Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ályktun um aðgerðir Landsbankans fyrir skuldug heimili

Hagsmunasamtök heimilanna fagna frumkvæði Landsbankans til að komast á móts við skuldug heimili, og hvetja um leið stjórnvöld og fjármálastofnanir til að tryggja að jafnræðis sé gætt á meðal skuldara.  Forkastanlegt er að skuldurum sé mismunað á grundvelli þess hvar þeir eru í viðskiptum, eða hvort þeir eru í skilum með lánin.

 

Viðbrögð bankastjóra Arionbanka, um að bankinn harmi að horfið hafi verið frá því samráði sem bankarnir áttu um þær lausnir sem boðið yrði upp á, afhjúpa þó hve illa er komið fyrir viðskiptavinum banka í eigu vogunarsjóða, sem raunin er með Arionbanka og Íslandsbanka. Má segja að þetta sé birtingarform mistaka fjármálaráðherra sem kom fram í skýrslu hans um það hvernig endursamið var við gömlu kröfuhafa bankanna.

Þó verður að segjast um útspil Landsbankans að um er að ræða jákvætt skref í átt að raunverulegum lausnum fyrir skuldug heimili, en betur má ef duga skal. Tímasetning útspilsins er áhugaverð í því ljósi að bankinn birti sama dag afkomu sem sýndi fram á annan besta ársfjórðung bankans til þessa.

Mikilvægt er að benda á, að þær úrlausnir sem Landsbankinn hefur kynnt koma honum sjálfum mest til góða, og er um að ræða hagræðingu í verkferlum bankans auk þess sem eitraðar eignir hans eru afskrifaðar. Einnig má gera ráð fyrir að bankinn sé að búa sig undir stórhækkaða verðbólgu þegar líða tekur á árið vegna nýrra kjarasamninga og veikingar krónunnar.  Þannig má ætla að bankinn sé að reyna koma í veg fyrir stórkostlega greiðsluerfiðleika næsta vetur vegna einhliða verðtryggingar á lánsfé.

Gagnrýnivert er að gengið sé í manngreiningarálit í aðgerðum sem þessum þar sem skuldurum er mismunað á grundvelli þess hvar þeir eru í viðskiptum, hvort þeir eru í vanskilum og hvort þeir skulda meira en 30 milljónir eftir stökkbreytingu lána eftir bankahrunið.  Stjórnvöld hafa skyldum að gegna til að gæta jafnræðis í aðgerðum fyrir skuldug heimili og er það sérstakt áhyggjuefni að forsætisráðherra skuli lýsa því yfir að Íbúðarlánasjóður sé ekki í stakk búinn til að bjóða upp á áþekk úrræði. Nú er verið að leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem settir eru sérstakir skattar á fjármálafyrirtækin til að fjármagna sérstaka niðurgreiðslu í gegnum vaxtabótakerfið og þykja samtökunum ærin ástæða til að hækka þann skatt til muna til að mæta með duglegri hætti þeim höfuðstólshækkunum sem heimilin hafa tekið á sig í hruninu. Í því samhengi er vert að benda á hagnað bankanna frá hruni til 31. mars 2011:

  Landsb.

Íslandsb.

Arion Samtals
2008 -6,9 2,4 4,8 0,2
2009 14,3 24,0 12,9 51,2
2010 27,2 29,4 12,6 69,2
2011Q1 12,7 3,6 3,0 19,2
Samtals 47,3 59,3 33,2 139,8


Eina raunhæfa lausnin fyrir heimilin í landinu eru almennar aðgerðir til leiðréttingar á skuldum heimila í landinu og afnám verðtryggingar. Það yrði vissulega til að vinna sátt með heimilunum.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum