Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Í stríði gegn heimilunum

Í stríði gegn heimilunum

Vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær er ekkert annað en stríðsyfirlýsing gegn heimilum landsins. Hvergi á byggðu bóli voga seðlabankar sér að fara gegn heimilum landsins með viðlíka hætti og hér og hvergi á byggðu bóli hefur verðbólgan haldist jafn há og hér. Hvert mannsbarn með vott af skynsemi ætti að sjá að vaxtahækkanir Seðlabankans hafa fyrir löngu síðan snúist upp í andhverfu sína og auka beinlínis vandann sem þær eiga að glíma við. Fyrir hverja er verið að berjast við verðbólguna ef ekki fyrir fólkið í landinu?

Fólkið í landinu er ekki til fyrir fjármálafyrirtækin og líf þess á ekki að snúast um að fóðra þau.

Aðgerðaleysi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og þar áður þessarar sömu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, gagnvart þessu áhlaupi á heimilin er óverjandi, en því miður ekki fordæmalaust.

Lesa áfram...
Við krefjumst tafarlausrar vaxtalækkunar

Við krefjumst tafarlausrar vaxtalækkunar

Ársverðbólga er nú 5,8% og hefur ekki mælst lægri í tvö og hálft ár eða frá ársbyrjun 2022. Þá voru meginvextir Seðlabanka Íslands 2% en hafa síðan hækkað í 9,25% þar sem þeir hafa nú staðið í 10 mánuði, sem verða að óbreyttu orðnir 12 þegar næsta vaxtaákvörðun er á dagskrá 21. ágúst, þrátt fyrir að verðbólgan hafi lækkað um 43% frá því að hún náði hámarki í febrúar 2023.

Seðlabankinn er fyrir löngu komin á algjörar villigötur með hávaxtastefnu sinni sem ekki stenst nokkra skoðun auk þess að valda heimilum og fyrirtækjum landsins stórfelldum skaða, sem þau verða lengi að jafna sig á.

Húsnæðisverð hefur verið stærsti drifkraftur verðbólgunnar og eina leiðin til að halda aftur af hækkun þess er að auka framboð húsnæðis. Vegna íþyngjandi fjármagnskostnaðar hefur samt dregið úr nýbyggingum og vaxtastefnan er þannig beinlínis farin að vinna gegn tilgangi sínum.

Lesa áfram...
Spurt og svarað um vaxtamálin

Spurt og svarað um vaxtamálin

Hvað eru “vaxtamálin”?

Vaxtamálin er samheiti sem má segja sem svo að nái yfir málaferli sem hafa staðið yfir um nokkra hríð um lögmæti skilmála um breytilega vexti í lánum neytenda á Íslandi.

Hvert er helsta álitaefnið?

Neytendur og samtök þeirra sem standa að málunum telja að í all flestum tilvikum séu þeir skilmálar sem kveða á um breytilega vexti í neytendalánum og fasteignalánum til neytenda ekki í samræmi við lög og reglur. Í einfölduðu máli standist skilmálarnir ekki þær kröfur sem verður að gera um skýrleika, aðgengileika, hlutlægni og sannreynanleika, svo neytendur geti áttað sig á þýðingu þeirra og þar með umfangi þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem þeir gangast undir þegar þeir taka lán.

Lesa áfram...
Vaxtastuðningur dropi í hafið

Vaxtastuðningur dropi í hafið

Vaxtastuðningur ríkisstjórnarinnar er í skötulíki eins og annar „stuðningur“ hennar við heimilin. Hann er í fyrsta lagi varla upp í nös á ketti í samanburði við þann gríðarlega vaxtakostnað sem hefur verið lagður á skuldug heimili landsins og í öðru lagi er honum ráðstafað beint til lánveitenda sem greiðsla inn á höfuðstól fasteignalána.

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu strax í umsögn sinni um málið að upphæðin greiddist sjálfkrafa inn á höfuðstól húsnæðislána sem lækkar greiðslubyrði þeirra mjög lítið. Sem dæmi myndu mánaðarlegar greiðslur af dæmigerðu 50 milljón króna óverðtryggðu láni aðeins lækka um á bilinu 1.300-2.300 krónur með þessu.

Þetta er dropi í hafið og mun ekki bjarga miklu fyrir heimili sem glíma við greiðslubyrði sem hefur hækkað um hundrað sinnum hærri upphæðir á mánuði. Stjórnvöld ættu miklu frekar að einbeita sér að því að lækka vaxtagjöld heimilanna en að færa almannafé aftur til skattgreiðenda með svona sjónhverfingum og kalla það “stuðning”.

Lesa áfram...
Dómstólar baki ríkinu ekki bótaskyldu

Dómstólar baki ríkinu ekki bótaskyldu

Hagsmunasamtök heimilanna fagna áliti EFTA dómstólsins um túlkun á þeim reglum sem gilda um lánaskilmála sem kveða á um breytilega vexti. Þó að um álit sé að ræða verða íslenskir dómstólar að fylgja því, enda geta þeir annars gert íslenska ríkið bótaskylt.

Hagsmunasamtök heimilanna leggja áherslu á að:

  • Álitið gefur afdráttalaust til kynna að umræddir skilmálar séu óréttmætir.

  • Lánveitendur sem sömdu hina óréttmætu skilmála bera sjálfir ábyrgð á því.

  • Óréttmætum skilmálum skal víkja til hliðar en samningarnir gilda að öðru leyti án breytinga.

  • Lánveitendum ber að endurgreiða með dráttarvöxtum allt fé sem þeir hafa oftekið á grundvelli óréttmætra skilmála, umfram þá vexti sem komu fram í samningi frá upphafi.

  • Endurkröfuréttur neytenda skal gilda að minnsta kosti jafn lengi og samningarnir.

  • Hafi neytandi einhverntíma greitt lægri vexti en upphaflega komu fram í samningi skal fullnaðarkvittun gilda.

Því miður hefur sagan sýnt að þegar fjármálafyrirtæki brjóta á réttindum neytenda, virðast dómstólar leita allra leiða til að leysa þá undan ábyrgð. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka því að slík háttsemi getur bakað ríkinu bótaskyldu á kostnað almennings. Samtökin vonast til þess að nú muni dómstólar aðeins dæma eftir lögunum með rétt neytenda í fyrirrúmi eins og þeim ber skylda til.

Lesa áfram...
Leigumarkaðurinn og húsnæðisliður vísitölunnar

Leigumarkaðurinn og húsnæðisliður vísitölunnar

Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur sífellt hallað undan fæti hjá heimilum landsins. Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill lýsa yfir fullum stuðningi við baráttu Samtaka leigjenda. 

Ástandið á leigumarkaðnum er vægast sagt hræðilegt. Það er ekki of djúpt í árina tekið að segja að hann einkennist af stjórnleysi, kerfisbundinni fjárkúgun og misbeitingu á varnarlausum leigjendum, sem einhversstaðar þurfa höfði sínu að halla.

Þessu ástandi hefur verið mætt af ámælisverðu skeytingarleysi af hendi stjórnvalda og ekki nóg með það, heldur er það við þennan ógnarmarkað sem hlítir engri stjórn sem Hagstofan vill miða húsnæðislið vísitölunnar, sem nær augljóslega ekki nokkurri átt.

Lesa áfram...
Ársskýrsla 2023-2024

Ársskýrsla 2023-2024

Samkvæmt venju eru fundargögn birt á heimasíðu samtakanna í aðdraganda aðalfundar í formi ársskýrslu. Félagsmenn eru minntir á aðalfundinn kl. 20:00 fimmtudaginn 22. febrúar 2024, í Mannréttindahúsinu við Sigtún 42, 105 Reykjavík. Þegar framboðsfrestur rann út höfðu borist eftirfarandi tilkynningar um framboð til stjórnar.

Lesa áfram...
Aðalfundur 2024

Aðalfundur 2024

Hagsmunasamtök heimilanna boða hér með til aðalfundar, fimmtudagskvöldið 22. febrúar 2024 kl. 20:00, í Mannréttindahúsinu við Sigtún 42, í Reykjavík. Skrifstofa samtakanna er nú í húsi ÖBÍ, ásamt ýmsum félagasamtökum sem starfa að réttindamálum almennings. Aðalfundur verður haldinn í miðrými hússins og gengið er inn um aðaldyr við vesturenda byggingarinnar.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum