Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Í stríði gegn heimilunum

Í stríði gegn heimilunum

Vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær er ekkert annað en stríðsyfirlýsing gegn heimilum landsins. Hvergi á byggðu bóli voga seðlabankar sér að fara gegn heimilum landsins með viðlíka hætti og hér og hvergi á byggðu bóli hefur verðbólgan haldist jafn há og hér. Hvert mannsbarn með vott af skynsemi ætti að sjá að vaxtahækkanir Seðlabankans hafa fyrir löngu síðan snúist upp í andhverfu sína og auka beinlínis vandann sem þær eiga að glíma við. Fyrir hverja er verið að berjast við verðbólguna ef ekki fyrir fólkið í landinu?

Fólkið í landinu er ekki til fyrir fjármálafyrirtækin og líf þess á ekki að snúast um að fóðra þau.

Aðgerðaleysi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og þar áður þessarar sömu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, gagnvart þessu áhlaupi á heimilin er óverjandi, en því miður ekki fordæmalaust.

Vegna þjónkunar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar við fjármálakerfið, misstu a.m.k. 15.000 fjölskyldur heimili sín, fyrir utan allar þær sem lentu í skuldaklafa og ánauð bankanna vegna þeirra „reddinga“ sem þeim var boðið upp á.

Fyrir skynsamt fólk eru vítin til að varast þau en ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar virðist loka augunum fyrir hrikalegum afleiðingum aðgerða Seðlabankans. 

Hagsmunasamtök heimilanna hafa varað við afleiðingum þess að verið sé að ýta fólki yfir í verðtryggð lán frá því þetta brjálæði hófst fyrir rúmum tveimur árum, en talað fyrir daufum eyrum, sem aðeins eru þó að sperrast núna, allt of allt of seint.

Ríkisstjórnin er ekki valdalaus gagnvart Seðlabankanum. Henni ber að grípa til aðgerða til að verja og bjarga heimilum landsins því hagur þeirra skiptir mun meira máli en manngerð lög um sjálfstæði Seðlabankans, sem engir varnaglar voru settir á. Því er hægt að breyta og því þarf að breyta.

ENGINN hefur leyfi til að fórna heimilum landsins með markvissum hætti fyrir fjármálakerfið, alveg sama hver það er og alls ekki fólk sem engin hafa kosið og sækir umboð sitt til Ríkisstjórnar Íslands.

Hingað og ekki lengra, Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að Bjarni Benediktsson og ríkisstjórn Íslands grípi strax í taumanna áður en staðan verður verri en hún er þegar orðin.




© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum