa til annað verra. Það er samt nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur látið líðast að Seðlabankinn geri, án þess að grípa til nokkurra varna fyrir heimilin með neinum hætti.

Heimilin eru jafn varnarlaus gagnvart þessu og fórnarlamb vopnaðs ráns í húsasundi.

Þetta er rán og eignaupptaka á fjármunum heimilanna, sem engin hækkun á fasteignamati getur bætt upp, enda eykur hún ekki ráðstöfunarfé heimilanna á nokkurn hátt heldur aðeins kostnað þeirra.

Þetta ofbeldi verður að stöðva og það ber ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að gera án tafar áður en skaðinn verður meiri en þegar er orðið.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að vextir verði lækkaðir nú þegar, að minnsta kosti jafn mikið og verðbólga hefur lækkað frá því að hún náði hápunkti fyrir rúmu ári síðan.

 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna




© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum