Áskorun til Ríkisstjórnar Íslands og Alþingismanna
Heimilin eru grunnstoðir samfélagsins!
Staðan sem hefur skapast vegna Covid-19 veirunnar er gríðarlega erfið, en Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að ríkisstjórnin hafi sýnt forsjálni og þegar kynnt aðgerðir til að milda áhrif hennar á efnahagslífið.
Betur má þó ef duga skal og heimilin mega ekki gleymast í þessum aðgerðum því þau eru grunnstoðir samfélagsins og eiga ekki að taka á sig höggið vegna fyrirsjáanlegra efnahagsáfalla.
Samkvæmt könnun RÚV hafa 69% landsmanna miklar eða frekar miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum veirunnar. Þessar áhyggjur fólks eru raunverulegar og skiljanlegar því sporin hræða.
Ríkisstjórnin getur ekki leyft sér að sýna heimilunum þá óvirðingu að hunsa þessar áhyggjur og hræðsluna við að enn og aftur verði heimilunum fórnað fyrir fjármálakerfið.
Hagsmunasamtök heimilanna benda á að það sem veldur heimilunum meiri skaða en nokkuð annað er hækkun verðbólgu vegna þess sér-íslenska og stórhættulega fyrirkomulags sem heitir verðtrygging á lánum heimilanna. Fari verðbólgan af stað hefur enginn stjórn á því sem gerist. Það er því nauðsynlegt að grípa strax til varúðarráðstafanna áður en það gerist og slá þannig á óvissuna sem heimilin standa frammi fyrir vegna verðtryggðra lána.
Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir stökkbreytingu lána með því að setja þak á vísitölu verðtryggingar á lánum heimilanna. Það er einföld lagabreyting sem krefst einungis pólitísks vilja til að verja heimilin í landinu.
Á undanförnum dögum hafa margir málsmetandi aðilar tekið undir með Hagsmunasamtökunum en ekkert hefur heyrst frá ríkisstjórninni um hagsmuni heimilinna, nema þá í samhengi við hagsmuni fyrirtækja. Það eru engin “eylönd” í þessu ástandi og hagsmunir okkar allra eru samtvinnaðir á ótal vegu þannig að hagsmunir atvinnulífsins eru að sjálfsögðu líka hagsmunir heimilanna.
En það má alls ekki ekki gleymast núna eins og oft áður, að það eru heimilin sem bera uppi hagkerfið og skarist hagsmunir þeirra og fjármálafyrirtækja, verða hagsmunir heimilanna að vera hafðir í fyrirrúmi því þau eru undirstaða alls hagkerfisins.
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja fjármálafyrirtækin.
Bankarnir sýndu lofsvert frumkvæði í nafni samfélagslegrar ábyrgðar þegar þeir tilkynntu að fólk gæti átt kost á þriggja mánaða greiðslufrestun vegna Covid-19 en enginn veit samt hvað er í raun verið að bjóða og hvað muni gerast ef þrír mánuðir duga ekki til. Þetta þarf að vera á hreinu og þarna getur þekking og reynsla Hagsmunasamtakanna heimilanna komið að góðum notum.
Það er augljóst á umræðum á samfélagsmiðlum að margir óttast að greiðsluhlé geti komið harkalega í bakið á þeim sem þiggja það og þegar komi að skuldadögum verði fólk ekki fært um að standa við skuldbindingar vegna þess. Þessi ótti er ekki ástæðulaus og það þarf að tryggja að hann raungerist ekki þegar þar að kemur.
Þar kemur til kasta ríkisstjórnarinnar.
Fjármálaráðherra hefur fundað stíft með forsvarsmönnum fjármálafyrirtækja. Þessir aðilar þurfa að sjálfsögðu að hafa aðgang að “borðinu” en það þurfa heimilin líka að hafa og það má ekki sniðganga fulltrúa þeirra.
Hvernig samræmist það jafnræðisreglu stjórnarskrár að ekkert skuli vera rætt við þau einu sem gæta réttinda neytenda á fjármálamarkaði og hagsmuna heimilanna á meðan fjármálafyrirtæki hafa óheftan aðgang að stjórnvöldum til að verja sína hagsmuni?
Á rúmum 11 árum hafa Hagsmunasamtök heimilanna safnað að sér ógrynni af vitneskju og reynslu og sennilega er hvergi á landinu að finna jafna yfirgripsmikla þekkingu á málefnum neytenda á fjármálamarkaði, eins og innan þeirra vébanda. Þá þekkingu þurfa stjórnvöld að nýta sér í því fordæmalausa ástandi sem núna er að skapast.
Hagsmunasamtök heimilanna bjóða fram krafta sína en krefjast þess jafnframt um leið, í ljósi reynslu sinnar og þekkingar og með vísan í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að fá aðkomu að þeim fundum, nefndum og ráðum þar sem verið er að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á hagsmuni, afkomu og velferð heimilanna til skemmri eða lengri tíma, að minnsta kosti til jafns við Samtök fjármálafyrirtækja.
Einnig ítreka Hagsmunasamtökin þá skilyrðislausu kröfu sína um að sett verði þak á verðtryggingu lána heimilanna t.d. miðað við stöðu hennar þann 1. mars sl.
Bankahrunið og afleiðingar þess eru mörgum í fersku minni og margir óttast að það sem þá gerðist endurtaki sig. Heimilin þurfa að fá fullvissu um að þeirra hagsmuna sé gætt og þar njóta Hagsmunasamtök heimilanna trausts umfram marga aðra. Svo aðgerðum stjórnvalda verði ekki mætt með tortryggni á þessum sérstöku tímum sem nú ganga yfir þegar þörf er á samstöðu, þurfa heimilin að vita að fulltrúar þeirra séu hafðir með í ráðum og hagsmuna þeirra sé gætt í hvívetna.
Fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna
Ásthildur Lóa Þórsdóttir Formaður
Vilhjálmur Bjarnason varaformaður