Á döfinni

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Sala Íslandsbanka - Fjármálaeftirlit

Íslenska ríkið eignaðist Íslandsbanka 2015 og sumarið 2021 fór fram almennt útboð á hlutabréfum ríkisins í bankanum. Í marsmánuði 2022 var hlutur ríkisins aftur til sölu en með tilboðsfyrirkomulagi ætluðu hæfum fjárfestum, í lokuðu útboði í umsjón Bankasýslu ríkisins. Seinna söluferli Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnt. Fjölmargir Alþingismenn kröfðust þess að rannsóknarnefnd yrði skipuð til að fara yfir ferlið. Ríkisstjórnin hafnaði því en fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Jafnframt réðst fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) í athugun á háttsemi söluaðilanna. Samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar 9. janúar 2023 kemur fram í frummati FME að bankinn kunni að hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglna við framkvæmd sölunnar.  

Formaður stjórnar og alþingiskonan Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur gagnrýnt seinna söluferli bankans harðlega, bæði á Alþingi og á opinberum vettvangi. Í nýlegri grein fjallar Ásthildur Lóa um undirlægjuhátt yfirvalda í garð fjármálafyrirtækja í aðsendri grein í Heimildinni. Hún heitir: Að brjóta lög í sátt við yfirvöld. Hér er grein formanns Hagsmunasamtaka heimilanna:

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Íslandsbanki er nú í einhverskonar sáttameðferð hjá Fjármálaeftirlitinu. Enn hefur hvorki verið upplýst um eðli eða alvarleika brota Íslandsbanka, en sagan sýnir að lögbrot fjármálafyrirtækja lúta allt öðrum lögmálum en lögbrot allra annarra og að refsingar, jafnvel fyrir stórfelld brot, hafa verið fáránlega vægar eða jafnvel engar.

Fórnarlömbunum refsað fyrir lögbrot

Á árunum fyrir hrun buðu bankar og önnur fjármálafyrirtæki upp á ólögleg lán. Fjölmargir létu blekkjast og gengu í gildruna. Stjórnendur bankanna og „kerfið“ vissu alveg að gengistryggð lán voru ólögleg. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, ríkisstjórnin og aðrir innan stjórnkerfisins létu þau engu að síður afskiptalaus og gerðu engar athugasemdir við veitingu þeirra svo árum skipti. 

Lesa áfram...

Spillingin opinberar sig

Mótmæli á sölu Íslandsbanka við Austurvöll 9. apríl. Ræða Ásthildar Lóu Þórsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmanns Flokks fólksins:

Kæru Íslendingar

Það er gaman að sjá allan þennan fjölda, þó tilefnið sé ekki gott. Loksins virðumst við vera búin að fá nóg! Í sölunni á Íslandsbanka kristallast spillingin á Íslandi. Í sölunni kristallast hvernig fjármálakerfið er alltaf látið ganga framar hagsmunum almennings. 

Þarna sést spillingin svart á hvítu, þannig að þeir sem ekki viðurkenna hana, eru annað hvort partur af henni eða slegnir alvarlegri blindu. Eftirmálar söluferlisins komu mér ekki á nokkurn hátt á óvart og ég var, sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, búin að spyrja út í þessa möguleika með ýmsum hætti. Eins og t.d. hvernig hægt væri að tryggja „dreifða eignaraðild“ þegar þeir myndu líklega ekki vita hverjir væru á bakvið hina og þessa sjóði, sem vildu kaupa? Það gætu t.d. verið sömu aðilar og keyptu Arion banka. 

Eða hvernig þeir ætluðu að tryggja að hér kæmu ekki „gömlu útrásarvíkingarnir“, sem rændu bankana að innan, og keyptu þennan banka með peningunum sem þeir náðu úr honum á árunum fyrir hrun.

Lesa áfram...

Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

Fréttatilkynning 15. desember 2021

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma aðgerðir og yfirlýsingar Íslandsbanka sem eru til þess gerðar að blekkja neytendur til að velja eða skipta yfir í verðtryggð lán að nýju. Neytendur skulu hafa það í huga að bankar eru almennt ekki með hagsmuni neytenda í huga heldur eru hagsmunir þeirra sjálfra og þeirra fjárfesta, ávallt í forgrunni. Í hartnær fjörtíu ár hafa bankarnir makað krókinn á verðtryggðum lánum heimilanna sem hækka og hækka í allt að 25 ár þrátt fyrir að samviskusamlega sé greitt af þeim. 

Eftir þann tíma tekur höfuðstóll lánanna svo smám saman að lækka, hafi lántakandi yfirleitt ráðið við hækkandi afborganir fram að því. En jafnvel þá hækka afborganir áfram í veldisvexti því aðeins þannig næst að greiða niður stórhækkaðan höfuðstól á tilskildum tíma.

Lesa áfram...

Opið bréf til fjármála- og efnahagsráðherra

Álit Hagsmunasamtaka heimilanna á hugmyndum um sölu á hlutafé ríkisins í Íslandsbanka

Hagsmunasamtök heimilanna leggjast alfarið gegn þeirri ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að fallast á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka, að svo stöddu.

Afstaða samtakanna byggist fyrst og fremst á því að ástæða þess að íslenska ríkið á tvo af þremur stóru bönkunum og þar með meirihluta bankakerfisins, er fordæmalaust fjármálahrun árið 2008 sem hafði geigvænlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Fleiri en 10.000 heimili misstu húsnæði sitt og tugþúsundir eru enn í sárum eftir þann hildarleik sem hófst í kjölfar hrunsins.

Fjármálahrunið er sagt hafa verið rannsakað, en við lestur á þeim skýrslum sem hafa verið gefnar út um þær rannsóknir kemur í ljós að þær eiga það allar sameiginlegt að endapunktur þeirra miðaðist við hrunið. Aftur á móti hefur engin slík rannsókn farið fram á atburðum sem gerðust eftir hrunið og skelfilegum áhrifum þeirra á heimili landsins. Samtökin hafa um árabil barist fyrir því að skipuð verði rannsóknarnefnd sem vinni slíka rannsókn og skili af sér Rannsóknarskýrslu heimilanna.

Rannsóknarskýrsla heimilanna er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að gera upp við hrunið og leitast við að græða þau sár sem það skildi eftir sig, að því marki sem kostur er. Án slíkrar rannsóknar og réttmætra viðbragða við niðurstöðum hennar, er hin raunverulega staða fjármálakerfisins óvissu háð því ekki eru öll kurl komin til grafar. Sem dæmi eru enn að koma upp mál þar sem lánastofnanir hafa orðið uppvísar að því að hlunnfara viðskiptavini og þurft að endurgreiða háar fjárhæðir.

Það kemur ekki til greina að selja neitt af eignarhlutum ríkisins í bönkum fyrr en að undangenginni ítarlegri rannsókn og birtingu Rannsóknarskýrslu heimilanna og uppgjöri við þá sem urðu fyrir tjóni vegna framferðis nýju bankanna sem voru stofnaðir á brunarústum hrunbankanna og hinna ýmsu afkvæma þeirra. Tækifæri sem þetta til að endurskipuleggja fjármálakerfið í þágu almennings er ekki víst að komi aftur og það verður að vera í forgangi fyrir einkavæðingarhugmyndum.

Aðrar hugmyndir en einkavæðing hafa ekki heldur verið teknar til nægilega vel ígrundaðrar umræðu. Sem dæmi gæti komið til greina að nýta arð ríkisins af bönkunum til að gera heilt við þá sem fóru illa út úr hruninu án þess að eiga sök á því. Eða breyta þeim í samfélagsbanka sem yrðu reknir þannig að hagnaður af þeim kæmi fram í betri kjörum frekar en mikilli arðsemi af rekstri. Slíkar hugmyndir þarf að taka til umræðu og leggja á þær mat, ekki síður en einkavæðingarhugmyndir.

Margt skýtur skökku við þær hugmyndir sem nú eru uppi um einkavæðingu Íslandsbanka að hluta. Tímasetningin virðist miða að því að koma þessari hrinu einkavæðingar af stað fyrir kosningar í haust, sem er í besta falli grunsamlegt. Öllu verra er þó að talsmenn einkavæðingarinnar hafa ekki fært fram neinar haldbærar ástæður fyrir henni, heldur aðeins hugmyndafræðilegar kenningar.

 

Hvers vegna að selja (núna eða yfir höfuð)?

Margvíslegar ástæður og markmið með hugmyndum um sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka eða öðrum bönkum hafa verið sett fram sem koma ekki heim og saman við nánari skoðun.

Ekki hlutverk ríkisins að reka banka

Þetta eru ekki rök heldur fullyrðing byggð á þeirri hugmyndafræði að allt sem geti verið einkarekið, eigi að vera það. Öllum er frjálst að hafa slíka lífsskoðun, en þeir sem aðhyllast hana hafa aldrei fært rök fyrir því hvers vegna það sé endilega verra að ríkið eigi banka sem þjóni samfélaginu.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum