Fyrsti dómur fellur í gengistryggðu láni
Dómsmál E-4501/2009 var tekið fyrir föstudaginn 13. nóv. og dómur birtur 3. des. 2009
Í stuttu máli var stefnanda SP-fjármögnun dæmt í hag þrátt fyrir yfirgnæfandi rök um að lán sem þessi væru ólögmæt. Ekki þarf að fjölyrða um að þetta eru Hagsmunasamtökum heimilanna mikil vonbrigði og nokkuð ljóst að dómarar eins og Páll Þorsteinsson eru tilbúnir að dæma þvert ofan í gildandi lög frá 38/2001 um vexti og verðbætur.
gegn
Óskari Sindra Atlasyni (Björn Þorri Viktorsson hrl.)
kveðinn upp svofelldur
DÓMUR:
Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af SP-fjármögnun hf., kt. 000000-0000, Sigtúni 42, Reykjavík, gegn Óskari Sindra Atlasyni, kt. 000000-0000, Klapparhlíð 11, Mosfellsbæ, með stefnu sem birt var 3. apríl 2009.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 4.307.833 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. janúar 2009 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu skv. mati réttarins.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu, þ.m.t. virðisaukaskattur, að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins að teknu tilliti til vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu skv. framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Hinn 5. maí 2007 sömdu aðilar um að stefndi tæki á kaupleigu bifreiðina VT-658, Volvo S40, sem skráð var hinn 3. júlí 2006 og ekin var 20.000 km. Í samningnum segir undir fyrirsögninni Leigutími og kaupverð: „Kaupverð m.VSK – 3.600.000 kr. Þar af VSK – 708.434 kr. Innborgun – 400.000 kr. Stofngjald – 116.316 kr. Umsýslugjald – 7.000 kr. Samningsverð – 3.323.316 kr. Fyrsti gjalddagi: 04.09.2007. Fjöldi gjalddaga: 84. Samningstími til: 04.08.2014. Leiga greidd mánaðarlega: Eftir á.“ Undir fyrirsögninni Leiga segir í samningnum: „Mánaðarleg leiga m.v. ISK: 46.295 kr. – Kaupverð í lok samnings m.v. ISK: 1.000 kr. – Samningur er 100% gengistryggður – Endanleg fjárhæð í myntkörfunni BL2 ræðst af kaupgengi á útgreiðsludegi samnings. Leiga miðast við myntkörfuna BL2 og ræðst af sölugengi hverju sinni. Myntkarfa BL 2 CHF 50% JPY 50%.“
Í stefnu er greint frá því að virkni myntkörfunnar hafi verið með þeim hætti að leigufjárhæðin í íslenskum krónum var á fyrsta samningsdegi umreiknuð í hinar erlendu myntir í ofangreindum hlutföllum, sem síðar voru umreiknaðar að nýju í íslenskar krónur á hverjum gjalddaga samningsins, sbr. 5. mgr. 2. gr. almennra skilmála samnings aðila, og höfuðstóll leigugreiðslunnar reiknaður með þeim hætti. Þá hafi einnig við ákvörðun fjárhæðar leigugreiðslu verið tekið tillit til umsaminna vaxta, sem í þessu tilfelli voru LIBOR vextir á gjalddaga leigugreiðslunnar af myntum þeim sem mynduðu myntkörfuna.
Stefnandi rifti samningi aðila með vísun til 14. gr. skilmála samningsins, en þar segir m.a.: „SP er heimilt að rifta leigusamningum einhliða án fyrirvara séu eftirgreindar ástæður fyrir hendi: 1. Leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi á umsömdum gjalddögum og vanskil eru orðin 45 daga gömul.“ Og með bréfi til stefnda, dags. 27. janúar 2009 með fyrirsögnina: Efni: Uppgjör bílasamnings nr. SBB-026483 skv. 16. gr. samningsins er fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda tölulega skilgreind á eftirfarandi hátt:
Gjaldfallin leiga og kostn. til og með 27.01.09 495.227 kr.
Áfallnir dráttarvextir og kostn. 27.01.09 32.487 kr.
Dekk undir VT-658 108.105 kr.
Eftirstöðvar samnings 27.01.09 6.212.606 kr.
Samtals 6.848.425 kr.
Kostnaðarmatsskoðun 279.194 kr.
Mat á bifreið -2.040.000 kr.
Heildaskuld þín nú samtals 5.087.619 kr.
Stefnandi greinir frá því að hann hafi látið vörslusviptingamenn sækja bifreiðina til stefnda og flytja hana í starfstöð stefnanda. Hafi hann haft heimild til þess samkvæmt ákvæðum 15. gr. skilmála samnings aðila sem fjallar um afhendingu hins leigða við riftun.
Af hálfu stefnda er tekið fram að hann hafi staðið við samninginn allt fram í september 2008, en þá hafi hann verið krafinn um greiðslu á 68.888 krónum eða 49% hærri fjárhæð en upphafleg mánaðagreiðsla.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi vísar til þess að stefnda hefði borið, eftir að samningi aðila var rift, að greiða SP-fjármögnun hf. leigugreiðslur sem fallið höfðu í gjalddaga fram til riftunar auk áfallinna dráttarvaxta, sbr. 3. gr. skilmála samnings aðila. Jafnframt hefði honum borið samkvæmt sömu grein að greiða leigu fyrir þann tíma sem eftir var af samningstímanum, auk sérstaks uppgjörsgjalds. Í því sambandi kveði 2. gr. skilmála samnings aðila á um hvernig reikna beri höfuðstól leigugreiðslna. Hinn 27. janúar 2009, er samningnum var rift, hafi skuldin numið 5.055.132 kr. er sundurliðast þannig: Gjaldfallin leiga og kostnaður til 27. janúar 2009 495.227 kr.; kostnaður vegna dekkjakaupa 108.105 kr. og eftirstöðvar samnings 6.212.606 kr., eða samtals 6.815.938 kr. Við bætist kostnaður við mat á bifreiðinni, en SP-fjármögnun hf. hafi látið Frumherja hf. meta ástand bifreiðarinnar. Niðurstaða matsins hafi verið sú að viðgerðarkostnaður næmi 279.194 kr. Áætlað söluverðmæti bifreiðarinnar, að fjárhæð 2.040.000 kr., dragist frá. Verðmat Bílgreinasambandsins, miðað við aldur og akstur bifreiðarinnar, næmi 2.400.000 kr. en frá þeirri fjárhæð séu dregin 15% eða 360.000 kr. vegna bifreiðagjalda, þrifa, tryggingagjalda og annarrar umsýslu þar til SP-fjármögnun hf. takist að selja bifreiðina. Eftir standi því 2.040.000 kr. til frádráttar. Skuld stefnda sé því 5.055.132 kr.
Um réttarheimildir vísar stefnandi til meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar, að samninga beri að efna. Dráttarvaxtakrafa styðst við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum ákvæðum 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Um varnarþing er vísað til 18. gr. samnings aðila, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi dómkröfur sínar um samtals 747.299 krónur, þ.e. 108.105 kr. vegna nýrra dekkja undir bifreiðina, 279.194 kr. vegna kostnaðarmats og 360.000 kr. vegna 15% frádráttar á verðmati Bílgreinasambandsins á bifreiðinni.
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefndi telur að samningur aðila frá 5. maí 2007 sé í eðli sínu lánasamningur og vísar þar til orða stefnanda í samningi aðila þar sem segir: „Leigutaki lýsir því yfir með undirskrift sinn að hann gerir sér fulla grein fyrir því að lántaka í erlendum gjaldmiðli er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum.“ Þá vísar hann til þess að eignarleigusamningar falli undir lögin um neytendalán samkvæmt ákvæðum d-liðar 2. gr. laga nr. 121/1994.
Stefndi vísar til þess að samningur aðila er í íslenskum krónum; höfuðstólsfjárhæð samningsins sé tilgreind í krónum og einnig mánaðarleg afborgun og greiðsluáætlun samningsins. Aldrei hafi annað staðið til en að samningsfjárhæðin yrði greidd með íslenskum krónum. Hins vegar sé tekið fram í samningi aðila að leiga miðist við myntkörfuna BL2 og ráðist af sölugengi hverju sinni, enda þótt ólögmætt sé að gengisbinda lánið með þeim hætti samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar sem mælt er fyrir um, að einungis sé heimilt að verðtryggja lánsfé þegar grundvöllur verðtryggingar er vísitala neysluverðs.
Þá vísar stefndi til þess að samningur aðila sé stefnanda í hag. Stefndi sé neytandi en samningurinn liður í atvinnustarfsemi stefnanda. Eins og á standi sé það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Samningurinn, eins og nú horfir, raski til muna jafnvægi milli réttar og skyldu aðila, stefnda í óhag.
Verði ekki talið að nægar ástæður séu til að vísa samningnum í heild til hliðar, krefst stefndi til vara að verðbreytingarákvæðinu verði vikið til hliðar þannig að samningurinn standi þá eftir efni sínu en án verðbreytinga.
Stefndi mótmælir verðmati bifreiðarinnar í uppgjöri á dskj. nr. 7. Þar komi fram að stefnandi ákveður einhliða að færa verð hennar niður um 20% frá söluverði án skýringar og síðan aftur um 15% til viðbótar. Verð bifreiðarinnar sé fært niður um 960.000 kr. Þá er mótmælt tjónskoðunarskýrslu á dskj. nr. 7. Skýrslan sé óstaðfest og óundirrituð, auk þess sem stefndi hafi ekki fengið að vera viðstaddur skoðun og gæta þar hagsmuna sinna. Þá mótmælir stefndi því að dekk bifreiðarinnar hafi verið ónýt.
Bent er sérstakleg á að frá áætluðu söluverð bifreiðarinnar, 3.000.000 kr. skv. dskj. nr. 7., dregur stefnandi 960.000 kr. án rökstuðning og til viðbótar 387.299 kr. vegna áætlaðs kostnaðar við viðgerðir og lagfæringar, eða samtals 1.347.299 kr., þ.e. 45% af „söluverðmæti“ bifreiðarinnar skv. dskj. nr. 7. Í þessu sambandi er áréttað að skv. gögnum málsins var bifreiðinni einungis ekið 10.465 km frá því að stefndi og stefnandi sömdu um hana og þar til hún var tekin úr vörslu stefnda. Þá er sérstaklega bent á að stefnandi hefur ekki lagt fram gögn um raunverulegt söluverð bifreiðarinnar.
Um réttarheimildir vísar stefndi til meginreglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar. Þá er vísað til laga nr. 38/2001, nr. 161/2002, nr. 7/1936 og laga nr. 121/1994.
Niðurstaða: Kjartan G. Gunnarsson, forstjóri SP-fjármögnunar hf., bar fyrir rétti að málsaðilar hefðu gert með sér hefðbundinn bílasamning sem í eðli sínu væri kaupleigusamningur þar sem leigutaki væri að taka á leigu bifreið og SP- fjármögnun hf. að fjármagna bifreiðina í erlendri mynt með samningi til 84 mánaða.
Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. væri í samstarfi við bílasala og bílaumboð um allt land. Þegar Óskar Sindri Atlason óskaði eftir að fá bifreiðina VT-658 á bílasamningi hjá SP- fjármögnun hf. hafi verið send umsögn um það til félagsins. Starfsmenn félagsins hefðu skoðað það og metið hvort hann væri traustsins verður. Óskar Sindri hefði sótt um það í erlendri mynt og um leið og SP-fjármögnun hf. samþykkti það þá hafi verið gengið frá því að SP-fjármögnun hf. tæki lánið hjá viðskiptabanka félagsins í erlendri mynt. Síðan hafi félagið selt þessa erlendu mynt og greitt það út annar vegar í japönskum jenum og hins vegar í svissneskum frönkum. Félagið hafi sem sagt tekið erlent lán fyrir þessu hjá viðskiptabanka félagsins, Landsbanka Íslands. Selt síðan erlendu myntina fyrir íslenskar krónur og greitt þær seljanda bifreiðarinnar, Nýju Bílahöllinni.
Kjartan sagði að SP-fjármögnun hf. fjármagnaði útlán sín með lántökum hjá Landsbankanum. Þegar SP-fjármögnun hf. lánaði út dollara þá tæki félagið lán í dollurum. Ef félagið lánaði japönsk jen þá tæki það lán í japönskum jenum. Kjartan sagði að erlendar lántökur væru 80 til 90% í starfsemi félagsins, eða hefðu verið það fyrir hrun. Nú stæði ekki erlend mynt til boða. Allir nýir samningar í dag væru í íslenskum krónum.
Kjartan sagði að Óskar Sindri hefði getað haft samninginn við félagið í íslenskum krónum hefði hann óskað eftir því. Það hafi verið öllum opið.
Kjartan sagði að Fjármálaeftirlitið hefði skoðað starfsemi SP-fjármögnunar hf. eins og skylt væri. SP-fjármögnun hf. starfaði samkvæmt lögum og reglum, til dæmis reglum varðandi gjaldeyrisjöfnun og annað slíkt sem Seðlabankinn heldur utan um. SP-fjármögnun hf. hafi þurft að senda allar skýrslur, greinargerðir, bréf og allt um starfsemi félagsins reglulega til Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið þekki alla starfsemina og hvernig hún er framkvæmd.
Kjartan sagði að félagið væri bundið almennum reglum um að hafa jafnvægi í erlendri mynt í eignum og skuldum. Farið væri eftir ákveðnum reglum í því sambandi. Eignir og skuldir verði að standast á. Óheimilt sé að taka gengisáhættu. Ef lánað er út í dollurum þá verði félagið að skulda í dollurum. Ef lánað er út í íslenskum krónum þá verði að taka lán í íslenskum krónum. Ekki megi taka lán í erlendri mynt og lána út í íslenskum krónum til að ná gengishagnaði.
Kjartan kvaðst vera viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfa nú sem framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar hf. og hafi gert það frá stofnun félagsins 1995. Hann hafi borið ábyrgð á starfsemi félagsins í maí 2007. Landsbanki Íslands hafi í maí 2007 átt 51% í félaginu og ýmsir sparisjóðir áttu 49%. Í dag eigi Nýi Landsbanki Íslands [NBI hf.] félagið.
Í maí 2007 sagði Kjartan, að Þorgeir Baldursson hafi verið stjórnarformaður félagsins. Fyrir hönd Landsbankans hefðu setið í stjórn Elín Sigfúsdóttir og Guðmundur Davíðsson. Þá hafi Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri í Byr, og Magnús Ægir Magnússon setið í stjórn. Í dag sitji í stjórn Anna Bjarney Sigurðardóttir, stjórnarformaður frá NBI hf., Ari Wendel, einnig frá bankanum, Jón Þorsteinn Oddleifsson, Ragnar Z. Guðjónsson og Angantýr Valur Jónasson.
Kjartan sagði að Magnús Oddur Guðjónsson, forstöðumaður fyrir bílafjármögnunar-svið, hafi undirritað fyrir SP-fjármögnun hf. samninginn við Óskar Sindra.
Kjartan sagði að samstarfi SP- fjármögnunar hf. við bílasala og bílaumboð um allt land byggðist, eins og í þessu tilviki, á því að samningurinn er gerður í starfsstöð bílasalans en SP-fjármögnun hf. leggi til ákveðinn hugbúnað sem félagið notar til að reikna út greiðslubyrði að gefnum ákveðnum forsendum þar sem hann geti sett inn kaupverð á bílnum og útborgun; valið hvort hann vill hafa það í erlendri mynt eða íslenskum krónum. Hann geti stillt til langs tíma til þess að finna forsendur þess hver greiðslubyrðin verður. Samskiptin við bílasöluna sé bæði rafræn og símleiðis. Samningar séu að meginstefnu til útbúnir á bílasölunum. Algengt sé að starfsmenn SP-fjármögnunar hf. hitti ekki viðsemjendur við upphaf samningsgerðar. Löggiltir bílasalar fái aðgang að tölvukerfi SP-fjármögnunar hf. um leið og sótt er um aðgang, hafi þeir farið í gegnum ákveðna kynningu hjá SP-fjármögnun hf. Brjóti þeir samskiptareglur við félagið er lokað fyrir þá.
Kjartan sagði að bílasalarnir setji inn í samningsformið þær upplýsingar sem þeir hafa, eins og fram komi á samningnum við Óskar Sindra, þá hafi bílasalinn fyllt út hvaða bílnúmer verið er að selja. Kerfið sæki síðan nafnið á bifreiðinni í ökutækjaskrá sem og fyrsta skráningardag bifreiðarinnar. Þarna standi staða mælis. Bifreiðin hafi greinileg verið ekinn 20.000 km þegar kaupin voru gerð, en það eru upplýsingar sem bílasalinn þekkir og skráir í samningsformið. Umsamið kaupverð er auðvitað milli kaupanda og leigutaka og síðan lámarks útborgun sem krafist er, eða útborgun, sem leigutaki vill greiða, sem í mörgum tilfellum fari yfir lámarks útborgun. Síðan sé fyrsti gjalddagi og fjöldi gjalddaga í samræmi við óskir leigutaka. Leigutakinn ákveði tryggingafélag, en SP-fjármögnun hf. krefjist þess að bifreiðin sé kaskótryggð.
Kjartan sagði að viðskiptavinurinn fái samninginn til yfirlestrar hjá bílasalanum. Eigi hann í erfiðleikum með að lesa hann þá geri hann væntanlega grein fyrir því.
Kjartan sagði að svona framsal væri heimilt samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki.
Kjartan sagði að myntkarfan BL2 væri að hálfu í svissneskum frönkum og hálfu í japönskum jenum og stuðst væri við gengisskráningu Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.
Til skýringar, sagði Kjartan, að væri myntkrafan samansett af einum dollara, einni evru, einum svissneskum franka og einu pundi, væri það grunneiningin í myntkörfunni allan tímann. Í upphafi væri einn dollari jafngildur einni evru og vegi jafn þungt. Gefi dollarinn eftir og evran styrkist þá vegi evran þyngra í myntkörfunni þó eftir sem áður sé einn dollari og ein evra í körfunni.
Kjartan sagði að þegar menn greiði SP-fjármögnun hf. í íslenskum krónum af svona bílalánum þá kaupi félagið með íslensku krónunum erlendan gjaldeyri til að greiðir skuld félagsins vegna viðskiptanna.
Stefndi, Óskar Sindri Skúlason, bar fyrir rétti að menntun hans væri grunnskólapróf og hann starfaði á réttingar- og sprautuverkstæði. Hann hafi farið á bílasölu og samið við eiganda bifreiðarinnar [VT-658, Volvo S40] og keypt bifreiðina. Gengið hefði verið frá samningnum á bílasölunni. Bílasalinn hafi ákveðið hvar hann tók lán til að greiða bifreiðina. Lánskjör hefðu ekki verið rædd sérstaklega, bílasalinn hafi álitið kjörin þau hagstæðustu. Samningurinn hefði ekki verið lesinn yfir sérstaklega. Hann kvaðst ekki muna til þess að honum hafi verið kynnt gengisáhætta. Hann sagði að ekki hefði verið rætt um að afborganir kynnu að hækka en þess sé ekki getið á greiðsluyfirliti. Hann hafi haldið að afborganir yrðu óbreyttar. Það hafi verið forsenda hans fyrir lántökunni. Hann kvaðst hvorki hafa á bílsölunni hitt löggiltan bílsala né starfsmann SP-fjármögnunar hf. Hann kvaðst áður hafa tekið bílalán. Í því tilviki hafi hann ekki orðið var við marktækar breytingar á afborgunum.
Óskar sagði að bróðir hans hefði unnið á bílasölunni. Hann kvaðst hafa verið að kaupa bifreiðina af honum með nýjum fjármögnunarsamningi.
Óskar kvaðst ekki muna nákvæmleg hvenær bifreiðin var tekin frá honum en það hefði verið í desember 2008. Hann kvaðst áður hafa verið í sambandi við starfsmann SP-fjármögnunar hf. en afborganir hafi verið þannig að ekki hafi verið unnt að semja um þær. Hann kvaðst ekki kannast við að bifreiðin hefði verið eins illa farin og kostnaðarmatsskoðun á dskj. nr. 8. gefur til kynna.
Óskar kvaðst ekki muna hver á bílasölunni hafi gengið frá bílasamningnum. Hann kvaðst ekki muna að það hafi verið bróðir hans. Hann hafi samið um verðið við bróður sinn en muni ekki hver sá um að semja samninginn fyrir hann. Aðspurður kvaðst hann hafa þekkt hvaða starfsmaður á bílasölunni var löggiltur bílasali og hver ekki.
Lögmaður stefnda kvaðst sjá á heimsíðu Nýju Bílahallarinnar að þar eru fjórir starfsmenn, þar af þrír löggiltir. Óskar sagði að þessir menn hefðu ekki verið starfsmenn á bílasölunni þegar hann keypti bílinn 2007.
Vísað var til dsks. nr. 18, sem er endurprentun á greiðsluseðlum sem SP-fjármögnun hf. sendi Óskari. Bent var á að þar væru reiknuð út japönsk jen og svissneskir frankar. Því mætti ætla að hann hafi vitað að þetta var tengt erlendri mynt. Óskar sagði að í upphafi hafi hann ekki búist við að erlend mynt myndi hafa svona áhrif á afborganir. Þegar hann tók lánið hafi það verið í erlendri mynt. Bílasalinn hafi sagt honum að það væru einu lánin sem fengjust á bílum á þeim tíma, meira og minna. Hann kvaðst hafa frá upphafi vitað að þetta var erlent lán.
Vísað var til þess að hann hefði getað fengið láninu breytt í íslenska skuldbindingu, og spurt var, hvort honum hefði dottið það í hug. Óskar sagði að þau samskipti, sem hann átti við SP-fjarmögnun hf., að reyna semja um þennan bíl og annað, hafi ekki verið einfalt. Honum hafi verið tjáð að allt þyrfti að vera í skilum til að breytingar yrðu gerðar á samningnum. Á þeim tíma, sem hann var í skilum, hefði honum ekki verið kunnugt um að hægt væri að fá láninu breytt í íslenska skuldbindingu.
Óskar sagði að bróðir sinn hefði verið bílasali í fjögur til fimm ár. Bróðir hans hefði lítið ráðlagt honum við kaupin.
Árni Þór Skúlason bar fyrir rétti að hann hefði unnið fyrir Nýju bílahöllina frá því í október 2006 til áramóta 2008/2009. Hann kvaðst vera ómenntaður en vera nú í skóla. Lagður var fyrir hann kaupleigusamningur sem hér um ræðir, dskj. nr. 3. Árni Þór kvaðst kannast við svona samning og samningsform. Aðdragandi að svona sölu sé að maður kemur inn á söluna og sér bifreið sem honum líst á. Samið er um kaupverð og síðan farið í það að finna fjármögnun og senda fyrirspurn gegnum netið til lánafyrirtækja. Síðan væri beðið eftir svari um hvort hann fengi lán eða ekki. Að fengnu samþykki væri bílasamningurinn prentaður með skilmálum á baksíðunni. Í langflestum tilvikum gangi starfsmaður bílasölunnar frá kaupleigu-samningnum, en sumir kaupendur vilji sjálfir fara til fjármögnunarfyrirtækisins og ræða við fólkið þar. Ekkert sé óeðlileg við það, en í 90% tilvika sjái starfsmaður bílasölunnar um þetta.
Árni Þór sagði að í mjög fáum tilvikum lesi kaupendur skilmálana. Árni Þór kvaðst ekki muna hvort hann átt þátt í samningnum sem hér um ræðir.
Stefndi, Óskar Sindri, og stefnandi, SP-fjármögnun hf., gerðu með sér kaupleigusamning um bifreið, þar sem SP-fjármögnun hf. er leigusalinn en Óskar Sindri leigutakinn. Aðdragandi samningsins er að Óskar Sindri ákveður að kaupa bifreið. Kaupin verða síðan með þeim hætti sem rakið var hér að framan. Óumdeilt er að Óskar Sindri stóð ekki við að greiða afborganir eins og SP-fjármögnun hf. krafði hann um.
Óskar Sindri byggir í fyrsta lagi á því að óheimilt hafi verið af SP-fjármögnun hf. að binda afborganir lánsins við gengi japansks jens og svissneska franka gagnvart íslenskri krónu samkvæmt ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öðru lagi á því að forsendur samningsins hafi brostið og megi SP- fjármögnun hf. því ekki byggja á honum eins og nú stendur á. Í þriðja lagi byggir Óskar Sindri á því að ákvæði 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi hér við, enda sé, eins og nú standi á, ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að SP-fjármögnun hf. beri hann fyrir sig.
Ætla verður að heimilt hafi verið að binda afborganir lánsins í íslenskum krónum við gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni og svissneskum frönkum eins og gert var. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 banna heldur ekki fortakslaust að miða lán við gengi erlendra gjaldmiðla. Í 13. gr. segir m.a. að ákvæði um verðtryggingu gildi um skuldbindingar er varða lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar, en með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Þá segir að með verðtryggingu fari samkvæmt 14. gr. nema lög kveði á um annað. Í 14. gr. segir m.a. að heimilt sé að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grunvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.
Viðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt. SP-fjármögnun hf. tók erlent lán sem félagið lánaði síðan Óskari Sindra. Á félaginu hvílir skylda samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands að eiga á móti skuldbindingum sínum í erlendum lánum nokkurn veginn sömu fjárhæð í kröfum. Skuldbinding Óskars Sindra er í jenum og svissneskum frönkum samkvæmt samningi aðila. Engu breytir þó að erlenda myntin sé umreiknuð í íslenskar krónur við afborgun í hverjum mánuði og greitt hafi verið með íslenskum krónum, enda er til þess að líta að krónan er lögeyrir þessa lands. SP-fjármögnun hf. seldi erlenda mynt og fékk íslenskar krónur, sem notaðar voru til að greiða fyrri eiganda bifreiðarinnar. Óskari Sindra var í sjálfsvald sett hvort hann greiddi SP-fjármögnun hf. með íslenskum krónum eða með jenum og svissneskum frönkum. Erlent fé var lánað. Lög standa ekki í vegi fyrir að hægt sé að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var.
Óskar Sindri bar fyrir rétti að hann hefði vitað að um erlent lán var að ræða. Þá segir í samningi aðila m.a.: „Leigutaki lýsir því yfir með undirskrift sinni að hann gerir sér fulla grein fyrir því að lántaka í erlendum gjaldmiðli er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum. Annars vegar er um að ræða gengisáhættu sem getur leitt til hækkunar á höfuðstól á lánstíma og þar með hækkun á afborgun höfuðstóls og vaxta. Hins vegar er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, eins mánaða LIBOR vöxtum, með föstu álagi. Vextir fyrir hverja mynt eru aðeins ákveðnir til eins mánaðar í senn og geta því breyst með vaxtaákvörðunum í heimaríkjum hverrar myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geta haft áhrif til hækkunar.“
Ekki veldur sá er varar er almennt talið. Óskari Sindra mátti vera ljóst að greiðslur hans samkvæmt samningi aðila voru bundnar við gengi japansks jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu og að slíku fylgdi áhætta. Gengisþróun hefur orðið flestum Íslendingum undanfarið ákaflega óhagfeld. Á þeirri þróun getur SP-fjármögnun hf. hins vegar ekki borið ábyrgð. Þá er ósannað að SP-fjármögnun hf. hafi með einhverjum hætti nýtt sér hugsanlega fákunnáttu Óskars Sindra um gjaldeyrismál eða stuðlað að því að honum hafi hugsanlega verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar um þau efni eða gengistryggingu leigugreiðslu. Ekki eru því efni til að víkja frá þeirri meginreglu íslensks samningsréttar að samningar séu skuldbindandi fyrir aðila þeirra.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði allt eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Óskar Sindri Atlason, greiði stefnanda, SP-fjármögnun hf., 4.307.833 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 27. janúar 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Páll Þorsteinsson