Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Hagsmunasamtök heimilanna kæra bankastjórnendur

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram kæru til efnahagsbrotadeildar á hendur öllum stjórnendum og bankaráðum bankanna frá árinu 2001-2012 fyrir brot á stjórnarskrá, almennum hegningarlögum, vaxtalögum, lögum um samningsgerð, lögum um hlutafélög og fyrir að vanrækja eftirlitsskyldu sína.

Í fyrsta lagi eru bankastjórnendur sem voru við stjórn frá 2001- 2008 kærðir fyrir að veita gengistryggð lán. Má leiða líkur að því að hinar ólöglegu lánveitingar hafi jafnvel farið fram vísvitandi, í það minnsta gerðu Samtök banka- og verðbréfafyrirtækja umsögn um frumvarp áður en það varð að lögum og vöruðu við því að ef frumvarpið yrði að lögum yrði ekki heimilt að gengistryggja lán. Jafnframt má geta þess að Verslunarráð Íslands og Samtök atvinnulífsins sendu einnig inn umsagnir áður en frumvarpið varð að lögum þar sem koma fram varnaðarorð í þessa sömu veru.

Hæstiréttur hefur nú staðfest að slíkar lánveitingar brjóta gegn lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá árinu 2001.  Eftir setningu neyðarlaganna árið 2008 hafa nýjar lánveitingar af þessu tagi lagst af, en þó er heimilt að veita sannanlega erlent lán sem er greitt út í erlendum gjaldmiðli og innheimt í erlendum gjaldmiðli. Innheimta á ólögmætum gengistryggðum lánum hefur þó haldið áfram á forsendum sem HH telja að stríði gegn samningalögum, vaxtalögum, lögum um neytendalán og stjórnarskrá.

Í öðru lagi beinist því kæran einnig gegn þeim bankastjórnendum sem setið hafa í stjórnum frá því bankarnir hófu innheimtu á endurútreiknuðum ólögmætum lánum.  Er það mat samtakanna að bankarnir hafi gerst brotlegir við lög og gengið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar með því að vaxtavaxtareikna lánin annars vegar og hins vegar með því að reikna hærri vexti afturvirkt á greidda gjalddaga allt frá lántökudegi í stað þess að miða við setningu laga nr. 151/2010. Í dómum Hæstaréttar hefur gengistryggingin verið dæmd ólögleg og mælst til að nota óverðtryggða vexti Seðlabankans á ógreiddar eftirstöðvar lána, en ekki á greidda gjalddaga.

Í þriðja lagi telja Hagsmunasamtök heimilanna að bönkunum sé óheimilt að innheimta vexti fyrir tímabil áður en þeir eignuðust kröfuna, og er það skilningur samtakanna að eigandi skuldabréfs eigi eingöngu kröfurétt á vexti frá þeim degi þegar hann eignast kröfuna. Þessi hluti kærunnar á því við um stjórnendur nýju bankanna þar sem bankarnir eigi ekkert tilkall til vaxtagreiðslna fyrir þann tíma þegar þeir urðu löglegir eigendur skuldabréfa. Gamlir eigendur þeirra hafa þegar innheimt vaxtagreiðslur og greiðslur inn á höfuðstól sem að mati samtakanna eiga að standa í íslenskum krónum.

Einstaklingar dregnir til ábyrgðar.

Í öllum tilvikum eru bankastjórnendur kærðir fyrir auðgunarbrot  er varða almenn hegningarlög, sem og brot á greinum hlutafélagalaga er varða ábyrgð. Það er mat samtakanna að mikilvægt sé að draga til ábyrgðar þá einstaklinga sem setið hafa í stjórnum bankanna undanfarin ár. Með kæru á hendur bankastjórnendum vilja samtökin leggja áherslu á þá gríðarlegu ábyrgð sem því fylgir að vera stjórnarmaður í bankakerfinu. Hafi fjármálastofnanir stundað refsivert athæfi með ólöglegri lánastarfsemi og síðan ólöglegri innheimtu er það krafa HH að einstaklingarnir sem standa að baki ákvörðunum geti ekki vikið sér undan persónulegri ábyrgð sinni.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum