Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Kvörtun lántakenda hefur verið send til ESA

Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega, hafa með aðstoð hæstaréttarlögmanna, sérfræðinga í Evrópurétti og löggiltra endurskoðenda, ásamt um eitt þúsund einstaklingum, undirritað og sent formlega kvörtun til ESA vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á Evrópurétti. Framkvæmdastjórn ESB og forseta Evrópuþingsins hefur jafnframt verið tilkynnt um kvörtunina og aðstoðar þeirra óskað vegna málsins innan ramma aðildarviðræðna Íslands. Neytendur frá Spáni og Þýskalandi eru einnig aðilar að kvörtuninni vegna sömu brota á grundvallarréttindum ríkisborgara aðildarríkja ESB. Samkvæmt Kaupmannahafnarsamkomulaginu frá 1993, er ein af grundvallarforsendum aðildar að ESB, að umsóknarríki virði grundvallarréttindi borgaranna.

Kvörtunin vísar í vanefndir um eftirfylgni við evróputilskipun 93/13/EC í dómaframkvæmd  auk lagasetningar nr. 151/2010 er gengur þvert á lögleiddan neytendarétt, eignarréttarákvæði stjórnarskrár og umrædda tilskipun um neytendarétt. Sérstaklega er tekið á eftirmálum af yfirlýstu ólögmæti gengisbundinna lána út frá lögum nr. 38/2001 en einnig verðtryggingu. Kvörtunin snýr að dómsvaldi vegna vanrækslu um vernd neytenda samkvæmt neytendalögum og höfnun beiðna um að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Kvörtunin snýr að löggjafarvaldi vegna laga nr. 151/2010 þar sem fyrri brot dómsvalds gegn neytendarétti eru fest í sessi auk þess sem vernd eignarréttar er sniðgengin og farið gegn sjónarmiðum um bann við afturvirkri íþyngjandi lagasetningu. Þessu til viðbótar snýr kvörtunin að framkvæmdavaldi vegna vanefnda um verndun borgaranna er fjármálastofnanir neyta aflsmunar gegn neytendum í samningagerð.

Í kvörtuninni til ESA, eftirlitsstofnunnar EFTA, er yfirlýsingar óskað um brot Íslands á skuldbindandi ákvæðum EES samningsins. Með brotunum er borgurunum neitað um skýr, nákvæm og óskilyrt réttindi sem þeir hafi öðlast með Evrópurétti. Ályktun ESA verði byggð á  eftirfarandi staðreyndum:

  • Ófrávíkjanlegur neytendaréttur hefur verið settur til hliðar af dómsvaldi og beiðnum um ráðgefandi réttarfarslegt álit EFTA dómstólsins um áðurnefnd málefni verið hafnað.
  • Lagasetning er með afturvirkum íþyngjandi ákvæðum fyrir neytendur.
  • Beiðnum til stjórnsýslu um neytendavernd hefur ýmist verið hafnað, afneitað og/eða tæknilegar hindranir settar í götu neytenda.

Ofangreint séu brot á Evrópurétti sem leitt geta til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.

Síðast en ekki síst er óskað yfirlýsingar um að lagarammi verðtryggingar sem er við lýði á Íslandi, þar sem fjárhagslegri áhættu og afleiðingum verðbólgu er sjálfkrafa velt yfir á neytendur, brjóti gegn grundvelli Evrópuréttar.  Út frá þeim lagaramma geti neytendur ekki metið fjárhagslegar skuldbindingar sínar við undirritun samnings og jafnvel léttvæg verðbólga hafi íþyngjandi fjárhagslegar afleiðingar yfir heildar samningstímann.

Samtök lánþega
Hagsmunasamtök heimilanna
ESA hópurinn samanstendur af ofangreindum samtökum og félagsmönnum þeirra auk um 1000 einstaklinga sem eru beinir aðilar að kvörtuninni.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum