Spillingin opinberar sig
Mótmæli á sölu Íslandsbanka við Austurvöll 9. apríl. Ræða Ásthildar Lóu Þórsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmanns Flokks fólksins:
Kæru Íslendingar
Það er gaman að sjá allan þennan fjölda, þó tilefnið sé ekki gott. Loksins virðumst við vera búin að fá nóg! Í sölunni á Íslandsbanka kristallast spillingin á Íslandi. Í sölunni kristallast hvernig fjármálakerfið er alltaf látið ganga framar hagsmunum almennings.
Þarna sést spillingin svart á hvítu, þannig að þeir sem ekki viðurkenna hana, eru annað hvort partur af henni eða slegnir alvarlegri blindu. Eftirmálar söluferlisins komu mér ekki á nokkurn hátt á óvart og ég var, sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, búin að spyrja út í þessa möguleika með ýmsum hætti. Eins og t.d. hvernig hægt væri að tryggja „dreifða eignaraðild“ þegar þeir myndu líklega ekki vita hverjir væru á bakvið hina og þessa sjóði, sem vildu kaupa? Það gætu t.d. verið sömu aðilar og keyptu Arion banka.
Eða hvernig þeir ætluðu að tryggja að hér kæmu ekki „gömlu útrásarvíkingarnir“, sem rændu bankana að innan, og keyptu þennan banka með peningunum sem þeir náðu úr honum á árunum fyrir hrun.
Lítið var gert úr þessari hættu, því þetta átti allt að vera á hreinu enda „regluverkið“ svo afskaplega pottþétt. En ég játa að ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að sjá fyrir mér að þessum aðilum, útrásarvíkingum og mönnum sem fengu milljarða afskrifaða, yrði hreinlegt VILJANDI hleypt að borðinu. Sú niðurstaða hvarflaði bara aldrei að mér.
Þannig að þegar ég sá listann yfir kaupendur leið mér eins og það hefði verið sparkað í magann á mér.
Jafnvel þótt ég hafi aldrei haft möguleika til að hafa áhrif á söluna, hvað þá koma í veg fyrir hana, leið mér eins og ég hefði brugðist ykkur öllum og þeim málstað sem ég stend fyrir inni á Alþingi. Hagsmunasamtök heimilanna og ég, sem formaður þeirra, höfum mótmælt sölu Íslandsbanka, og Arion banka þar á undan, síðan fyrirætlanir um sölu bankana komust fyrst á dagskrá. Ég er því ekki að hoppa á þennan vagn núna, eftir fíaskó síðustu vikna.
Flokkur fólksins er líka EINI FLOKKURINN á Alþingi sem er alfarið á móti sölu bankanna en ekki bara söluferlinu eða því að það sé í höndum fjármálaráðherra. Það kom mér á óvart að enginn annar flokkur skyldi greiða með okkur atkvæði um að fella niður söluheimildina úr fjárlögunum, því niðurstaða sölunnar hefur ekki komið mér neitt á óvart, nema að því leyti að hún er verri en ég óttaðist.
Það er sorglegt að sjá að áhyggjur mínar, Flokks fólksins og Hagsmunasamtaka heimilanna hafa að öllu leyti raungerst og rúmlega það. Útrásarvíkingarnir eru mættir aftur og boðnir velkomnir án nokkurs tillits til fórnarlamba þeirra.
Þessir "gömlu kunningjar" eru aftur að koma sér fyrir í bankakerfinu. Bakkavararbræður og Jón Ásgeir eru með "glæsilega" endurkomu og frjálsir af því að hefja leikinn á ný. Þessir menn, ásamt nokkrum öðrum, byggðu risastóra spilaborg og þegar hún hrundi komu þeir sér burt til London og Lúxemborgar en létu saklaust fólk taka á sig skellinn.
Að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín VEGNA þeirra gjörða. Víkingarnir misstu hins vegar ekki neitt, nema náttúrlega persónulega ábyrgð á skuldum sínum. Allir héldu þeir heimilum sínum og hafa lifað í vellystingum alla tíð síðan. Þeir áttu peninga þegar ferðamennskan fór af stað og stórgræddu á hótel og íbúðabraski.
Íslandsbanki, sem núna er svo verðmætur, byggir fjárhag sinn á lánasöfnum sem hann fékk á hrakvirði, en innheimti af hörku, alveg upp í topp. Þar var enga miskunn að finna, frekar en hjá hinum bönkunum. Þeir ryksuguðu upp heimili fólks sem hafði það eitt sér til saka unnið að taka húsnæðislán.
Þetta var heiðarlegt fólk sem hafði ekki haft hugmyndaflug í að E-Há-effa heimili sín eða taka tugmilljónir í kúlulán fyrir hlutabréfum í eigin félögum eða bankanum sem lánaði þeim. Fólkið fékk ekki afskriftir og ætlaðist aldrei til þess. Það fór bara fram á einhverja smá sanngirni, en hana var hvergi að finna.
Ofbeldinu gegn þessum heimilum hefur ítrekað verið afneitað og ekki hvarflað að neinum að bæta þeim skaðann. Og nú eru útrásarvíkingarnir mættir aftur en fórnarlömb þeirra eru gleymd. Það er ekki nýtt. Fórnarlömb þeirra, fjölskyldurnar sem annað hvort voru sett í fjárhagslega klafa eða misstu heimili sín VEGNA gjörða þeirra, hafa aldrei hlotið viðurkenningu á þeim skaða sem þau urðu fyrir.
Þeim hefur í öll þessi ár verið sópað undir teppið og látin taka á sig skömmina fyrir að vera fórnarlömb fjármálaglæpa. Þau eiga skilið að fá uppreist æru eftir alla þá þolendaskömm sem þau hafa setið uppi með.
Nú krefst stjórnarandstaðan þess að gerð sé Rannsóknarskýrsla Alþingis um söluferlið. Ég tek heilshugar undir þá kröfu.
Rannsóknarskýrsla heimilanna
En minni enn fremur á að ekki hefur enn verið gerð Rannsóknarskýrsla heimilanna og rannsakað að fullu það sem gerðist EFTIR bankahrunið. Nær 14 árum síðar hefur íslenska ríkið ekki enn þorað að horfast í augu við eigin skömm;
-
Hvernig staðið var að stærsta kennitöluflakki sögunnar í boði ríkisins?
-
Hvernig lánasöfnin voru flutt yfir til „nýju bankanna“ á gjafvirði?
-
Hvernig farið var með heimilin?
-
Hvernig greiddir voru bónusar til bankamanna sem náðu að kreista hvað mest út úr fórnarlömbum sínum, heimilum, sem gátu enga björg sér veitt gagnvart ofureflinu?
-
Og hvernig gríðarlegur hagnaður bankanna eftir hrun byggir í raun á lífsviðurværi tugþúsunda, sem hafa jafnvel aldrei borið sitt barr síðan?
Þessum spurningum, og ýmsum öðrum, þarf að svara með Rannsóknarskýrslu heimilanna.
Spillingin sem opinberar sig með þessum hætti núna, er nefnilega ekki ný af nálinni. Hún hefur verið til staðar svo árum skiptir.
Misskiptingin var fyrst búin til með kvótakerfinu sem gerði suma Íslendinga svo stjarnfræðilega ríka að þeir vissu vart aura sinna tal og urðu að fá að leika sér aðeins með þá. Síðan voru bankarnir seldir og allt í einu varð til lokaður hópur vina sem espaði hvorn annan upp í vitleysunni og kunnu sér ekkert hóf, borðuðu gull og fengu Elton John og Fifty Cent til að syngja afmælissöngvana sína. Minna mátti það nú ekki vera.
Fleira koma að sjálfsögðu til, en það er sláandi að þeir sem standa svona gríðarlega vel í dag, sem skipa hina nýju forréttindastétt, eru þar ekki vegna þess að þeir séu svo klárir. Þeir eru þar af því þeir komust að peningajötunni, oftar fyrir kunningsskap en fyrir eigin gáfur eða viðskiptavit. Þeir fengu forskot á okkur hin með tækifærum sem fáum bjóðast.
Það eina sem þá skortir sem flestir aðrir hafa, er það sem á ensku er kallað „Common decency“ og kannski mætti þýða sem „almenna sómatilfinningu“. Og alveg sama hvert er litið í þjóðfélaginu, þar sem er spilling, þar sem eru óeðlilegir viðskiptahættir,eins og t.d. í kringum kaupin á Borgun, söluna á Mílu, Namibíumálið, vafningsmálið, svo eitthvað sé nefnt, og nú söluna á Íslandsbanka, þar er einhver þeirra. Þeir eru alls staðar þar sem peningar og spilling eru, í einni eða annarri mynd.
Ef Rannsóknarskýrsla heimilanna hefði verið gerð, þá kannski hefðum við lært eitthvað, og þá kannski stæðum við ekki í þessum sporum nú. Þá hefðum við kannski getað stöðvað þá. Þá kannski hefðu þeir ekki getað komið með peninga sem þeir fengu úr bankanum fyrir hrun til að kaupa hann aftur. Það hefði ekki einu sinni verið hægt að skálda þessa atburðarrás sem nú hefur verið búin til.
Eftir páska mun ég mæla fyrir því á Alþingi að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis sem muni vinna Rannsóknarskýrslu heimilanna og ég treysti á stuðning allra þingflokka til þess.
Þeir sem ekki munu styðja þessa LÖNGU TÍMABÆRU rannsókn Alþingis, 14 árum eftir hrun, hljóta að hafa eitthvað að fela.
Ég treysti líka á stuðning ykkar, fólksins í landinu, við það að hulunni verði loksins svipt af öllu því sem þá átti sér stað, og það borið upp í ljósið. Það sem gerðist með sölunni á Íslandsbanka var, að spillingin opinberaði sig. Hún er fyrir allra augum og ekki hægt að afneita henni.
Enn og aftur hafa íslensk stjórnvöld lotið í gras fyrir peningunum og boðið skaðvaldana, útrásarvíkingana sjálfa, velkomna aftur í gegnum lokað söluferli.
Ég hef megnustu skömm á þessu.
Guð blessi Ísland!
Sjá nánar fréttir af sölunni á Íslandsbanka og mótmælunum á Austurvelli 9. apríl 2022:
Fréttir Ríkisútvarpsins/ RÚV 9. apríl - Salan á Íslandsbanka.