Gjaldtaka og arðsemi bankanna
Í ágústlok kom út skýrsla starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi banka á Íslandi. Kristín Eir Helgadóttir var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna í starfshópnum. Hér er að finna ályktun frá stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vegna útgáfu skýrslunnar.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur að helstu niðurstöður hafa í aðalatriðum blasað við eins og samtökin hafa oft bent á, en þær eru:
- Bankarnir hafa aldrei hagnast meira en í fyrra
- Lækkun bankaskatts hefur ekki skilað sér til neytenda
- Stærsti tekjupóstur bankanna eru vextir af lánum
- Arðsemi bankanna hefur aldrei verið meiri
Fleira mætti tína til, en þetta er í samræmi við þær áherslur sem Hagsmunasamtökin hafa haldið á lofti.
Það voru þó ákveðnar takmarkanir við gerð þessarar skýrslu sem fulltrúi samtakanna gerði ítrekað athugasemdir við en þær koma ekki fram í skýrslunni. Það skiptir máli að koma þeim athugasemdum að, sérstaklega í ljósi þess að nú hamast bankarnir við að hampa sjálfum sér í tengslum við skýrsluna.
Frá árslokum 2022 og fram að öðrum ársfjórðungi 2023 hafa orðið miklar breytingar sem eiga rætur sínar að rekja til stýrivaxtahækkana. Vaxtamunur hefur aukist stöðugt frá árslokum 2022 þegar hann var 2,8% í tæplega 3,1% í lok annars ársfjórðungs 2023 og er nú hærri en áður en bankaskatturinn var lækkaður en það er töluverð hækkun á stuttum tíma.
Allt of lítil áhersla var lögð á að skoða hækkandi greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána og vaxtatekjur sem bankarnir moka inn af þeim. Það er sama sagan, þetta er ekki skoðað frá árslokum 2022 og það sem af er ári 2023. Það er stóri vandinn sem skiptir mestu máli núna.
Það fór líka of lítil vinna og rannsókn í að skoða bæði neytendamál og samkeppnismál þar sem það gafst ekki tími til þess sökum umfangs og afmörkunar verkefnisins og það vantar í skýrsluna. Þetta eru málefni sem eru gríðarlega mikilvæg, sérstaklega þar sem neytendur semja í dag frá sér öll réttindi þegar þeir skrifa undir margra blaðsíðna neytendalánaskilmála við lántöku.
Verðskrá bankanna er einnig síbreytileg en frá því að greining fór fram, fram að árslokum 2022, hafa bankarnir breytt verðskrám og sá banki sem kom best út í gjaldaliðum kemur verst út núna.
Þetta sýnir okkur að eina leiðin til að veita bönkunum aðhald á markaði er að skýrsla sem þessi sé gefin út á hverju ári. Það skiptir máli að bankarnir geti ekki skýlt sér á bak við hluta af niðurstöðum sem „besti bankinn“ í þessu hraðbreytilega umhverfi vaxta og kostnaðar þegar mestu máli skiptir að ná tökum á vaxta- og verðbótagreiðslum heimilanna!
Þessi skýrsla staðfestir þó algjörlega málflutning samtakanna öll þessi ár. Það að bankarnir geti sett sér 10-13% arðsemiskröfur og greitt út milljarða í arð en látið svo eins og þeir séu að lepja dauðann úr skel því að þessi arðsemi gangi þeim svo nærri segir allt sem segja þarf!