Á döfinni

ÍTREKUN: Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki

ÍTREKUN: Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki

 Fréttatilkynning

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka  kröfur sínar frá því í mars á þessu ári um að sett verði þak á verðtryggingu lána heimilanna sem miðist við verðbólgumarkmið stjórnvalda og seðlabankans. 

Þá var því svarað með því að benda á að ekki væri útlit fyrir mikla verðbólgu og slík aðgerð gæti grafið undan trausti á því að seðlabankanum takist það markmið sitt að halda verðbólgu skefjum. Þrátt fyrir þær yfirlýsingar hefur verðbólga hækkað um helming síðan þá og greiningaraðilar spá nú verðbólgu upp undir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs í árslok. Hvað sem trausti á því að seðlabankanum takist að halda verðbólgu í skefjum líður þá liggur einfaldlega fyrir að honum hefur ekki tekist það eins og lofað var. Þannig eru öll fyrrnefnd rök gegn þaki á verðtryggingu fallin um sig sjálf.

Ástandið sem núna blasir við var þá algjörlega ófyrirséð og fordæmalaust en allir vona að það verði tímabundið og aðstæður færist aftur í fyrra horf sem fyrst.

Það yrði því algjörlega óforsvaranlegt ef áhrifa þessa ástands á verðtryggð lán heimilanna gætti um ókomna tíð, því þegar verðtryggðu lánin hafa einu sinni hækkað þá lækka þau ekki aftur. 

Það væri algjörlega út í hött að bankar og aðrir lánveitendur gætu hagnast um langa framtíð vegna verðbólguskots sem er bæði tímabundið og vegna fordæmalausrar stöðu um allan heim.

Í þessu felst einmitt einn stærsti galli verðtryggingarinnar. Lántakendur súpa seyðið um alla framtíð vegna tímabundinnar hækkunnar verðbólgu, á meðan lánveitendur hagnast um langa framtíð á þessari tímabundnu hækkun.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar að nota það gullna tækifæri sem nú er vegna lágra vaxta, til að efna það loforð ríkisstjórnarinnar að afnema verðtrygginguna á lánum heimilanna. 

Aldrei áður hafa verið jafn kjörnar aðstæður og nú til að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna og því óforsvaranlegt að grípa ekki það tækifæri þegar það gefst þannig að íslenskir neytendur geti í framtíðinni búið við sambærilegt lánaumhverfi og neytendur í öðrum nágrannalöndum.

Það sem skiptir öllu núna er að sjá til þess að heimilin lendi ekki í vandræðum vegna Covid-19 og að EKKI EIN EINASTA FJÖLSKYLDA missi heimili sitt, þrátt fyrir tekjumissi. Liður í því er að sjá til þess að skuldir hækki ekki úr hófi fram og til þess þarf helst að afnema verðtrygginguna á lánum heimilanna, eða að minnsta kosti setja þak á hana. Jafnframt þarf að tryggja að tímabundnar frystingar lána meðan ástandið gengur yfir leiði ekki til enn hærri greiðslubyrði að því loknu.

 

Hagsmunasamtök heimilanna

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum