Stofnanir brugðust í hruninu
Það er skýr afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna, að öll heimili eigi rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri lögfræðiráðgjöf og réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Afstaða samtakanna byggir á reynslu þeirra af efnahagshruninu og langvarandi áhrifum gjaldþrota bankanna 2008 á lífsskilyrði félagsmanna og annarra sem til samtakanna hafa leitað.
Fólk var varnarlaust
Á árunum eftir hrun var eignarréttur fólks lítilsvirtur og fjölskyldur sem neyddust til að selja heimili sín festust í kjölfarið á ómannvænum leigumarkaði til langs tíma, án lánstrausts. Þetta fólk hafði þó ekkert rangt gert. Lán stökkbreyttust eftir gjaldþrot bankanna og hækkun greiðslubyrðar var mörgum ofviða en það sem meira var, bankarnir og lánastofnanir beittu ófyrirséðri hörku við innheimtu lána og gjaldfellingu þeirra. Stjórnkerfið og stofnanir eins og Alþingi og Umboðsmaður skuldara brugðust þessum fjölskyldum. Þrátt fyrir að lánveitendum væri skylt að gera upp eftir nauðungarsölur miðað við fullt markaðsverð fasteigna kröfðu þeir lántakendur engu að síður um meintar eftirstöðvar lána og skráðu fólk á vanskilaskrá til margra ára. Fólk var varnarlaust. Óteljandi álitamál fóru í gegnum dómskerfið og kærunefndir, með takmörkuðum árangri fyrir lántakendur og eini raunverulegi stuðningurinn var á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna. Langvinn áhrif hrunsins á lífsskilyrði stórs hóps félagsmanna hafa hvorki verið viðurkennd né rannsökuð. Enn leita félagsmenn í ráðgjöf til að leysa úr þessum langtímavanda, þó mikið vatn hafi runnið til sjávar.
Þegar einstaklingar eru komnir í greiðsluerfiðleika sem ógna húsnæðisöryggi þeirra vegna utanaðkomandi aðstæðna, er hvergi málsvörn að finna. Í þessu samhengi er mikilvægi heimilanna í viðspyrnu fyrir hagkerfið á krepputímum vanmetin, eins og oft áður. Umboðsmaður skuldara hefur aldrei verið hagsmunavörður skuldara þrátt fyrir nafngift, enda er fjölmörgum vísað á bug og neitað um aðstoð hjá því embætti. UMS hefur aldrei gert athugasemdir við eða mótmælt nokkurri kröfu frá banka, hvað þá farið í málarekstur fyrir hönd hagsmuna skuldara. Stofnunin hefur einungis leiðbeint skuldara um hvernig hann þurfi að herða sultarólina til að geta staðið undir kröfunum. Þannig er hlutverk hans nær því að vera umboðsmaður banka en skuldara. Það er því miður enn talið sjálfgefið og eðlilegur framgangur að þegar fólk lendir í greiðsluerfiðleikum, jafnvel þó þeir séu tímabundnir eða stafi af t.d. af bankahruni eða heimsfaraldri, taki við miskunnarlausar aðfarir banka og sýslumanna, sem oft enda með nauðungarsölum og heimilismissi. En svo þarf ekki að vera, það kemur þjóðfélaginu til góða að auka viðspyrnu sem flestra heimila og nauðsynlegt er að veita lántakendum í þessari stöðu óháða lögfræðiþjónustu. Samfélagið þarf að draga lærdóm af raunverulegum afleiðingum gjaldþrota bankanna - sem kennd eru við efnahagshrun.
Frá sjónarhorni Hagsmunasamtaka heimilanna snúast húsnæðismál almennings um mannréttindi; réttinn til heimilis, eigna og verndar í löggjöfinni. Enda var stjórnarskrá Íslendinga samin fyrir einstaklinga en ekki fyrirtæki eða fjármálastofnanir. Heimilin þurfa öfluga málsvara þegar fjármálavæðing samfélagsins seilist í auknum mæli inn á vettvang grundvallarréttinda - eins og tilfellið er með fasteignakaup. Leigumarkaðurinn er þar undir, þó Hagsmunasamtök heimilanna hafi hingað til ekki getað beitt sér nema með takmörkuðum hætti í réttindagæslu leigjenda. Það er á þessum grunni sem samtökin starfa. Markmiðið er að stuðla að jafnri ábyrgð á milli lántaka og lánveitenda, bæta réttarstöðu neytenda í lánaviðskiptum og stuðla að réttlátum og sanngjörnum lánskjörum fyrir neytendur.
Brautryðjendastarf samtakanna í neytendavernd á fjármálamarkaði frá efnahagshruni er mörgum kunnugt um en minna hefur verið fjallað um réttindagæslu fyrir félagsmenn sem þó var afar umfangsmikil og er ennþá aðgengileg 8.500 félagsmönnum samtakanna.