Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Fyrsti dómur fellur í gengistryggðu láni

Dómsmál E-4501/2009 var tekið fyrir föstudaginn 13. nóv. og dómur birtur 3. des. 2009

Í stuttu máli var stefnanda SP-fjármögnun dæmt í hag þrátt fyrir yfirgnæfandi rök um að lán sem þessi væru ólögmæt. Ekki þarf að fjölyrða um að þetta eru Hagsmunasamtökum heimilanna mikil vonbrigði og nokkuð ljóst að dómarar eins og Páll Þorsteinsson eru tilbúnir að dæma þvert ofan í gildandi lög frá 38/2001 um vexti og verðbætur.

Lesa áfram...

Boðað til greiðsluverkfalls 15. nóv til 10 des 2009

Greiðsluverkfallsnefnd HH hefur að vel ígrunduðu máli ákveðið að boða til GREIÐSLUVERKFALLS FRÁ 15. NÓV. TIL 10. DES. 2009.

Að mati stjórnar HH hefur á engan hátt verið svo mikið sem nálgast kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu höfuðstóla íbúðalána heimilanna hvað þá leiðréttingu á öðrum neytendalánum eða endurskoðun á verðbreytingarákvæðum íbúðalána og útreikningum verðtryggingar. Hvorki stjórnvöld, Samtök fjármálafyrirtækja né Landssamband lífeyrissjóða hafa tekið boði samtakanna um samningaviðræður.

Þvert á móti hafa stjórnvöld nú sett lög ("kreppuhalalögin") sem miðast við að staðfesta eignaupptöku fjármálastofnana í helsta sparnaðarformi landsmanna, heimilum þeirra. Forsendubresturinn hefur í reynd verið viðurkenndur, kröfuhafar gömlu bankanna hafa viðurkennt tapið en stjórnvöld og fjármálakerfið eru staðráðin í að halda heimilunum í gíslingu stökkbreyttra höfuðstóla. Reynt er að blekkja okkur með því að tala um "leiðréttingu afborgana" og lengt í ólinni svo tærnar ná að tylla sér og yfirvofandi fjárhagsleg aftaka er dregin á langinn. Engin leiðrétting fer fram á verðbreytingarþætti verðtryggðra eða gengistryggðra lána. Gefin eru óljós loforð um að þetta verði gert seinna þegar betur stendur á. Það er samtökunum hinsvegar alveg ljóst að ef ekki fer fram leiðrétting undir núverandi kringumstæðum, ef menn eru ekki að sjá nauðsyn þess núna munu þeir ekki sjá nauðsyn þess seinna nema þá þegar það er um seinan og skaði þúsunda heimila er óafturkræfur.

GREIÐSLUVERKFÖLL MUNU ÞVÍ HALDA ÁFRAM ÞAR TIL STJÓRNVÖLD OG RÁÐAMENN FJÁRMÁLAKERFIS SJÁ SÉR FÆRT AÐ SEMJA VIÐ HAGSMUNASAMTÖK HEIMILANNA UM LEIÐRÉTTINGU FYRIR HEIMILIN Í LANDINU.

Við viljum réttlæti og höfnum ölmusu þönkum ráðamanna og fjármálakerfis. Hér er um okkar verðmæti að ræða, þeim verður ekki deilt út til bjargar fjármálakerfi sem hefur enn ekki hysjað upp um sig.

Lesa áfram...

SP-fjármögnun braut á viðskiptavinum

Af vef mbl.is: "Neytendastofa telur að eignaleigan SP–Fjármögnun hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að breyta almennum skilmálum bílasamninga í erlendri mynt á þá leið að föstu vaxtaálagi skuli framvegis vera unnt að breyta árlega.Neytendastofa telur breytinguna of viðamikla til þess að hún yrði framkvæmd með einfaldri skilmálabreytingu. Þá taldi stofnunin sérstaklega ámælisvert að breytingin hafi ekki verið kynnt lántaka sérstaklega." Lesa nánar hér á mbl.is og úrskurð neytendastofu hér.

 

Lesa áfram...

Kaupum við HS Orku?

Því hefur verið stungið að HH að heimilin hefðu hag af því að halda eignarhaldi á HS Orku innanlands. Lagt er til að almenningur kaupi 1/3 hlut á móti ríki og lífeyrissjóðum. Stofnaður hefur verið hópur á Fésbókinni (Facebook) sem stefnir að þessu markmiði.

Lesa meira hér

 

Lesa áfram...

Ég, í nafni skuldunauta, vil taka yfir banka

Svo mælir Gandri:

"Ég undirritaður, Guðmundur Andri Skúlason, kt. 190471-4629, óska eftir að komast í samband við skuldara Frjálsa fjárfestingabankans í þeim tilgangi að mynda með skuldunautum bankans hóp sem tæki að sér milliliðalaust, að semja við kröfuhafa bankans."

Lesa meira hér

Lesa áfram...

Ræða formanns, Austurvelli 27. júní 2009

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

„Ef vér slítum í sundur lögin, slítum vér og í sundur friðinn“

Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bókmennta sem skrifaðar voru á mestu ófriðartímum þjóðarinnar, þegar kristni var tekin upp á Íslandi árið 1000.  En hvernig skildu menn þess tíma hugtakið lög?  Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðarleiki.  Ef lögin voru slitin, ef samfélagið var brotið upp var ófriður skollinn á.  Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa „slitið í sundur lögin“.

Sem frjálsir þegnar hefur almenningur í landinu kosið sér fulltrúa, sér jafna menn og konur, til að fara með hagsmunamál sín í stjórnsýslu og lykilstofnunum samfélagsins.  Það er gert í því sjónarmiði að jafna stöðu þegnanna á milli, skapa jöfn skilyrði til atvinnustarfsemi og jafnframt að hlúa að uppbyggingu samfélagslegra þátta.

Undanfarin ár hefur þessi skilningur allur snúist á hvolf, þegnarnir eru farnir að þjóna samfélagsyfirbyggingunni og eru orðnir að þrælum fjármálastofnanna.  Ef skapa á skilyrði fyrir frjálsa þegna til að búa í þessu landi til framtíðar verður að snúa þessum formerkjum aftur við og hlúa að grunnstoðum samfélagsins, þegnunum sjálfum, heimilunum í landinu.
---
Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa nú um nokkurt skeið unnið hörðum höndum að gerð stöðugleikasáttmála.  Fyrir nokkrum vikum tóku Hagsmunasamtök heimilanna sér það bessaleyfi að senda samningsaðilum sínar áherslur málsins vegna. Við teljum ljóst að alger forsendubrestur sé kominn upp í veðlánum heimila, bæði hvað varðar verð‐ og gengistryggð lán, sem vegur að fjárhagslegu sjálfstæði íslenskra heimila og grefur undan tilvist þeirra og framtíðarsýn.  Forsendur endurreisnar eru að leiðréttingar á stöðu mála eigi sér stað og í framhaldi sameinist hagsmunaaðilar og stjórnvöld um endurmótun og þróun kerfis með það að leiðarljósi að ábyrgð í lánveitingum verði framvegis deilt á milli samningsaðila.  Jafnframt verði samtímis hafist handa við að snúa ógnvekjandi skuldastöðu heimilanna við en frá 1980 til 2008 hefur skuldastaða heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunatekjum farið úr 20% í liðlega 300%.
Aðgerðaáætlun sú sem við kynntum til leiks er ítarleg og sett fram í 3 áföngum.  Í fyrsta lagi leggum við til ýmsar bráðaðgerðir á borð við leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána.  Að bráðaðgerðum loknum þarf að vinna með skipulögðum hætti að viðsnúningi á skuldastöðu heimilanna.  Að lokum verði unnið að efnahagslegu jafnvægi til framtíðar þar sem grunnkrafan er lað ausnir í dag skapi ekki augljós vandamál til framtíðar.

Það er skemmst frá því að segja að okkur var ekki boðið til sætis við „stóra borðið“ í ár, eins og samningsvettvangur aðila er gjarnan kallaður. Í vikunni sem leið var svo stöðugleikasáttmálinn undirritaður við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu.  Í fréttum var samningurinn sagður afar mikilvægur áfangi  og veigamikil forsenda fyrir endurreisnarstarfinu á næstu misserum.  Óskaði forsætisráðherra þjóðinni til hamingju með samninginn.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega hamingjusamur með þennan samning.  En við hverju er að búast.  Ég er ekki þjóðin.
Stöðugleikasáttmálinn tryggir í sessi efnahagsáætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda þar sem áformað er meðal annars að stoppa upp í 130 milljarða fjárlagagat frá 2009 til 2011.  Það er álíka mikið og fer í rekstur heilbrigðis- og menntakerfis þjóðarinnar á heilu ári.  Í því samhengi má spyrja hvernig skuldastaða heimilanna mun koma til með að líta út að þeim tíma liðnum þegar gjaldþrot vísitölufjölskyldunnar liggur fyrir fyrir liggur samkvæmt opinberum tölum Hagstofunnar, það er að hún er nú rekin með um 2 milljón króna halla á ári að meðaltali.  Engir slík áætlun af hálfu stjórnvalda liggur fyrir.

Burt séð frá því sáu samningsaðilar þó ástæðu til að setja inn klausu varðandi skuldsett heimili þar sem megin inntakið er „að tryggja að þau úrræði sem þegar hefur verið komið á gagnist, eins og vænst var og að tillögur um viðbótarúrræði verði gerð í samráði við aðila vinnumarkaðarins eftir því sem þörf krefur“.

Öll úrræði, sem kynnt hafa verið til sögunnar hingað til af hálfu stjórnvalda, snúast fyrst og fremst um að gulltryggja að fólk haldi áfram að greiða af stökkbreyttum skuldbindingum sem hafa rokið upp úr öllu valdi á brostnum forsendum.
Úrræðin virðast því fyrst og fremst hafa þann tilgang að verja hagsmuni lánveitenda eins og frekast er kostur enda kannski ekki við öðru að búast þegar lánveitendur hanna úrræðin sjálfir.

Það er ljóst að þeir aðilar sem hafa haft því hlutverki að gegna í gegnum tíðina að standa vörð um hagsmuni launþega sitja orðið báðum megin við borðið.  Og satt best að segja grunar mig að verkalýðsforystan sjái hreinlega ekki hinn almenna launamann fyrir peningahrúgunni sem henni hefur verið falið að hlúa að fyrir lífeyrissjóðina. 

Herdís Dröfn Baldvinsdóttir hefur gert doktorsverkefni um tengsl og samgróna innviði íslenska fjármálageirans og verkalýðssamtaka. Í útdrætti segir meðal annars að sterk yfirráðastétt, eða elíta, ríki á landinu, og bindiafl hennar felist meðal annars í krosseignatengslum en einnig öðrum kross-yfirráðum, ef svo má að orði komast. Meginniðurstaðan er sú að „með samstarfi við starfsfólk í einkalífeyrissjóðageiranum hafi verkalýðshreyfingin verið innlimuð í þessar ytri valdaformgerðir, með gríðarmiklu og flóknu neti samtengdra yfirráða á sviði einkalífs og fjármála. Það er megin þversögn verkalýðshreyfingarinnar: hún er orðin veikburða fyrir hönd meðlima sinna en sterk fyrir „ríkjandi yfirstétt“.

Þó niðurstaða Dr. Herdísar sé sjokkerandi í sjálfu sér verður að viðurkennast að hún er allt að því fyrirsjáanleg. Því mætti jafnvel segja að það þyrfti engan kjarneðlisfræðing til að koma auga á samruna fjárvaldsins og forystu verkalýðshreyfingarinnar. Til dæmis má nefna að í mörgum tilfellum við útgreiðslu launa er launagreiðendum uppálagt að leggja verkalýðsfélagsgjöld starfsmanna beinustu leið inn á bankareikninga lífeyrissjóða.  Eitt af skiltunum sem sjá mátti í kröfugöngu þann 1. maí síðast liðinn bar áletrun sem segir allt sem segja þarf: „ASÍ er skúffufyrirtæki“.

Aukaársfundur ASÍ 2009 var haldinn í mars síðast liðinn.  Í setningarræðu sinni gerði forseti ASÍ vanda heimilanna að umtalsefni.  Honum varð að orði:  „Það er ... mikið áhyggjuefni hvernig bæði stjórnmálaflokkar og sjálfskipaðir bjargvættir hafa afvegaleitt umræðuna um raunhæfar lausnir á vanda heimilanna. Yfirboð um almenna lækkun skulda sem fjármagna á með galdraþulum skapa auðvitað væntingar meðal almennings um það sem vitað er að ekki verður hægt að mæta.“

Það er dapurlegt að hafa þessi orð eftir forseta Alþýðusambandsins.  Að mínu viti ætti hann og hans líkar að leggja meiri áherlsu á að elta uppi alkemistana sem með aðstoð ráðandi afla rændu bankana innan frá í stað þess að setja púður í að ráða almenningi frá réttlæti og skynsemi.

Í samhengi við gerð stöðugleikasáttmálans ritaði Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur ágæta grein sem kallast „Hinar nýju stéttir – lánadrottnar og skuldarar“.  Í greininni kemur meðal annars fram að frá og með áttunda áratugnum hafi aðgangur að lánsfé stóraukist og í krafti þess hafi hefðbundin stéttabarátta milli launþega og atvinnurekanda mun minna vægi en áður.  Þess í stað hafi orðið til nýjar stéttir eins og titill greinarinnar ber vitni um.

Með leyfi fundarstjóra langar mig að lesa nokkrur orð upp úr grein Ingólfs:

„Það tók innan við þrjátíu ár að breyta aldagamalli stéttarskiptingu þjóðfélagsins úr því að vera á milli launþega og atvinnurekenda í það að vera á milli lánadrottna og skuldunauta. Hver einasti vinnandi maður skuldar lánastofnun sinni að meðaltali tvöfaldar til þrefaldar árstekjur sínar. Vaxtakjör skipta orðið meira máli en launakjör. Samningstaða gangvart lánadrottni skiptir meira máli en við vinnuveitanda og það sem gerir stöðuna sérstaklega erfiða er að það eru engin stéttarsamtök skuldara til, aðeins stéttarsamtök launþega.

Á Íslandi er óréttlætið í stéttskiptingu skuldunauta og lánadrottna ekki fólgið í því að stéttaskiptingin sé yfirhöfuð til, heldur er það fólgið í verðtryggingu lánsfjármagns. Það er gegn þessu óréttlæti sem almenningur er að berjast, óháð því hverjar tekjur hans eru og óháð því hvort hann á eitthvað af eignum eða ekki. Sá göfugi vilji ríkisstjórnarinnar að ætla að ræða málefni heimilanna í landinu við samtök atvinnulífsins eru því dæmd til þess að mistakast. En henni er kannski vorkunn því að við hvern á hún að tala? Það eru bara til heildarsamtök lánadrottna en engin heildarsamtök skuldunauta! Mín fátæklegu ráð til ríkisstjórnarinnar eru því einfaldlega þau að hlusta á fólkið í landinu og framkvæma svo vilja þess.“

Það er ekki annað hægt en að taka heilshugar undir með Ingólfi í þessum efnum.  Þó leyfi ég mér að fullyrða að Hagsmunasamtök heimilanna séu í það minnsta vísir að lánþegasamtökum.  Við höfum alla vega tekið afgerandi stöðu sem málsvari lánþega á neytendasviði.  Sem slík erum við gjörsamlega búin að tala okkur blá í framan við dræmar undirtektir stjórnvalda.  
Því spyr ég ykkur fundarmenn að því nú hvort tími sé kominn til aðgerða?

Aðstæður eru nú með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að grípa til nauðvarnar til að knýja fram tafarlausar úrbætur, þjóðinni til heilla. Satt best að segja átti ég aldrei von á því að til þessa myndi koma.  Ég kaus að treysta því í lengstu lög að stjórnvöld myndu átta sig á því að það væri í þeirra valdi að afstýra stórkostlegu tjóni og allsherjar upplausnarástandi í þjóðfélaginu sem ég hef áður varað við og vísað til sem fjárhagslegrar borgarastyrjaldar.

Sú styrjöld er reyndar hafin fyrir margt löngu síðan, en áhrif hennar eru nú byrjuð að koma fram með víðtækari hætti en áður. Flestum er sjálfsagt ennþá í fersku minni Álftanesaðferðin, sem svo hefur verið nefnd, þegar maður sem misst hafði hús sitt afréð að rústa það með þungavinnuvél á sjálfan þjóðhátíðardaginn.

Þó mótmælin á 17. júní hafi ekki ratað inn í beina útsendingu Ríkissjónvarpsins frá Austurvelli var sýnt þegar forsætisráðherra og forseti lögðu blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, sjálfstæðisímynd þjóðarinnar. En hvað felst í því sjálfstæði?  Jú, vissulega liggur beint við að skírskota til hins fullvalda lýðveldis, en spyrja má að því hvernig slíkt fullveldi var fengið.  Með þrælslund og undirlægjuhætti? Eða þurftu menn og konur að taka á honum stóra sínum og standa með sjálfum sér og gegn hvers kyns ofríki þegar á hólminn var komið?
Ef við samþykkjum hljóðalaust það óréttlæti sem felst í höfuðstólshækkun lána á grundvelli vafasamra vísitölu- og gengisbindinga erum við þá nokkuð annað en skuldaþrælar sem ekki þorum að rísa upp og berjast fyrir réttindum okkar?

Í vikunni sem leið voru haldnir fundir víðsvegar um landið á vegum HH um boðun greiðsluverkfalls.  Í beinu framhaldi óskaði stjórn HH eftir umboði félagsmanna til að skipa verkfallsstjórn og hefja aðgerðir eins og þær hafa verið skilgreindar.  Kosning fór fram rafrænt og liggja niðurstöður nú fyrir.  Þær eru afgerandi.  77% svarenda sögðu já.

Í raun er margt líkt með greiðsluverkfalli og hefðbundnu verkfalli.  Mikilvægt er að hafa í huga að venjulega leggur fólk ekki niður störf vegna þess að það ætli sér að hætta að vinna.  Nei, fólk fer í verkfall til að berjast fyrir bættum kjörum. Þetta má algerlega yfirfæra á greiðsluverkfallið.  Ég veit til dæmis ekki um neinn sem vill hætta að borga af lánunum sínum eða hefur ekki áhuga á að standa við þær skuldbindingar sem viðkomandi stofnaði til í góðri trú.  Hins vegar veit ég um marga sem eru mjög ósáttir við þau lánakjör sem bjóðast á Íslandi um þessar mundir og framgöngu stjórnvalda í þeim málum.

Til að auka líkurnar á að hertar aðgerðir skili árangri er nauðsynlegt að skipulegga þær vel.  Hlutverk verkfallsstjórnar verður að skipuleggja og sjá um framkvæmd verkfallsins.  Hugsanlega verður ákveðið að boða verkfallið þegar nægilegur fjöldi hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í hertum aðgerðum með einum eða öðrum hætti.  Líkt og þegar um hefðbundið verkfall er að ræða verður kröfugerð afhent ríkissáttasemjara við boðun greiðsluverkfalls og þess freistað að fá stjórnvöld að samningaborðinu.
Það skal sérstaklega tekið fram að markmiðið með aðgerðinni er ekki að valda tjóni heldur að vinna gegn frekara tjóni síðar meir sem mun eiga sér stað verði stefnan ekki tekin í rétta átt.

En hvers vegna ætti nokkur maður að taka þátt í slíkum aðgerðum?  Þessari spurningu er erfitt að svara nema út frá eigin forsendum. Ég er reiðubúinn að deila með ykkur hvers vegna ég íhuga þátttöku. Í fyrsta lagi ber að nefna skálkaskjól þeirrar efnahagsóstjórnar sem hér hefur liðist, höfuðóvin íslenskrar alþýðu á efnahagslegum grundvelli, sjálfa verðtrygginguna, sem verður að afnema með öllu.  Verðtryggingin er ekki bara óréttlát svikamylla heldur er hún einnig lögvarinn þjófnaður þar sem eignir almennings eru með skipulögðum hætti færðar elítunni á silfurfati.  Að tengja höfuðstól skulda við verðbólgu er auk þess algerlega fráleitt og þjóðhagslega óhagkvæmt.  Þetta virðast flestar þjóðir heims skilja.

Í annan stað er óheimilt samkvæmt frumvarpi því sem varð að lögum um vexti og verðtryggingu að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Gengistryggð lán eru því sjálfsagt ólögmæt.  Það að íslensk stjórnvöld kusu engu að síður að leyfa slík neytendalán á sínum tíma er að öllum líkindum ámælisvert.

Í þriðja lagi eru forsendur flestra lánasamninga brostnar þar sem í mörgum tilfellum hafði annar samningsaðilinn með atferli sínu bein áhrif á höfuðstól skuldarinnar til hækkunnar.  Ég er að tala um það hvernig bankarnir, eigendur þeirra og lykilstjórnendur, felldu gengi krónunnar með svo kröftugu handafli að gengistryggð lán tvö- til þrefalduðust og verðtryggð lán hækkuðu um fjórðung á um það bil ári.
Á endanum hlaut eitthvað að láta undan í þessum hamagangi og bankarnir fóru á hausinn hver á fætur öðrum.  Fyrstu viðbrögð stjórnvalda við þeirri krísu voru að tryggja innstæður á Íslandi umfram skyldu og bæta duglega í peningamarkaðssjóði til að koma til móts við tap þeirra sem höfðu verið svo ólánsamir að falla fyrir þeim gylliboðum bankanna.

Kostnaðurinn við þessar aðgerðir vorum um 1.200 milljarðar.  Það slagar hátt upp í landsframleiðslu ársins 2008.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei lýst andstöðu við þessar aðgerðir þó að sitt sýnist sjálfsagt hverjum.  Aftur á móti höfum við gert þá kröfu að öll sparnaðarform verði varin en ekki bara sum. Því hvers vegna er sparifé þess sem ákvað að binda það í fasteign ómerkilegra en sparifé þess sem ákvað fjárfesta í peningamarkaðssjóði?  Á meðan sumt sparifé er varið upp í topp er annað gengisfellt eða brennt á verðbólgubáli.

Til þess að bíta svo endanlega höfuðið af skömminni virðast stjórnvöld ætla að fjármagna nýtt ofvaxið fjármálakerfi með húsnæðisskuldum almennings. Eða hvað?  Myndi norrænni velferðarstjórn detta slíkur ósómi til hugar?  Að kaupa lánin á hrakvirði úr þrotabúum gömlu bankanna og innheimta þau svo margfalt til baka af fullri hörku?  Það er enginn svo óforskammaður að gera nokkuð slíkt, eða hvað?

Góðir fundarmenn.
Að endingu þakka ég gott hljóð og minni á að án réttlætis verður enginn friður.

Lesa áfram...

Framsýn- stéttarfélag Ályktar um stöðu heimilanna

"Framsýn- stéttarfélag tekur heilshugar undir með Hagsmunasamtökum heimilanna um að þegar í stað verði gripið til aðgerða til að forða fjölda heimila í landinu frá gjaldþroti." Sjá má alla ályktunina á heimasíðu Framsýnar hér.
 
Hagsmunasamtök heimilanna fagna þessari ályktun mjög en Framsýn er annað af tveimur verkalýðsfélögum sem hafa tekið undir málflutning HH. Verkalýðsfélag Akraness hefur einnig ályktað með sama hætti. 
Lesa áfram...

Hitajöfnun og hitaaðlögun í draumalandinu

Jobbi átti hús og var í viðskiptum við Hitaveituna hf. Þannig vildi til að tveir mælar voru á vatnsnotkuninni. Annar var út í götu og hinn við sjálft inntakið. Hitaveita vildi meina að mælirinn í götunni væri öruggari og sannfærði Jobba um að notkunarmæling miðaðist við þann mæli. Nú verður gröfuóhapp (grafa hitaveitunnar) og gat kemst á rörið á milli mælisins úti í götu og mælisins við inntakið. Þetta var svert veiturör og út lak 25 ára jafnaðarnotkun hússins af vatni áður en tókst að skrúfa fyrir.

Lesa áfram...

Fundur með Jóhönnu ekki með fulltrúum HH

Vegna orða Jóhönnu Sigurðardóttur í frétt Mbl.is, þá vilja Hagsmunasamtök heimilanna taka fram að enginn talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna eða aðili með umboð samtakanna var á fundi fulltrúa Nýrra tíma með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni í dag.  Vilji þau ræða við Hagsmunasamtökin þá verður það ekki í gegnum mótmælaaðgerðir eins og í dag, heldur á fyrirfram skipulögðum fundi.  Hagsmunasamtökin hafa lagt sig fram um fagleg og vel undirbúin vinnubrögð.  Kaffiboð með nokkurra mínútna fyrirvara fellur ekki undir það.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna er tilbúin að hitta forsætisráðherra og fjármálaráðherra hvenær sem er.  Við höfum þegar átt fund með mörgum aðilum, m.a. ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, og eigum fulltrúa í undirnefnd Velferðarvaktarinnar.  Viljum við því koma þeim skilaboðum til forsætisráðherra og fjármálaráðherra að nefna þann tíma sem þeim hentar að hitta okkur og við munum ekki láta bíða eftir okkur.

Samtökin harma að forsætisráðherra hafi þann skilning að fulltrúar Nýrra tíma hafi verið talsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna - sú er EKKI raunin.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed
  • 1
  • 2

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum