Spurt og svarað um vaxtamálin
Hvað eru “vaxtamálin”?
Vaxtamálin er samheiti sem má segja sem svo að nái yfir málaferli sem hafa staðið yfir um nokkra hríð um lögmæti skilmála um breytilega vexti í lánum neytenda á Íslandi.
Hvert er helsta álitaefnið?
Neytendur og samtök þeirra sem standa að málunum telja að í all flestum tilvikum séu þeir skilmálar sem kveða á um breytilega vexti í neytendalánum og fasteignalánum til neytenda ekki í samræmi við lög og reglur. Í einfölduðu máli standist skilmálarnir ekki þær kröfur sem verður að gera um skýrleika, aðgengileika, hlutlægni og sannreynanleika, svo neytendur geti áttað sig á þýðingu þeirra og þar með umfangi þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem þeir gangast undir þegar þeir taka lán.
Hvaða mál hafa verið í gangi í réttarkerfinu þar sem reynir á slík álitaefni?
Þau hafa verið allmörg og nokkuð misjöfn. Reyndar má rekja ágreiningsmál um vaxtakjör að minnsta kosti aftur til ársins 2009 þegar spurningar vöknuðu um lögmæti svokallaðrar gengistryggingar lána en þar fóru Hagsmunasamtök heimilanna einna fremst í flokki. Gengistryggingin sem slík var svo dæmd ólögleg árið 2010 en í kjölfarið tóku stjórnvöld og dómstólar upp á því að mæla fyrir um að þegar þau lán væru endurreiknuð ætti að miða við allt aðra og mun óhagstæðari vexti en lántakendur höfðu samþykkt við undirritun lánasamninga. Á endanum gerði Hæstiréttur Íslands sig svo afturreka og féllst á að ekki mætti endurákvarða þegar greidda vexti með afturvirkum hætti. Eftir stóð þó að til framtíðar myndu lánin bera hina nýju og hærri vexti, sem má kalla ákveðna málamiðlun. Neytendur voru flestir ósáttir við þá útkomu enda hefðu þeir viljað halda upphaflega umsömdum vaxtakjörum.
Árið 2014 tók Neytendastofa svo til meðferðar mál um svokallaða vaxtaendurskoðunarskilmála hjá Íslandsbanka sem áskildu bankanum rétt til að breyta vöxtum lána á fimm ára fresti. Komist var að þeirri niðurstöðu að skilmálarnir stæðust ekki lög því þeir tilgreindu ekki við hvaða aðstæður eða á hvaða forsendum mætti breyta vöxtunum og bankinn gæti því í raun ákveðið nýja vexti einhliða eftir eigin geðþótta. Málið rataði alla leið fyrir Hæstarétt Íslands sem staðfesti í október 2017 að slíkir skilmálar væru ólöglegir. Viðbrögð bankans við því voru að leiðrétta vaxtakjörin til samræmis við þá vexti sem hafði upphaflega verið samið um og endurgreiða neytendum mismuninn.
Árið 2019 tók Neytendastofa til meðferðar mál sem Hagsmunasamtök heimilanna stóðu að baki um samskonar vaxtaendurskoðunarskilmála Frjálsa fjárfestingarbankans. Niðurstaðan var á sömu leið þ.e. að skilmálarnir væru ólöglegir því þeir áskildu rétt til einhliða geðþóttaákvarðana um vexti.
Sama ár eða 2019 tók Neytendastofa til meðferðar mál sem Hagsmunasamtök heimilanna komu að nokkru leyti að, vegna breytinga á vaxtakjörum sjóðfélagalána hjá tveimur af stærstu lífeyrissjóðum landsins (LIVE og LSR). Enn og aftur var staðfest að skilmálar sem áskildu lánveitanda rétt til að breyta vöxtum einhliða að eigin geðþótta stæðust ekki lög. Þar sem vextir höfðu á þessum tíma farið nokkuð lækkandi voru þær breytingar þó neytendum til hagsbóta og taldi Neytendastofa því ekki ástæðu til að grípa til frekari aðgerða að svo stöddu.
Árið 2019 hóf Neytendastofa einnig athugun á skilmálum neytendalána Íslandsbanka (“lán í appi”), þar á meðal um breytilega vexti. Þrátt fyrir að nú væru skilmálar bankans orðnir nokkuð ítarlegri og tilgreindu ýmis atriði sem væri horft til við ákvörðun vaxta, taldi Neyendastofa að þeir væru ekki nógu skýrir auk þess að innihalda opið orðalag sem gerði neytendum ekki kleift að skilja nógu vel hvernig vextir og breytingar á þeim væru ákvörðuð. Skilmálarnir stæðust því ekki lög. Þetta mál rataði síðar fyrir dómstóla og er nú til meðferðar fyrir Landsrétti sem ákvað að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins um túlkun á þeim neytendaverndarreglum EES-réttar sem reynir á í málinu.
Neytendasamtökin ákváðu í kjölfar alls þessa að ráðast í herferð málaferla til að láta reyna á lögmæti ýmissa skilmála um breytilega vexti í lánum til neytenda. Árið 2021 voru höfðuð nokkur slík mál gegn stóru viðskiptabönkunum þremur, Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka. Í tveimur þeirra ákváðu héraðsdómstólar að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins um túlkun á tilteknu ákvæði EES tilskipunar um fasteignalán til neytenda sem reynir á í þessum málum.
EFTA dómstóllinn ákvað að taka þessi mál til sameiginlegar meðferðar í því skyni að veita heildstæðar leiðbeiningar um túlkun þeirra reglna EES-réttar sem á reynir. Dómstólinn birti svo tvö ráðgefandi álit 23. maí 2024 þar sem var með nokkuð afgerandi hætti gefið til kynna að skilmálar um breytilega vexti eins og þeir sem hér um ræðir stæðust ekki þær kröfur sem yrði að gera um skýrleika, aðgengileika, hlutlægni og sannreynanleika. Það kæmi svo í hlut íslenskra dómstóla að kveða upp endanlega dóma í málunum, þar á meðal um afleiðingar þess ef skilmálarnir yrðu dæmdir ógildir.
Hvaða þýðingu hafa ráðgefandi álit EFTA dómstólsins?
Þau tvö álit sem hér um ræðir veita nokkuð ítarlegar og skýrar leiðbeiningar sem leggja línurnar fyrir íslenska dómstóla um hvernig þeir eigi að beita neytendaverndarreglum EES í þessum sem og öðrum sambærilegum málum. Erfitt er að skilja þau á annan veg en að niðurstaðan hljóti að verða sú að þeir skilmálar sem um ræðir verði teljist vera óréttmætir og þar með ólöglegir.
Hvað mun gerast næst í þessum málum?
Að fengnu ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins er ekkert því til fyrirstöðu að taka þessi mál ásamt fleiri sambærilegum málum til aðalmeðferðar fyrir íslenskum dómstólum. Með hóflegri bjartsýni má búast við því að hægt verði að kveða upp dóma í þeim síðar á þessu ári. Fastlega má búast við því að svo verði málunum áfrýjað til Hæstaréttar Íslands enda er það nauðsynlegt til að fá fordæmisgefandi dóm um jafn þýðingarmikil álitaefni þar sem gríðarlegir almannahagsmunir eru í húfi.
Hvenær má búast við endanlegum niðurstöðum?
Með hóflegri bjartsýni má varla búast við niðurstöðum Hæstaréttar Íslands í þessum málum fyrr en í fyrsta lagi árið 2025. Fyrst þá mun svo koma í ljós hvort vaxtamálin verði leyst í eitt skipti fyrir öll eða hvort einhver tiltekin álitaefni standi eftir sem þurfi að leysa úr með frekari málaferlum.
Hvað gerist ef skilmálarnir verða dæmdir ólöglegir?
Eins og kemur fram í ráðgefandi álitum EFTA dómstólsins mun það koma í hlut íslenskra dómstóla að kveða á um afleiðingar þess ef skilmálarnir verða dæmdir ólöglegir. Að svo stöddu er því ekki hægt að fullyrða um það með afgerandi hætti. Þó má ætla að lánveitendur muni að minnsta kosti þurfa að bæta neytendum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af völdum hinna óréttmætu skilmála.
Hvernig á þá að leiðrétta lánin?
Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða hver verði hin endanlega niðurstaða. Verði skilmálarnir dæmdir ógildir telja Hagsmunasamtök heimilanna að þá eigi lánveitendur einfaldlega að endurgreiða þeim neytendum sem eiga í hlut allar þær fjárhæðir sem hafa verið ofteknar. Með því er átt við vexti sem hafa verið innheimtir umfram þá vexti sem voru í gildi þegar lánið var tekið og ættu því að koma fram í lánasamningunum. Eðli máls samkvæmt getur þetta verið misjafnt í einstökum tilvikum og breytilegt eftir því hvernig vaxtaákvarðanir lánveitenda hafa þróast á hverjum tíma. Hver og einn neytandi á ekki að þurfa að reikna þetta út sjálfur heldur eiga lánveitendur að gera það og hafa frumkvæði að því að endurgreiða, enda búa þeir yfir sérþekkingu ásamt öllum tólum og tækjum sem til þarf.
Eiga neytendur rétt á endurgreiðslu með vöxtum?
Þetta er meðal þess sem dómstólar gætu þurft að leysa úr en Hagsmunasamtök heimilanna telja það augljóst að reikna skuli vexti á það fé sem neytendur gætu átt inni hjá lánveitendum og endurgreiða það með vöxtum. Vextirnir ættu þá að reiknast frá hverjum og einum gjalddaga á þá fjárhæð sem þá var ofgreidd. Samtökin telja rétt að miðað verði við dráttarvexti enda sé um að ræða oftekið fé sem hefur verið haldið ólöglega frá neytendum og það jafngildi því vanskilum. Lánveitandinn sjálfur myndi varla lána fé vaxtalaust og hiklaust krefjast dráttarvaxta ef einhver vanskil verða.
Hversu háar fjárhæðir gætu fengist endurgreiddar?
Það getur verið mjög misjafnt hvað hver neytandi kann að hafa ofgreitt í einstökum tilfellum og fer eftir því hvenær lán var tekið að hvaða fjárhæð á hvaða kjörum. Þessu er því ekki hægt að svara með almennum hætti. Þó má nefna sem dæmi að Hagsmunasamtök heimilanna hafa skoðað tilvik þar sem lán að fjárhæð tæplega 50 milljónir króna var tekið um miðbik ársins 2022, en síðan þá hafa á tveimur árum verið greiddar u.þ.b. 3,7 milljónir króna í vexti umfram það sem hefði verið greitt ef upphaflegir vextir lánsins hefðu ekki verið hækkaðir. Til að setja þetta í samhengi er það 86,5% hærri upphæð en ella og nemur um 7,4% af upphaflegri lánsfjárhæð á einungis 5% af 40 ára lánstíma. Við þá upphæð bætast svo um 236.000 krónur í hverjum mánuði miðað við núverandi vaxtastig, auk áfallandi vaxta á hugsanlega endurkröfu frá hverjum og einum gjalddaga fram að endurgreiðslu.
Hversu langt aftur í tímann gæti leiðréttingin náð?
Búast má við því að lánveitendur muni bera því fyrir sig að endurkröfur sem hafi stofnast fyrir meira en fjórum árum síðan séu fallnar niður samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda. Mögulega kann að verða deilt um það og dómstólar gætu þurft að leysa úr slíkum álitaefnum. Að minnsta kosti má fastlega búast við að það verði einhverjum takmörkunum háð hversu langt aftur í tíma verði farið. Þess vegna er mikilvægt að neytendur sem hafa tekið lán með breytilegum vöxtum fyrir löngu síðan eða jafnvel greitt upp eldri lán hugi sem allra fyrst að því að kanna réttarstöðu sína og leita leiða til að tryggja að endurkröfur þeirra fyrnist ekki á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu.
Hvernig er hægt að tryggja að endurkröfuréttur fyrnist ekki?
Á meðan lánveitendur viðurkenna ekki fyrningarslit hafa neytendur ekki úr mörgum kostum að velja til að slíta fyrningu á hugsanlegum endurkröfum sínum. Einn kostur er að höfða dómsmál á hendur lánveitanda en það er ekki fýsilegt fyrir alla enda hefur það í för með sér kostnað, óvissu og áhættu. Önnur og hagkvæmari leið er að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki en jafnvel þó að nefndin fallist ekki á kröfur neytanda eða ákveði að fresta málinu þar til dómstólar hafi komist að fordæmisgefandi niðurstöðu, slítur það samt fyrningu á endurkröfunum. Mikilvægt er að þá séu þær kröfur og fjárhæðir þeirra settar fram eins skilmerkilega og kostur er.
Hvaða vexti ættu lánin svo að bera til framtíðar?
Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að verði skilmálar um breytilega vexti dæmdir ógildir þá skuli lánasamningarnir halda gildi sínu án hinna óréttmætu skilmála en standa óbreyttir að öðru leyti. Með öðrum orðum standi þá eftir sami samningur og áður með þeim vöxtum sem voru í gildi þegar hann var gerður og þeir eigi einfaldlega að haldast óbreyttir það sem eftir lifir lánstímans.
Hvernig geta neytendur vitað hvort þetta geti átt við um þeirra lán?
Stutta svarið er að langflest lán neytenda á Íslandi eru með einhverskonar skilmálum um breytilega vexti. Hafi neytandi tekið lán eru því meiri líkur en minni á að viðkomandi hafi hagsmuni af því að skorið verði úr um lögmæti slíkra skilmála. Ef lánið er ekki með breytilega vexti nú þegar er það líklega með fasta vexti til ákveðins tíma t.d. 3-5 ára en eftir það verða vextirnir svo breytilegir. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán, fasteignalán eða almenn neytendalán og þar með talin bílalán. Frá þessu gætu þó verið einhverjar undantekningar, til dæmis var algengt að verðtryggð húsnæðislán sem voru veitt fram til ársins 2008 væru með föstum vöxtum út lánstímann. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að niðurstöður dómsmála verði mismunandi eftir orðalagi skilmála sem getur verið misjafnt milli lánveitenda og jafnvel eftir því hvenær lánin voru tekin. Á þessu stigi er því ekki tímabært að fullyrða um slíkt varðandi tiltekin lán eða lánaflokka.
Hvar má finna ráðgefandi álit EFTA dómstólsins?
- Mál E-4/23 Neytendastofa gegn Íslandsbanka
- Sameinuð mál E-13/22 and E-1/23 Birgir Þór Gylfason og Jórunn S. Gröndal gegn Landsbankanum & Elva Dögg Sverrisdóttir og Ólafur Viggó Sigurðsson gegn Íslandsbanka
Hvar má finna reglurnar sem reynir á í málunum?
- Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr 7/1936 (36. gr. a-d)
- Tilskipun 2008/48/EB um neytendalán
- Lög um neytendalán nr. 33/2013
- Tilskipun 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði
- Lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016
Hvernig er hægt að fá svör við frekari spurningum?
Hafir þú frekari spurningar má senda Hagsmunasamtökum heimilanna fyrirspurn. Við getum kannski ekki svarað öllu með tæmandi hætti á þessu stigi en gerum okkar besta til að upplýsa og fræða.