Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH harma efnahagslegt og líkamlegt ofbeldi

Hagsmunasamtök heimilanna afhentu forsætisráðherra 33.525 undirskriftir á Austurvelli í gær, þann 1. október, en söfnunin heldur samt sem áður áfram til áramóta og getur fólk enn sagt hug sinn í þessum efnum á www.heimilin.is. Samtökin lýsa yfir ánægju með stuðning og samstöðu um kröfur og þakka öllum þeim sem skrifað hafa undir undirskriftarsöfnun.

Samtökin hafa í margar vikur talað fyrir friðsömum samstöðufundi og harma því að þingmaður og myndatökumaður hafi orðið fyrir hnjaski í eggjakasti við þingsetningu í dag. Samtökin telja að slíkt ofbeldi sé til marks um þá örvæntingu sem ríkt hefur í samfélaginu allt of lengi. Ástand sem samtökin hafa ítrekað varað við að skapist þegar samfélagssáttmálinn hefur verið rofinn. Samtökin harma jafnframt að þingsetning hafi ekki getað farið fram án eggjakasts og ofbeldis árum saman, eins og formaður samtakanna sagði í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu. Ekki síður harma samtökin það efnahagslega ofbeldi stjórnvalda og fjármálastofnana gagnvart almenningi sem látið er viðgangast.

Jafnframt lýsa samtökin yfir miklum áhyggjum af fréttamati ríkisfréttamiðils landsmanna í kvöldfréttum sjónvarps, þar sem eingöngu var sýnt frá eggjakasti, en ekkert sýnt af þeirri samstöðu sem þúsundir manna á Austurvelli upplifðu saman, áður en einungis örlítið brot af fólkinu kastaði eggjum að þingheimi. Sjónvarpið sýndi heldur ekkert frá þeim friðsamlega viðburði sem fólk kom til að sýna samstöðu við, engar myndir af ræðum sem þar voru fluttar til stuðnings krafna samtakanna, né heldur af þúsundum friðsamlegra borgara sem stóðu þétt saman. Rúv sýndi síðan yfirlitsmynd frá þeim tíma sem mjög margir voru farnir af Austurvelli, í þeim tilgangi að gera lítið úr fjöldanum. Þúsundir manna voru á Austurvelli þegar mest var um kl. 11. Fjórða valdið er með þessu að bregðast fólkinu í landinu með óábyrgum og hlutdrægum fréttaflutningi í kvöldfréttum.

Samtökin hafa alla tíð flutt sitt mál með rökföstum og málefnalegum hætti og hafa sett fram sínar kröfur í þeim anda. Samstaða fólks á Austurvelli þann 1.okt var gríðarleg og slík samstaða getur einmitt náðst fram með ákaflega friðsömum hætti.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum