Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Greiðsluþak á óverðtryggðum íbúðalánum

Með hagsmuni lántakenda í forgrunni í sínu starfi hafa samtökin kallað eftir því að bankarnir efli þjónustu sína við heimilin með sanngirni í lánskjörum að leiðarljósi. Nýlega kynnti einn þeirra greiðsluþak á óverðtyggðum íbúðalánum. Hér eru nánari útskýringar á því í hverju greiðsluþak felst en við hvetjum fólk einnig til þess að leita til Hagsmunasamtaka heimilanna ef þörf er á óháðu mati eða leiðsögn við endurfjármögnun eða skilmálabreytingu lána.

Greiðsluþak - vaxtagreiðsluþak

Beðið hefur verið eftir því að fjármálastofnanir hugsi í lausnamiðuðum farvegi og bjóði nothæfar lausnir vegna stighækkandi vaxta og hækkandi greiðslubyrði á óverðtryggðum íbúðalánum. Fram að þessu hefur verið einungis verið eitt ráð við þessum mikla vanda, sem er að færa sig yfir í verðtryggð lán. Þegar þar er komið þá gerir það neytendum því miður erfitt fyrir fara aftur á milli lánsforma vegna þess að þá eru minni líkur á að viðkomandi standist greiðslumat eða greiðslubyrðarhlutfall til þess að fara aftur yfir í óverðtryggt lán. Þar með situr neytandinn því fastur án þess að eiga annarra kosta völ.

Lesa áfram...

Gjaldtaka og arðsemi bankanna

Í ágústlok kom út skýrsla starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi banka á Íslandi. Kristín Eir Helgadóttir var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna í starfshópnum. Hér er að finna ályktun frá stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vegna útgáfu skýrslunnar. 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur að helstu niðurstöður hafa í aðalatriðum blasað við eins og samtökin hafa oft bent á, en þær eru:

  • Bankarnir hafa aldrei hagnast meira en í fyrra
  • Lækkun bankaskatts hefur ekki skilað sér til neytenda
  • Stærsti tekjupóstur bankanna eru vextir af lánum
  • Arðsemi bankanna hefur aldrei verið meiri 

Fleira mætti tína til, en þetta er í samræmi við þær áherslur sem Hagsmunasamtökin hafa haldið á lofti.

Það voru þó ákveðnar takmarkanir við gerð þessarar skýrslu sem fulltrúi samtakanna gerði ítrekað athugasemdir við en þær koma ekki fram í skýrslunni. Það skiptir máli að koma þeim athugasemdum að, sérstaklega í ljósi þess að nú hamast bankarnir við að hampa sjálfum sér í tengslum við skýrsluna.

Frá árslokum 2022 og fram að öðrum ársfjórðungi 2023 hafa orðið miklar breytingar sem eiga rætur sínar að rekja til stýrivaxtahækkana. Vaxtamunur hefur aukist stöðugt frá árslokum 2022 þegar hann var 2,8% í tæplega 3,1% í lok annars ársfjórðungs 2023 og er nú hærri en áður en bankaskatturinn var lækkaður en það er töluverð hækkun á stuttum tíma.

Allt of lítil áhersla var lögð á að skoða hækkandi greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána og vaxtatekjur sem bankarnir moka inn af þeim. Það er sama sagan, þetta er ekki skoðað frá árslokum 2022 og það sem af er ári 2023. Það er stóri vandinn sem skiptir mestu máli núna.

Það fór líka of lítil vinna og rannsókn í að skoða bæði neytendamál og samkeppnismál þar sem það gafst ekki tími til þess sökum umfangs og afmörkunar verkefnisins og það vantar í skýrsluna. Þetta eru málefni sem eru gríðarlega mikilvæg, sérstaklega þar sem neytendur semja í dag frá sér öll réttindi þegar þeir skrifa undir margra blaðsíðna neytendalánaskilmála við lántöku.

Verðskrá bankanna er einnig síbreytileg en frá því að greining fór fram, fram að árslokum 2022, hafa bankarnir breytt verðskrám og sá banki sem kom best út í gjaldaliðum kemur verst út núna.

Þetta sýnir okkur að eina leiðin til að veita bönkunum aðhald á markaði er að skýrsla sem þessi sé gefin út á hverju ári. Það skiptir máli að bankarnir geti ekki skýlt sér á bak við hluta af niðurstöðum sem „besti bankinn“ í þessu hraðbreytilega umhverfi vaxta og kostnaðar þegar mestu máli skiptir að ná tökum á vaxta- og verðbótagreiðslum heimilanna!

Þessi skýrsla staðfestir þó algjörlega málflutning samtakanna öll þessi ár. Það að bankarnir geti sett sér 10-13% arðsemiskröfur og greitt út milljarða í arð en látið svo eins og þeir séu að lepja dauðann úr skel því að þessi arðsemi gangi þeim svo nærri segir allt sem segja þarf!



Lesa áfram...

Ekkert réttlætir sífelldar árásir á heimilin

Yfirlýsing frá stjórn samtakanna

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma fjórtándu vaxtahækkun Seðlabankans í röð og lýsa yfir áhyggjum af afdrifum heimila sem ekki standa undir sífelldum vaxtahækkunum. Greiðslubyrði húsnæðislána hefur margfaldast og eina „lausn“ margra heimila er að flýja yfir í verðtryggð lán í von um skjól.

Verðtryggð lán veita eingöngu tímabundið svikaskjól en það mun hverfa áður en langt um líður og þá munu tugþúsundir heimila standa á berangri, varnarlaus fyrir ásókn banka, sem eins og dæmin sanna munu ekki hika við að hirða af þeim húsnæðið og senda þau á götuna.

Lesa áfram...

Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!

Seðlabankinn hækkaði meginvexti sína um 1 prósentustig í gær eða um  36% og flestir gera ráð fyrir að bankarnir fylgi í kjölfarið og hækki vexti á húsnæðislánum og öðrum neytendalánum.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna bankana á að þegar meginvextir Seðlabankans lækkuðu á síðasta ári, þá fylgdu lækkanir bankanna ekki eftir í sama hlutfalli.

Almennt hafa vextir bankanna að undanförnu verið 40%-75% hærri en meginvextir Seðlabankans. Þannig að þegar meginvextir Seðlabankans hafa verið 2,75% hafa vextir bankanna á húsnæðislánum verið í kringum 4,7% á óverðtryggðum íbúðalánum. Að undanförnu hafa vextir bankanna þannig verið um 42% hærri en meginvextir Seðlabankans.

En þá komum við að því sem gerðist, eða gerðist ekki, þegar viðmiðunarvextir Seðlabankans fóru niður í 0,75%. Þá hefðu vextir bankanna átt að fylgja hlutfallslega með og fara niður í rétt rúmlega 1% á óverðtryggðum lánum.

Lesa áfram...

Hótanir um hefnd

Hér á landi eru þrír bank­ar sem hafa sam­an­lagt hagn­ast um a.m.k. 960 millj­arða frá efna­hags­hrun­inu 2008. Til að setja þessa upp­hæð í sam­hengi þá sam­svar­ar hún því að hvert ein­asta manns­barn í 360.000 manna sam­fé­lagi hafi lagt 2,5 millj­ón­ir til HAGNAÐAR bank­anna.

Of mikil völd

Það er staðreynd að bank­arn­ir stunda í raun sjálf­töku á Íslandi. Þeir hafa tögl­in og hagld­irn­ar gagn­vart öll­um sín­um viðskipta­vin­um og á milli þeirra er eng­in sam­keppni held­ur fákeppni þannig að ef t.d. einn bank­inn hækk­ar vexti, þá gera hinir það líka.

Lesa áfram...

Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

Fréttatilkynning 15. desember 2021

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma aðgerðir og yfirlýsingar Íslandsbanka sem eru til þess gerðar að blekkja neytendur til að velja eða skipta yfir í verðtryggð lán að nýju. Neytendur skulu hafa það í huga að bankar eru almennt ekki með hagsmuni neytenda í huga heldur eru hagsmunir þeirra sjálfra og þeirra fjárfesta, ávallt í forgrunni. Í hartnær fjörtíu ár hafa bankarnir makað krókinn á verðtryggðum lánum heimilanna sem hækka og hækka í allt að 25 ár þrátt fyrir að samviskusamlega sé greitt af þeim. 

Eftir þann tíma tekur höfuðstóll lánanna svo smám saman að lækka, hafi lántakandi yfirleitt ráðið við hækkandi afborganir fram að því. En jafnvel þá hækka afborganir áfram í veldisvexti því aðeins þannig næst að greiða niður stórhækkaðan höfuðstól á tilskildum tíma.

Lesa áfram...

Bankarnir skulda heimilunum lægri vexti

Aðstöðumunur á milli banka og neytenda er bæði augljós og áþreifanlegur og komi upp ágreiningur þarf því miður sjaldnast að spyrja að leikslokum.

Þessi aðstöðumunur blasir nú við í formi vaxtahækkana. 

Við höfum seðlabanka á Íslandi sem notar stýrivexti til að hafa áhrif á hagkerfið, bæði til að auka eða draga úr þenslu eftir þörfum.

En fyrir hvern eru þessar vaxtastýringar og hvernig eiga þær að hafa tilætluð áhrif ef þær skila sér ekki á lán heimilanna nema til hækkunar?

Þegar stýrivextir seðlabankans lækka er allt annað upp á teningnum. Þá er eins og seðlabankinn og bankarnir séu í sitthvoru hagkerfinu og engar tengingar á milli. 

Þó að bankarnir hafi lækkað vexti hefur samt munað á bilinu 170% - 250% á því sem vextir ættu að vera ef vaxtalækkanir seðlabankans skiluðu sér til neytenda og því sem þeir eru í reynd.

Þessa skuld við neytendur, heimilin í landinu, verða bankarnir að gera upp og greiða!

 

Tölur um vaxtalækkanir 

Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,5%. Síðan þá hafa þeir í skrefum verið lækkaðir niður í 0,75%, en hafa nú nýlega hækkað upp í 1,25%. Stýrivextirnir eru því núna 72% lægri en í byrjun vaxtalækkunarferlisins.

Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu óverðtryggðir vextir íbúðalána hjá bönkunum 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 3,45%, eða um einungis 42,5%.

Ef óverðtryggðir bankavextir hefðu hins vegar þróast á sama hátt og stýrivextir og lækkað um 72% ættu þeir núna að vera um það bil 1,7%.

Verðbólga er nú 4,3% þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera orðnir neikvæðir -0,85%, en eru nú lægstir 1,9% hjá bönkunum.

 

Munurinn á því sem er og því sem ætti að vera

Þegar litið er á mismuninn á tölunum 1,7% og 3,45% þá eru þetta „einungis“ 1,75 prósentustig sem virðist ekki vera mikið. Svona hækkun á mjólkurlítranum myndi ekki hreyfa neitt sérstaklega við okkur enda erum við öllu vön í þeim efnum.

En þegar um er að ræða tugmilljóna króna húsnæðisskuldbindingar okkar skipta þessi prósentustig verulegu máli. Vextirnir eru nú 200% hærri en þeir ættu að vera og lengi vel munaði heilum 250%.

Þrátt fyrir þennan gríðarlega mun er sagt að neytendur eigi að búa sig undir vaxtahækkanir, því núna þegar seðlabankinn hækkar sína stýrivexti um 0,25% er búist við að bankarnir geri það sama. Þeir eiga samt enn eftir að greiða skuld sína við heimilin vegna vaxtalækkana síðasta árs, sem skiluðu sér ekki til þeirra nema í takmörkuðum mæli.

Það er lágmark að þeir geri það áður en stjórnendur þeirra svo mikið sem íhuga hækkun vaxta.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórn Íslands beiti þeim tækjum sem hún hefur til að láta bankana skila vaxtalækkunum síðasta árs til neytenda og banna þeim að hækka vexti frekar fyrr en það hefur verið gert. Stýrivextir seðlabankans eiga ekki að vera eins og hlaðborð fyrir bankana til að velja það sem þeim hentar hverju sinni.

Til hvers er seðlabankinn ef bankarnir þurfa ekki að fylgja fordæmi hans nema þeir vilji það sjálfir og hvernig eiga stýritæki hans að virka þegar svo er?

 

Krefjum bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð í verki!

Látum bankana greiða skuldir sínar við heimilin!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

 

 

Lesa áfram...

Heimilin eiga inni allt að 250% vaxtamun

Fréttatilkynning

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að bankarnir dragi vaxtaokur og vaxtahækkanir sínar til baka og geri þeir það ekki að eigin frumkvæði grípi stjórnvöld til þeirra úrræða sem þau geta til að stöðva þessa ósvinnu. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka kröfu sína fyrir hönd heimilanna í landinu um að bankarnir taki á sig byrðarnar með öðrum í samfélaginu og benda á þá staðreynd að heimilin eiga inni hjá bönkunum allt að 250% vaxtamun á húsnæðislánum.

Neytendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að sú lækkun nái strax fram að ganga.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það er ólíðandi að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa, ekki síst í núverandi árferði.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum