Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Leigumarkaðurinn og húsnæðisliður vísitölunnar

Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur sífellt hallað undan fæti hjá heimilum landsins. Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill lýsa yfir fullum stuðningi við baráttu Samtaka leigjenda. 

Ástandið á leigumarkaðnum er vægast sagt hræðilegt. Það er ekki of djúpt í árina tekið að segja að hann einkennist af stjórnleysi, kerfisbundinni fjárkúgun og misbeitingu á varnarlausum leigjendum, sem einhversstaðar þurfa höfði sínu að halla.

Þessu ástandi hefur verið mætt af ámælisverðu skeytingarleysi af hendi stjórnvalda og ekki nóg með það, heldur er það við þennan ógnarmarkað sem hlítir engri stjórn sem Hagstofan vill miða húsnæðislið vísitölunnar, sem nær augljóslega ekki nokkurri átt.

Lesa áfram...

Umræðufundur um stöðu heimilanna - upptaka

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir umræðufundi um stöðu heimilanna í Iðnó snemma á árinu. Samtökin kölluðu til opins fundar og pallborðsumræðu baráttufólks fyrir bættum fjárhag heimilanna í efnahagslegum ólgusjó, þá ekki síst í húsnæðismálum. Fundurinn var tekinn upp og hér vill stjórn samtakanna deila upptökunni með félagsmönnum, velunnurum og samstarfsfólki á YouTube rás samtakanna. Efni fundarins var meðal annars hæg uppbygging hagkvæmra íbúða fyrir almenning og leigumarkaður sem er sannarlega ekki leigjendavænn. Síðast en ekki síst var rætt um verðtryggingu lána og slæma stöðu lántakenda í íbúðakaupum sem standa frammi fyrir sífelldum hækkunum á greiðslubyrði vaxta og oftar en ekki höfuðstóls þar að auki.  Fyrirhyggju með almannahag að leiðarljósi skortir og hefur lengi skort í þessum málaflokkum. 

Lesa áfram...

Heimilin eiga að vera friðhelg

Fyrsti maí 2023

Öryggisleysið í húsnæðismálum Íslendinga er afhjúpað í hárri verðbólgu, síendurteknum hækkunum stýrivaxta og sinnuleysi stjórnvalda. Þetta er óumdeilanlegt fyrir þá einstaklinga sem greiða alltof hátt hlutfall launa sinna í leigukostnað og þeirra sem eiga í erfiðleikum með að mæta hækkandi greiðslubyrði húsnæðislána eða einfaldlega geta það ekki lengur. Rétturinn til eigna er því misskiptur og rétturinn til öryggis á leigumarkaði er vanvirtur. Í þessum sívaxandi húsnæðisvanda vekur furðu að stjórnvöld ætli ekki að bregðast við. Enn fjarlægari virðast áform um að sækja skatttekjur til þeirra sem hafa beinlínis rakað að sér auði í verðbólgu eða aukið álögur sínar og hagnað á kostnað heimilanna.

Fyrsta maí mótmæltu Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda í sameiningu þessu öryggisleysi og misrétti í húsnæðismálum í kröfugöngu launafólks.

Lesa áfram...

Fátækragildra verðtryggðra lána

Í síðasta tölublaði Stundarinnar (September 2022) var fjallað um áhrif vaxtahækkana á lántakendur og viðhorf þeirra og sérfræðinga til stöðunnar á húsnæðismarkaði. Í umfjöllun Stundarinnar koma fram sjónarmið sem að jafnaði eru ekki ofarlega í umræðu um húsnæðismál eða verðtryggð lán. Úttekt Stundarinnar gefur innsýn í fjárhagslegt og félagslegt misrétti sem lítið sem ekkert hefur verið fjallað um hingað til, en Hagsmunasamtök heimilanna þekkja mætavel.

Aldrei aftur verðtryggt lán

Það kemur þeim hagfræðingum sem Stundin ræddi við ekki á óvart að lántakendur haldi tryggð við óverðtryggð lán þrátt fyrir miklar hækkanir vaxta. Heilt yfir er það mat sérfræðinganna sem Stundin ráðfærir sig við að fólk sé að halda í óverðtryggð lán í lengstu lög og því hafi færri fært sig yfir í verðtryggð lán en kannski mátti búast við. Staðan gæti þó breyst og lántakendur gætu í auknum mæli þurft að færa sig yfir í verðtryggð lán, til að létta greiðslubyrðina (tímabundið).

Skýr samhljómur virtist vera meðal viðmælenda, bæði sérfræðinga og leikmanna um að verðtryggð lán séu lakasti kosturinn í íbúðarkaupum.

Lesa áfram...

Að verja heimilin með því að merja þau

Vextir hafa hækkað um 633% en launþegar eiga að sýna „skynsemi“ í launakröfum.

„Eigi skal höggva“, sagði Snorri Sturluson áður en hann var veginn. Þau orð eiga vel við núna því vaxtahækkun Seðlabankans í morgun er enn einn rýtingur í bakið á heimilum landsins. Aftur skal hoggið í sama knérunn og aftur eru það þau sem minnst hafa og mest skulda sem verst verða úti.

Vaxtahækkanir eru ekki lögmál og alls í ekki í þeim mæli sem Seðlabanki Íslands er að leyfa sér að beita þeim á þessum tímum. Heimili landsins munu langflest standa undir hækkandi vöruverði vegna verðbólgunnar, en þegar „lækningin“ margfaldar byrðar hennar, er hætt við að eitthvað láti undan.

Lesa áfram...

Íþyngjandi skattar eiga aldrei að hækka sjálfkrafa

Samtökin hafa sent áskorun til stjórnvalda um húsnæðismál og hækkun fasteignamats

Í síðustu viku tilkynnti Þjóðskrá nýtt fasteignamat sem mun hækka um tugi prósenta á einu bretti um næstu áramót. Sé litið til ástandsins á fasteignamarkaði og gríðarlegra verðhækkana á húsnæði kom þetta ekki sérstaklega á óvart og eðlilegt er að fasteignamat endurspegli raunverð á markaði.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð.

Það er staðreynd að hærra fasteignamat hækkar ekki ráðstöfunarfé heimila eða fyrirtækja. Jákvæð áhrif eru í raun engin, nema kannski “á pappírum” en neikvæðu áhrifin eru hins vegar þó nokkur og munu m.a. birtast í auknum útgjöldum vegna gjalda sem miðast við fasteignamat.

Áhrif hækkunar fasteignamats

Þar má fyrst nefna fasteignagjöld sem munu hækka um tugi þúsunda af meðalíbúð vegna þessarar hækkunar á fasteignamati. Á sama tíma og það gerist horfast bæði heimili og fyrirtæki í augu við gríðarlegar hækkanir á afborgunum lána auk þess sem allar nauðsynjavörur hafa hækkað mikið.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum