Á döfinni

Framboð til stjórnar HH 2016-2017

Eftirfarandi tilkynningar hafa borist um framboð til stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir aðalfund 2016, sem haldinn verður á Hótel Cabin við Borgartún 32, á 7. hæð, 31. maí 2016 kl. 20:00.

 

 

 

Eftirfarandi eru kynningar þeirra frambjóðenda sem komið hafa slíkum upplýsingum á framfæri nú þegar. Þeim frambjóðendum sem vilja kynna framboð sitt er bent á að senda slíkar upplýsingar á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og verða þær þá birtar hér á þessari síðu fram að fundinum.

Róbert Þ. Bender

Viðskipta- og lögfræðimenntaður raffræðingur og sáttasemjari.

Ég hef setið í aðalstjórn Hagsmunasamtaka Heimilanna síðastliðin þrjú ár. Þar hef ég notið þeirra forréttinda að vinna með góðu fólki að málefnum okkar sem berjumst fyrir því að missa ekki heimilin vegna þess þjóðfélagshruns sem varð árið 2008. Ég er þar engin undantekning og hef beitt öllum þeim vopnum er ég hef haft til að halda nefinu upp úr vatninu, enda einn af mörgum sem ekki hafa fengið fullnaðar leiðréttingu sinna mála, þrátt fyrir hvern dóminn á fætur öðrum neytendum í hag.

Síðastliðið ár hefur verið ár baráttu eins og hin fyrri, og sem borið hefur okkur öll áfram til vonar um betri tíð. Sum okkar hafa fengið málamynda bætur aðrir ekki, sum okkar hafa lika misst heimilin sín á árinu, en það er kominn tími til að allir komist að landi með sín mál. Því ber okkur að berjast áfram og við megum ekki gefa neitt eftir og mikilvægt er að hamra járnið og halda fókus þar til við erum öll komin að landi.

Ég býð mig áfram til setu í aðalstjórn HH, fjórða árið til að fylgja eftir þeim ávinningi er unnist hefur á þessum árum og allt til fullnaðar sigurs. Svo þeirri ánauð er hvílt hefur á heimilum okkar verði aflétt með sigri á réttlæti og trú á framtíðina fyrir okkur öll.

Sigrún Jóna Sigurðardóttir

Ég heiti Sigrún Jóna Sigurðardóttir og er innfæddur Reykvíkingur en bjó á garðyrkjubúi norður í Eyjafjarðarsveit frá 18 ára aldri.

Ég á 4 börn öll búsett hér á landi, ennþá og við öll ég og börnin erum með verðtryggð lán á okkar íbúðum.

Það er svo langt síðan ég stofnaði heimili að ég hef bæði tekið venjulegt lán (1963) og verðtryggt. Ég get ekki sagt að þetta venjulega hafi verið skárra. Heldur verra ef eitthvað var. Það var vegna hárra vaxta og svo voru þeir breytilegir og maður gat aldrei gert neina fjárhagsáætlun.

Ég er búin að vera í stjórn Hagsmunasamtakanna í 4 ár. Fyrst sem varamaður svo í tvö ár sem aðalmaður og síðasta ár bauð ég mig bara fram sem varamann.

Nú býð ég mig fram í stjórnina sem aðalmaður.

Vona að þið treystið mér enn og aftur til að vinna fyrir heimilin í landinu.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum