Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Umsögn um skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna birtingu skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við útgáfu hennar. Sérstakt fagnaðarefni er að kröfur samtakanna hafa nú náð á blað í skýrslu þingnefndar og fá vonandi umræðu á Alþingi í framhaldinu. Skýrslan gefur til kynna mikinn vilja nefndarinnar til afnáms verðtryggingar.


Samtökin geta tekið undir flestar þær hugmyndir sem í skýrslunni birtast og snúast um að fá verðtrygginguna út úr húsnæðislánakerfinu og tillögur um fleiri valkosti, einkum hvað varðar óverðtryggð lán á lægri vöxtum, á sambærilegum kjörum og í nágrannalöndum okkar. Það er löngu orðið tímabært að íslensk heimili búi við eðlilegra umhverfi á húsnæðislánamarkaði og geti reiknað út greiðslubyrði láns út allan lánstímann og í lánasamningum séu engar opnar breytur án takmarkana. Samtökin vilja skora á stjórnvöld að taka til greina tillögur nefndarinnar um róttækar breytingar í húsnæðislánakerfinu.

Varðandi sérálit nefndarmanna skal tekið fram að fulltrúi Hreyfingarinnar í nefndinni, Arinbjörn Sigurgeirsson, var einnig stjórnarmaður í samtökunum á síðasta starfsári. Í sérálitinu er lagt til þak á verðbætur sem miðast við hærri vikmörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans sem er í raun upphafleg tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna og ætlað til að hefja afnám verðtryggingar sem og að dreifa ábyrgðinni af hruninu á bæði lántakendur og lánveitendur. Eins er lagt til raunvaxtalækkun og að héðan í frá verði ekki lánað verðtryggt til húsnæðiskaupa og geta samtökin tekið undir þá nálgun nefndarmanna.

Ástæða er til að hrósa formanni nefndarinnar, Eygló Harðardóttur, fyrir að viðhafa gagnsæ vinnubrögð í nefndarstarfinu með birtingu fundargerða og sérálita nefndarmanna með beinum hætti.  Til samanburðar má nefna nefnd um húsnæðismál sem nýlega skilaði af sér skýrslu sem var unnin í lokuðu ferli með engri aðkomu Hagsmunasamtaka heimilanna þrátt fyrir beiðni þar um, en í þeirri nefnd sat hins vegar fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja. Er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að fleiri nefndir á vegum Alþingis mættu taka sér vinnubrögð verðtryggingar- nefndarinnar til fyrirmyndar.

Samtökin telja þó ástæðu til að ganga enn lengra en gert er í þessari skýrslu í að rannsaka lagalegan grundvöll og reiknireglur verðtryggðra lána sem samtökin telja ákaflega vafasamar, bæði með tilliti til íslenskra laga og evrópsks neytendaréttar.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum