Umræðufundur um stöðu heimilanna - upptaka
Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir umræðufundi um stöðu heimilanna í Iðnó snemma á árinu. Samtökin kölluðu til opins fundar og pallborðsumræðu baráttufólks fyrir bættum fjárhag heimilanna í efnahagslegum ólgusjó, þá ekki síst í húsnæðismálum. Fundurinn var tekinn upp og hér vill stjórn samtakanna deila upptökunni með félagsmönnum, velunnurum og samstarfsfólki á YouTube rás samtakanna. Efni fundarins var meðal annars hæg uppbygging hagkvæmra íbúða fyrir almenning og leigumarkaður sem er sannarlega ekki leigjendavænn. Síðast en ekki síst var rætt um verðtryggingu lána og slæma stöðu lántakenda í íbúðakaupum sem standa frammi fyrir sífelldum hækkunum á greiðslubyrði vaxta og oftar en ekki höfuðstóls þar að auki. Fyrirhyggju með almannahag að leiðarljósi skortir og hefur lengi skort í þessum málaflokkum.
Í pallborði voru: Ragnar Þór Ingólfsson (VR), Guðmundur Hrafn Arngrímsson (Samtök leigjenda), Marinó G. Njálsson (samfélagsrýnir), Vilhjálmur Birgisson (VLFA) og Ásthildur Lóa Þórsdóttir (alþingismaður og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna). Framsöguræður fluttu Vilhjálmur, Marinó G. Njálsson, Guðmundur Hrafn og Ragnar Þór.
Upptaka: Heimilin í fyrsta sæti - Iðnó 28. febrúar 2023
Húsnæðismarkaður fyrir almenning?
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður samtaka leigjenda og stjórnarmaður hjá samtökunum fjölluðu um húsnæðismál. Formaður VR sagði frá reynslu sinni og annarra á vegum VR af uppbyggingu hagkvæmra íbúða en leit hans að stuðningi við uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum fyrir almenning hefur gengið hægt. Eftir margra ára vinnu eru þó metnaðarfull verkefni að líta dagsins ljós. Guðmundur Hrafn Arngrímsson greindi frá starfi sínu hjá samtökum leigjenda og baráttu sinni fyrir sanngjarnari leigumarkaði á Íslandi. Hans sýn á leigumarkaðinn er að hann lúti nánast engum takmörkunum eða verndandi regluverki fyrir leigjendur. Leigumarkaðurinn sé fyrst og fremst hagfelldur leigusölum og fjárfestum.
Þensluhvetjandi hagkerfi og heimilin borga
Marinó G. Njálsson, upplýsingatæknisérfræðingur og fyrrum stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna fjallaði um eiginleika verðtryggðra lána og útreikning vísitölu neysluverðs sem verðbætur slíkra lána taka mið af. Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi sagði frá baráttu sinni fyrir afnámi verðtryggingar. Á meðan hann rifjaði upp langa sögu um loforð stjórnmálamanna um afnám verðtryggingar minnti hann á hættuna sem nú felst í verðtryggðum lánum, þar sem höfuðstóllinn hækkar sífellt í hárri verðbólgu. Lántakendum er boðið upp á sama óstöðugleika með breytilegum vöxtum óverðtryggðra lána. Hann leggur áherslu á að ná þurfi fram lækkun vaxta og stöðugleika í lánaumhverfi heimilanna. Það er löngu tímabært að setja heimilin í fyrsta sæti!
Hlustið, horfið og deilið!
Hagsmunasamtök heimilanna