Hótanir um hefnd
Hér á landi eru þrír bankar sem hafa samanlagt hagnast um a.m.k. 960 milljarða frá efnahagshruninu 2008. Til að setja þessa upphæð í samhengi þá samsvarar hún því að hvert einasta mannsbarn í 360.000 manna samfélagi hafi lagt 2,5 milljónir til HAGNAÐAR bankanna.
Of mikil völd
Það er staðreynd að bankarnir stunda í raun sjálftöku á Íslandi. Þeir hafa töglin og hagldirnar gagnvart öllum sínum viðskiptavinum og á milli þeirra er engin samkeppni heldur fákeppni þannig að ef t.d. einn bankinn hækkar vexti, þá gera hinir það líka.
Þessari yfirburðastöðu bankanna ætti að fylgja mikil samfélagsleg ábyrgð en svo er því miður ekki. Þeir eru ekki einu sinni tilbúnir til að greiða bankaskatt upp á 0,376% og það sem verra er; hvorki ríkisstjórn Íslands né nokkur þingmaður, fyrir utan Flokk fólksins, eru tilbúin til þess að krefjast þessa lítilræðis af þeim.
Því er haldið fram að ef bankarnir verði látnir greiða sex milljarða í viðbót til samfélagsins, sem t.d. væri hægt að nota til að veita þeim sem minnst hafa 350.000 krónur skatta- og skerðingalaust, muni þeir hækka vexti á neytendur og velta þessum kostnaði yfir á þá.
Athugið að einn af þessum bönkum var að greiða hluthöfum sínum 88 milljarða í arð. Bankaskattur upp á sex milljarða er 7% af þeirri upphæð.
Af hverju ætti fyrirtæki sem hagnast um tugi milljarða á hverju ári að þurfa að velta þessum aukaútgjöldum sínum yfir á viðskiptavini? Hvernig getur fyrirtæki með slíkan hagnað nokkurn tímann réttlætt það að hækka álögur á viðskiptavini sína?
Hvernig getum við, sem þjóð, ríkisstjórnin og alþingismenn tekið þessu háttalagi sem gefnum hlut án þess að rísa upp og mótmæla harðlega?
Ef þetta er staðan, þá eru bankarnir orðnir of stórir og völd þeirra og áhrif allt of mikil. Er skynsamlegt að selja banka í hendurnar á einkaaðilum þegar við þekkjum ekki fyrirætlanir þeirra? Litlir fjárfestar eru eitt en andlitslausir fjárfestingasjóðir annað.
Hótanir um hækkun vaxta
Ég tel augljóst að við verðum að grípa inn í og losa tangarhald bankanna á þjóðinni. Til þess þurfum við í fyrsta lagi að þora að rísa upp gegn hótunum um hefndaraðgerðir í formi hækkaðra vaxta. Þar væri hækkun bankaskatts góð byrjun.
Síðan þarf að stofna samfélagsbanka sem snýst um að þjóna fólkinu í stað þess að græða á því. Banka sem setur velferð samfélagsins framar gróðasjónarmiðum og hefur það að markmiði að efla samfélagið í stað þess að hugsa ekki um neitt annað en að hámarka eigin hagnað.
Höfundur er formaður Hagmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins.
Ásta Lóa Þórsdóttir
(Þessi pistill birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. janúar, 2022)