Viljayfirlýsing HH við stjórnvöld
Hagsmunasamtök heimilanna nálguðust forsætisráðherra fyrir nokkru síðan með tilbúna viljayfirlýsingu sem þau vildu ræða við stjórnvöld í framhaldi af afhendingu undirskrifta rúmlega 34 þúsund manns þann 1. okt. Komið hefur í ljós að enginn vilji er af hálfu stjórnvalda til að skrifa undir viljayfirlýsingu í hvaða útgáfu sem hún kynni að vera og er stjórn samtakanna ljóst að enginn vilji er af hálfu stjórnvalda til að stíga hið pólitíska skref sem til þarf í átt að almennum leiðréttingum lána heimilanna. Viljayfirlýsingin er birt hér.
Þann 1. október 2011 afhenti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna forsætisráðherra undirskriftir 33.525 einstaklinga sem krefjast, í nafni almannahagsmuna, almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar. Hafi stjórnvöld ekki orðið við kröfunni fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskriftin kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina.
Undirskriftasöfnunin stendur til áramóta á vefsíðunniundirskrift.heimilin.is og hafa fjölmargar undirskriftir bæst við listann frá afhendingu.
Ofangreindar aðgerðir eru nauðsynlegur hluti af brýnni efnahagslegri endurreisn samfélagsins og þurfa að gerast fyrir tilstuðlan íhlutandi frumkvæðis af hálfu stjórnvalda. Fjármálakerfið á að vera sniðið að þörfum samfélagsins, en ekki öfugt.
VILJAYFIRLÝSING
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna, gera með sér svohljóðandi viljayfirlýsingu.
Í ljósi þess sem að ofan greinir lýsa aðilar sig viljuga til að starfa saman að úrlausn málsins á eftirtöldum forsendum:
1) Skipaður verði starfshópur með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Hagsmunasamtökum heimilanna sem hafi yfirumsjón með verkefninu. Hópurinn fái heimild til að setja saman undirhópa og / eða leita til utanaðkomandi aðila til að fá þau álit, greiningar og gögn sem nauðsynleg eru talin til að geta tekið upplýsta ákvörðun um málið. Markmið hópsins verði að útfæra tillögur um hvernig lán verði leiðrétt með almennum hætti og verðtrygging afnumin til samræmis við kröfuna eins og hún er orðuð á vefsíðunni undirskrift.heimilin.is. Hópurinn skili tillögum sínum fyrir 15. nóvember 2011. Í því skyni mun hópurinn meðal annars;
- a) leggja mat á svigrúm lánveitenda til afskrifta/leiðréttinga á lánum heimilanna og þær afskriftir/leiðréttingar sem þegar hafa átt sér stað, sundurgreint eftir lánastofnunum og tegundum lána svo vel sem kostur er og með skýrum hætti gerð skil milli gamla og nýja bankakerfisins. Fyrirliggjandi svigrúm verði fullnýtt til leiðréttinga á lánum heimilanna. Dugi það ekki til komi aðrir kostir til skoðunar, þar á meðal að skattleggja aukalega hagnað þeirra frá og með haustinu 2008.
- b) leggja mat á fjárhæð áfallinna og greiddra verðbóta á lánum heimilanna, og það sem þar af er umfram 4% á ársgrundvelli, frá og með 1. janúar 2008, sundurgreint eftir lánveitendum.
- c) leggja mat á fjárhæð uppsafnaðra og útgreiddra verðbóta, og það sem þar af er umfram 4% á ársgrundvelli á innstæður yfir 100 milljónum kr. frá og með 1. janúar 2008, sundurgreint eftir fjármálastofnunum.
2) Á vefsíðu forsætisráðuneytisins var skýrt frá því þann 4. október 2011 að Hagfræðistofnun hafi verið falið að leggja mat á áhrif þeirra fjögurra leiða, sem fylgdu með undirskriftunum sem afhentar voru forsætisráðherra þann 1. október 2011. Einnig verði metið hvaða áhrif leiðirnar hafi á þjóðarhag, en einnig á afkomu og efnahag heimila, lífeyrisþega í nútíð og framtíð, hins opinbera, fyrirtækja og fjármálastofnana. Hagfræðistofnun verði einnig falið að leggja mat á áhrif þess á þjóðarhag, en einnig á afkomu og efnahag heimila, lífeyrisþega í nútíð og framtíð, hins opinbera, fyrirtækja og fjármálastofnana, að ekkert verði aðhafst frekar varðandi leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar. Að auki verði fenginn annar óháður aðili til að gera samskonar sjálfstætt mat.
3) Forsætisráðherra leggi fram frumvarp til laga um afnám verðtryggingar á lánum heimilanna og beiti sér fyrir því að frumvarpið verði samþykkt fyrir 31. desember 2011.
4) Viljayfirlýsing þessi gildir til 31. desember 2011. Gangi atriði 1 - 3 ekki eftir fyrir þann tíma mun forsætisráðherra sjá til þess að fram fari bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um kröfugerðina. Mótun spurningarinnar sem upp verður borin verði í höndum fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Hagsmunasamtaka heimilanna.