Vaxtahækkun Arion banka var óheimil
Fréttatilkynning
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að vaxtahækkun Arion banka á tilteknum flokki húsnæðislána hafi brotið gegn neytendaverndarlögum. Ákvörðunin á rætur að rekja til kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir hönd félagsmanns sem ofgreiddi vexti af tveimur húsnæðislánum í rúm fjögur ár, frá því að Arion banki hækkaði þá í apríl 2015. Sjá niðurstöðu hér.
Ólögmæt vaxtaendurskoðunarákvæði
Um er að ræða verðtryggð fasteignalán sem voru upphaflega veitt af Frjálsa fjárfestingarbankanum en í kjölfar bankahrunsins enduðu þau loks í eigu Arion banka. Lánin voru með föstum 4,15% vöxtum, en jafnframt með eftirfarandi stöðluðum skilmála um vaxtaendurskoðun.
“VAXTAENDURSKOÐUN. Kröfuhafa er heimilt að liðnum 5 árum frá útgáfudegi, og þar á eftir á 5 ára fresti, að endurskoða ofangreint vaxtaálag til hækkunar eða lækkunar á vöxtum. Ákveði kröfuhafi að breyta vaxtaálaginu verður skuldara tilkynnt um það og ástæður þess tilgreindar. Vilji skuldari ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða upp skuldina, án uppgreiðslugjalds, með því vaxtaálagi sem í gildi var fram að breytingunni, enda greiði hann skuldina að fullu innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar kröfuhafa.”
Þegar um áratugur var liðinn af lánstímanum ákvað Arion banki að endurskoða vextina og hækka þá í 4,35%. Þrátt fyrir að munurinn sé ekki stór safnast þegar saman kemur og til margra ára getur munað umtalsverðum fjárhæðum að krónutölu. Þess má geta að Hæstiréttur Íslands staðfesti árið 2017 að sambærilegir skilmálar hjá Íslandsbanka væru ólöglegir þar sem ekki kom fram við hvaða aðstæður eða af hvaða tilefni vextirnir gætu breyst, eins og áskilið er í lögum um neytendalán.
Neytendastofa hefur nú birt ákvörðun nr. 67/2020 þar sem er komist að þeirri niðurstöðu að Frjálsi fjárfestingarbankinn hafi brotið gegn lögum um neytendalán með því að tilgreina ekki í umræddum skilmálum við hvaða aðstæður vextir geti breyst. Jafnframt hefði Arion banki brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sem banna óréttmæta viðskiptahætti, með því að hækka vexti á grundvelli hins ólögmæta skilmála um vaxtaendurskoðun.
Neytendur kanni stöðu sína
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja neytendur sem kunna að hafa tekið sambærileg lán til að kanna stöðu sína, skoða hvort samskonar skilmálar séu í lánum sínum, hvaða vextir hafi verið innheimtir og hvort þeir hafi á einhverjum tímapunkti verið hækkaðir. Ef svo er getur verið brýnt að beina sem fyrst kröfu til bankans um leiðréttingu á vöxtum og endurgreiðslu oftekinna vaxta.
Samtökunum er ekki kunnugt um hvort Arion banki hafi að sínu eigin frumkvæði rétt hlut annarra viðskiptavina með sambærileg lán. Reyndar hefur bankinn alfarið hafnað því að upplýsa samtökin um slík atriði, en þó liggur fyrir að um talsverðan fjölda lána er að ræða.
Neytendur sem vilja kanna réttarstöðu sína eða þurfa aðstoð við að setja fram kröfu um leiðréttingu og endurgreiðslu oftekinna vaxta, geta leitað til Hagsmunasamtaka heimilanna. Helst með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða að öðrum kosti símleiðis á auglýstum símatímum eins og kemur nánar fram á heimasíðu samtakanna.