HH setja þjóðaratkvæðagreiðslu á dagskrá
Þann 1. október 2011 afhenti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna forsætisráðherra undirskriftir 33.525 einstaklinga sem krefjast afnáms verðtryggingar og almennra leiðréttinga á lánum heimilanna. Hafi stjórnvöld ekki orðið við kröfunni fyrir 1. janúar 2012 jafngilda undirskriftirnar kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina. Hægt verður að skrifa undir til áramóta á vefslóðinni undirskrift.heimilin.is.
Í framhaldi af afhendingu undirskriftanna tilkynnti forsætisráðuneytið þann 4. október 2011 að ákveðið hefði verið að kalla saman sérfræðingahópinn sem vann skýrslu um skuldavanda heimilanna fyrir um ári síðan. Hópnum væri nú ætlað að leggja mat á hið svokallaða „svigrúm“ bankanna til að leiðrétta skuldir heimilanna. Jafnframt tilkynnti ráðuneytið, að samtökunum forspurðum, að Hagsmunasamtök heimilanna væru enn aðili að hópnum. Þá tilkynnti forsætisráðuneytið að Hagfræðistofnun hefði verið falið að leggja mat á kröfur samtakanna.
Minnug um þá atburðarás sem átti sér stað í kjölfar mótmælanna á Austurvelli þann 4. október 2010 lýstu samtökin því yfir að nú þyrfti annað og meira að koma til. Þann 6. október 2011 sendu samtökin forsætisráðherra drög að viljayfirlýsingu og settu jafnframt fram það skilyrði fyrir samstarfi að rætt yrði saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu um nálgun á viðfangsefnið. Daginn eftir átti formaður samtakanna fund með forsætisráðherra og viljayfirlýsingin tekin til skoðunar af hálfu stjórnvalda.
Af framgöngu stjórnvalda í samskiptum við samtökin á undanförnum vikum að dæma er hins vegar ljóst að stjórnvöld og samtökin munu ekki, að svo komnu máli, komast að sameiginlegri niðurstöðu um nálgun á viðfangsefnið. Hagsmunasamtök heimilanna lýsa því yfir miklum vonbrigðum með að stjórnvöld skynji ekki nauðsyn þess að stíga hið pólitíska skref í átt til þeirra fjölmörgu sem afnáms verðtryggingar og leiðréttingu lána hafa krafist.
Í niðurlagi setningarræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar er komið inn á þá þætti sem hún segir að „við verðum að leiða til lykta áður en kjörtímabilið er allt“. Þar var því miður heldur ekkert að finna um afnám verðtryggingar og leiðréttingu lána. Samtökin velta því fyrir sér hvort sú staðreynd kunni að vera til marks um alvarlegt sambandsleysi við hjartslátt þjóðarinnar.
Hagsmunasamtök heimilanna munu því hefja vinnu við að koma þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfur samtakanna á dagskrá.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, 24. október 2011
Sjá viljayfirlýsingu hér; Viljayfirlýsing HH við stjórnvöld hvorki samþykkt né rædd