Umsögn um skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna birtingu skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við útgáfu hennar. Sérstakt fagnaðarefni er að kröfur samtakanna hafa nú náð á blað í skýrslu þingnefndar og fá vonandi umræðu á Alþingi í framhaldinu. Skýrslan gefur til kynna mikinn vilja nefndarinnar til afnáms verðtryggingar.
Samtökin geta tekið undir flestar þær hugmyndir sem í skýrslunni birtast og snúast um að fá verðtrygginguna út úr húsnæðislánakerfinu og tillögur um fleiri valkosti, einkum hvað varðar óverðtryggð lán á lægri vöxtum, á sambærilegum kjörum og í nágrannalöndum okkar. Það er löngu orðið tímabært að íslensk heimili búi við eðlilegra umhverfi á húsnæðislánamarkaði og geti reiknað út greiðslubyrði láns út allan lánstímann og í lánasamningum séu engar opnar breytur án takmarkana. Samtökin vilja skora á stjórnvöld að taka til greina tillögur nefndarinnar um róttækar breytingar í húsnæðislánakerfinu.
Varðandi sérálit nefndarmanna skal tekið fram að fulltrúi Hreyfingarinnar í nefndinni, Arinbjörn Sigurgeirsson, var einnig stjórnarmaður í samtökunum á síðasta starfsári. Í sérálitinu er lagt til þak á verðbætur sem miðast við hærri vikmörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans sem er í raun upphafleg tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna og ætlað til að hefja afnám verðtryggingar sem og að dreifa ábyrgðinni af hruninu á bæði lántakendur og lánveitendur. Eins er lagt til raunvaxtalækkun og að héðan í frá verði ekki lánað verðtryggt til húsnæðiskaupa og geta samtökin tekið undir þá nálgun nefndarmanna.
Ástæða er til að hrósa formanni nefndarinnar, Eygló Harðardóttur, fyrir að viðhafa gagnsæ vinnubrögð í nefndarstarfinu með birtingu fundargerða og sérálita nefndarmanna með beinum hætti. Til samanburðar má nefna nefnd um húsnæðismál sem nýlega skilaði af sér skýrslu sem var unnin í lokuðu ferli með engri aðkomu Hagsmunasamtaka heimilanna þrátt fyrir beiðni þar um, en í þeirri nefnd sat hins vegar fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja. Er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að fleiri nefndir á vegum Alþingis mættu taka sér vinnubrögð verðtryggingar- nefndarinnar til fyrirmyndar.
Samtökin telja þó ástæðu til að ganga enn lengra en gert er í þessari skýrslu í að rannsaka lagalegan grundvöll og reiknireglur verðtryggðra lána sem samtökin telja ákaflega vafasamar, bæði með tilliti til íslenskra laga og evrópsks neytendaréttar.