Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Gjaldtaka og arðsemi bankanna

Gjaldtaka og arðsemi bankanna

Í ágústlok kom út skýrsla starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi banka á Íslandi. Kristín Eir Helgadóttir var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna í starfshópnum. Hér er að finna ályktun frá stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vegna útgáfu skýrslunnar. 

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur að helstu niðurstöður hafa í aðalatriðum blasað við eins og samtökin hafa oft bent á, en þær eru:

  • Bankarnir hafa aldrei hagnast meira en í fyrra
  • Lækkun bankaskatts hefur ekki skilað sér til neytenda
  • Stærsti tekjupóstur bankanna eru vextir af lánum
  • Arðsemi bankanna hefur aldrei verið meiri 

Fleira mætti tína til, en þetta er í samræmi við þær áherslur sem Hagsmunasamtökin hafa haldið á lofti.

Það voru þó ákveðnar takmarkanir við gerð þessarar skýrslu sem fulltrúi samtakanna gerði ítrekað athugasemdir við en þær koma ekki fram í skýrslunni. Það skiptir máli að koma þeim athugasemdum að, sérstaklega í ljósi þess að nú hamast bankarnir við að hampa sjálfum sér í tengslum við skýrsluna.

Frá árslokum 2022 og fram að öðrum ársfjórðungi 2023 hafa orðið miklar breytingar sem eiga rætur sínar að rekja til stýrivaxtahækkana. Vaxtamunur hefur aukist stöðugt frá árslokum 2022 þegar hann var 2,8% í tæplega 3,1% í lok annars ársfjórðungs 2023 og er nú hærri en áður en bankaskatturinn var lækkaður en það er töluverð hækkun á stuttum tíma.

Allt of lítil áhersla var lögð á að skoða hækkandi greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána og vaxtatekjur sem bankarnir moka inn af þeim. Það er sama sagan, þetta er ekki skoðað frá árslokum 2022 og það sem af er ári 2023. Það er stóri vandinn sem skiptir mestu máli núna.

Það fór líka of lítil vinna og rannsókn í að skoða bæði neytendamál og samkeppnismál þar sem það gafst ekki tími til þess sökum umfangs og afmörkunar verkefnisins og það vantar í skýrsluna. Þetta eru málefni sem eru gríðarlega mikilvæg, sérstaklega þar sem neytendur semja í dag frá sér öll réttindi þegar þeir skrifa undir margra blaðsíðna neytendalánaskilmála við lántöku.

Verðskrá bankanna er einnig síbreytileg en frá því að greining fór fram, fram að árslokum 2022, hafa bankarnir breytt verðskrám og sá banki sem kom best út í gjaldaliðum kemur verst út núna.

Þetta sýnir okkur að eina leiðin til að veita bönkunum aðhald á markaði er að skýrsla sem þessi sé gefin út á hverju ári. Það skiptir máli að bankarnir geti ekki skýlt sér á bak við hluta af niðurstöðum sem „besti bankinn“ í þessu hraðbreytilega umhverfi vaxta og kostnaðar þegar mestu máli skiptir að ná tökum á vaxta- og verðbótagreiðslum heimilanna!

Þessi skýrsla staðfestir þó algjörlega málflutning samtakanna öll þessi ár. Það að bankarnir geti sett sér 10-13% arðsemiskröfur og greitt út milljarða í arð en látið svo eins og þeir séu að lepja dauðann úr skel því að þessi arðsemi gangi þeim svo nærri segir allt sem segja þarf!




© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum