Spurt og svarað um vaxtamálin
Hvað eru “vaxtamálin”?
Vaxtamálin er samheiti sem má segja sem svo að nái yfir málaferli sem hafa staðið yfir um nokkra hríð um lögmæti skilmála um breytilega vexti í lánum neytenda á Íslandi.
Hvert er helsta álitaefnið?
Neytendur og samtök þeirra sem standa að málunum telja að í all flestum tilvikum séu þeir skilmálar sem kveða á um breytilega vexti í neytendalánum og fasteignalánum til neytenda ekki í samræmi við lög og reglur. Í einfölduðu máli standist skilmálarnir ekki þær kröfur sem verður að gera um skýrleika, aðgengileika, hlutlægni og sannreynanleika, svo neytendur geti áttað sig á þýðingu þeirra og þar með umfangi þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem þeir gangast undir þegar þeir taka lán.
Dómstólar baki ríkinu ekki bótaskyldu
Hagsmunasamtök heimilanna fagna áliti EFTA dómstólsins um túlkun á þeim reglum sem gilda um lánaskilmála sem kveða á um breytilega vexti. Þó að um álit sé að ræða verða íslenskir dómstólar að fylgja því, enda geta þeir annars gert íslenska ríkið bótaskylt.
Hagsmunasamtök heimilanna leggja áherslu á að:
-
Álitið gefur afdráttalaust til kynna að umræddir skilmálar séu óréttmætir.
-
Lánveitendur sem sömdu hina óréttmætu skilmála bera sjálfir ábyrgð á því.
-
Óréttmætum skilmálum skal víkja til hliðar en samningarnir gilda að öðru leyti án breytinga.
-
Lánveitendum ber að endurgreiða með dráttarvöxtum allt fé sem þeir hafa oftekið á grundvelli óréttmætra skilmála, umfram þá vexti sem komu fram í samningi frá upphafi.
-
Endurkröfuréttur neytenda skal gilda að minnsta kosti jafn lengi og samningarnir.
-
Hafi neytandi einhverntíma greitt lægri vexti en upphaflega komu fram í samningi skal fullnaðarkvittun gilda.
Því miður hefur sagan sýnt að þegar fjármálafyrirtæki brjóta á réttindum neytenda, virðast dómstólar leita allra leiða til að leysa þá undan ábyrgð. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka því að slík háttsemi getur bakað ríkinu bótaskyldu á kostnað almennings. Samtökin vonast til þess að nú muni dómstólar aðeins dæma eftir lögunum með rétt neytenda í fyrirrúmi eins og þeim ber skylda til.
Vaxtahækkun Arion banka var óheimil
Fréttatilkynning
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að vaxtahækkun Arion banka á tilteknum flokki húsnæðislána hafi brotið gegn neytendaverndarlögum. Ákvörðunin á rætur að rekja til kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir hönd félagsmanns sem ofgreiddi vexti af tveimur húsnæðislánum í rúm fjögur ár, frá því að Arion banki hækkaði þá í apríl 2015. Sjá niðurstöðu hér.