Heimilin eiga að vera friðhelg
Fyrsti maí 2023
Öryggisleysið í húsnæðismálum Íslendinga er afhjúpað í hárri verðbólgu, síendurteknum hækkunum stýrivaxta og sinnuleysi stjórnvalda. Þetta er óumdeilanlegt fyrir þá einstaklinga sem greiða alltof hátt hlutfall launa sinna í leigukostnað og þeirra sem eiga í erfiðleikum með að mæta hækkandi greiðslubyrði húsnæðislána eða einfaldlega geta það ekki lengur. Rétturinn til eigna er því misskiptur og rétturinn til öryggis á leigumarkaði er vanvirtur. Í þessum sívaxandi húsnæðisvanda vekur furðu að stjórnvöld ætli ekki að bregðast við. Enn fjarlægari virðast áform um að sækja skatttekjur til þeirra sem hafa beinlínis rakað að sér auði í verðbólgu eða aukið álögur sínar og hagnað á kostnað heimilanna.
Fyrsta maí mótmæltu Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök leigjenda í sameiningu þessu öryggisleysi og misrétti í húsnæðismálum í kröfugöngu launafólks.
Kaupmáttarauking?
Ný rannsókn kostuð af ASÍ og gerð af Vörðu - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, sýnir fram á að um helmingur launafólks á nú erfitt með að ná endum saman eða nær einfaldlega ekki endum saman. Í fyrra var þriðjungur landsmanna í þessari stöðu. Framfærsluvandi launafólks hefur því aukist mikið á stuttum tíma. Húsnæðiskostnaður vegur þungt í þessum framfærsluvanda fólks, (sjá frétt á vef ASÍ). Sama dag og ofangreind skýrsla og rannsókn var kynnt Alþýðusambandi Íslands sendir Fjármála- og efnhagsmálaráðuneytið fréttatilkynningu frá sér um að framleiðni hafi lækkað í hagkerfinu en kaupmáttur hafi engu að síður aukist (sjá frétt af vef stjórnarráðsins). Um er að ræða tölur fyrir árið 2022.
Hagtölur frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu fjalla ekki um lífsskilyrði fólks í húsnæðismálum. Þær fjalla um hagkerfið og meðaltals kaupmátt einstaklinga. Það ber að hafa í huga að ef stór hópur fólks stendur mjög vel að vígi fjárhagslega en aðrir þjóðfélagshópar búa við versnandi lífsskilyrði og fjárhagsstöðu, þá kemur meðaltals kaupmáttur ekki illa út. Það má því auðveldlega draga þá ályktun af tvennu ofangreindu að sá kaupmáttur sem ráðuneytið greinir frá gefi ekki sanngjarna sýn á kaupmátt. Kaupmátt þarf að kynna í samhengi svo hann hafi merkingu og sýni raunverulegan mátt þess sem kaupir. Meðaltals kaupmáttur segir ekkert um fjárhags- og eða félagslega stöðu einstaklinga. Oft er því verið að slá ryki í augun á fólki þegar talað er um aukinn kaupmátt á Íslandi. Það ætti frekar að ræða um kaupmáttinn í hagkerfinu þegar hagtölur um kaupmátt eru kynntar.
Framfærsla og húsnæðisöryggi
Hækkun bóta í hárri verðbólgu er skammgóður vermir fyrir heimilin og engin lausn í víðtækum vanda í húsnæðismálum. Það sama má segja um breytingar á reglum um notkun séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðisskuldir þ.e. undanþágu á skatti sem nú hefur sýnt sig að hafi nýst að stærstum hluta þeim efnameiri i samfélaginu. Greiðsla bóta eykur þenslu og fer síðan að lokum til bankanna eða leigusalanna og er því aðgerð sem býður ekki upp á neina lausn. Velferðarkerfi Norðurlandanna var byggt upp á þeirri réttlætishugsun að nauðsynlegt væri að beita meðal annars skattkerfinu gegn misrétti og til að vernda lífsskilyrði vinnandi fólks. Molnað hefur undan því kerfi á Íslandi og ekkert er gert til að vernda leigjendur eða lántakendur og framfærsluskilyrði þeirra. Fólk með meðaltekjur á ekki að þurfa bætur til að draga fram lífið. Launafólk á ekki heldur að standa varnarlaust gagnvart siðlausri græðgi á leigumarkaði. Breytingar þurfa að eiga sér stað í samfélagsgerðinni, sem tryggja að þeir sem sannarlega valda þenslu greiði fyrir hana og þeir sem hagnist á verðbólgunni greiði hluta af þeim hagnaði aftur til samfélagsins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður samtaka leigjenda gengu því saman frá Skólavörðuholtinu þann 1. maí ásamt öðrum stjórnarmönnum samtakanna. Samtökin sameinuðust um slagorðin Húsnæðisöryggi fyrir alla og Heimilin eiga að vera friðhelg. Þessi slagorð vísa í taumlaus áhrif verðbólgu á húsnæðisskuldbindingar heimilanna, bæði lán og leigu og óásættanlega stöðu í húsnæðismálum á Íslandi.
Hagsmunasamtök heimilanna