Opið bréf til Alþingismanna í efnahags- og viðskiptanefnd - um afnám verðtryggingar
Í ljósi ákalls þjóðarinnar um að afnema beri vísitölu á neytendalánum harmar stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna að alþingismenn í stjórn og stjórnarandstöðu hafi á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þann 26. mars 2012 ekki getað komið sér saman um að hrinda svo brýnu máli í framkvæmd.
Í nefndinni sitja þau Birkir Jón Jónsson (F), Guðlaugur Þór Þórðarsson (S), Helgi Hjörvar, form. (Sf), Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) varaform., Lilja Mósesdóttir (U), Magnús Orri Schram (Sf),
Skúli Helgason (Sf), Tryggvi Þór Herbertsson (S), Þráinn Bertelsson (Vg) varaform. og Margrét
Tryggvadóttir (Hr) áheyrnarfulltrúi.
Samkvæmt könnun sem Capacent vann fyrir Hagsmunasamtök heimilanna í nóvember 2011
eru 80% þjóðarinnar fylgjandi afnámi verðtryggingar á neytendalánum. Á sex mánuðum hafa
tæplega 38 þúsund manns skrifað nafn sitt í undirskriftasöfnun HH um afnám verðtryggingar og
réttláta leiðréttingu stökkbreyttra lána.
Afnám verðtryggingar snýst um réttlæti og er eitt mikilvægasta kjaramál þúsunda íslenskra
heimila. Hagsmunasamtök heimilanna skora á nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd að
viðurkenna óréttlætið sem felst í verðtryggingu og taka höndum saman um afnám hennar.
Til að minna á þau verkefni sem ykkur hafa verið falin látum við fylgja með tilvitnanir um stefnu
og ályktanir þeirra stjórnmálasamtaka sem hafa átt fulltrúa á Alþingi undanfarin misseri ásamt
þeim sem hyggja á framboð á næstunni. Hagsmunasamtök heimilanna hvetja nefndarmenn
sem og aðra þingmenn til að hlusta á raddir flokksmanna sinna og kjósenda.
Ályktanir stjórnmálasamtaka um leiðréttingu og afnám verðtryggingar
Samfylkingin
Úr stjórnmálaályktun landsfundar 2011:
“Forsenda efnahagslegrar sóknar er úrlausn skuldavanda heimila og fyrirtækja. Ríkar kröfur þarf að gera
til fjármálafyrirtækja um að hraða endurskipulagningu skulda fyrirtækja og einstaklinga og tryggja að
unnið sé eftir samræmdum og gagnsæjum reglum. Mikilvægt er að fjármálastofnanir láti ekki staðar
numið við úrlausn skuldavanda þótt rými til afskrifta sé talið fullnýtt. Tekin verði frekari skref til að draga
úr vægi verðtryggingar og núverandi úrræði fólks í greiðsluvanda rýnd meðal annars með tilliti til þess
hóps sem fjármagnaði íbúðakaup með lánsveðum. Greiða þarf fyrir samkeppni á fjármálamarkaði, auka
réttindi og vernd neytenda og skoða aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi.”
Vinstrihreyfingin - grænt framboð
Úr ályktunum landsfundar 2011:
“Lánamál heimilanna
Í ljósi þess að enn ríkir engin sátt um lánamál heimilanna hvetur landsfundur til að komið verði á
sameiginlegum vettvangi, þar sem deiluaðilar verði leiddir saman, sem hafi það að markmiði að finna
málamiðlun. Samningar eru forsenda sátta.
Stór hópur ungs fólks sem keypti sína fyrstu íbúð á árunum fyrir hrun hefur í takmörkuðu mæli getað
nýtt sér úrræði í þágu skuldsettra heimila, þ.e. fólk sem fékk lánsveð hjá ættingjum. Landsfundur hvetur
til þess að lögum og/eða reglugerðum verði breytt um þessi úrræði þannig að þessi hópur hljóti réttláta
úrlausn sinna mála.”
“Staða skuldara
Landsfundur VG telur nauðsynlegt að gætt verði jafnræðis milli lántakenda sem lögðu eignir til húsnæðiskaupa og þeirra sem fjármögnuðu kaup sín með hærra lánshlutfalli. Þá getur það ekki talistréttmætt að lán sem færð voru frá þrotabúunum til nýju bankanna á undirverði séu innheimt á fullu verði, með auknum verðbótum vegna bankahrunsins, á sama tíma og bankarnir skila milljarða hagnaði.”
Úr ályktunum flokksráðsfundar 25.2.2012:
“Ályktun um lánamál
Flokksráð VG vill að VG hafi frumkvæði að því að móta leiðir til að draga úr skuldavanda heimila ogfyrirtækja. Brýnt er að afnema verðtryggingu og leiðrétta þá okurvaxtabyrði og auknu skuldabyrði sem
hún hefur valdið eftir hrun fjármálakerfisins. Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins eru sérstaklega hvött til að
ganga á undan með góðu fordæmi."
Sjálfstæðisflokkurinn
Úr stjórnmálaályktun landsfundar 2011:
“Draga ber jafnt og þétt úr áhrifum verðtryggingar... “
“Nýtum tækifærin – sátt um stöðu heimilanna ...
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána.
Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og
framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags. Aðgerðir til lausnar skuldavanda einstaklinga eiga að vera
almennar en ekki það sértækar að leiði til mismununar borgaranna og brjóti gegn jafnræðisreglu
stjórnarskrárinnar.”
Úr ályktun landsfundar 2011 um fjármál heimilanna:
“Úrvinnsla skulda heimilanna eftir hrun ...
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána.
Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og
framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags.
Aðgerðir til lausnar skulda einstaklinga eiga að vera almennar en ekki það sértækar að leiði til
mismununar borgaranna og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.”
“Fjármögnun íbúðarhúsnæðis ...
Verðtrygging neytendalána á ekki að vera valkostur í nútímasamfélagi.”
Framsóknarflokkurinn
Úr ályktunum flokksþings 2011:
“Ályktun um efnahagsmál, fjármál ríkisins, skattamál og viðskipti ...
...Samræma ber, eins og kostur er, aðgerðir opinberra aðila s.s. ríkissjóðs, Seðlabanka, Íbúðalánasjóðs,
Bankasýslu ríkisins, sveitarfélaga og annarra við efnahagsstjórnun og framkvæmd peningastefnu.
Mikilvægt er að samstarf takist milli fyrrgreindra aðila með það að markmiði að afnema verðtryggingu
og fjölga kostum óverðtryggðra lána, svo sem fasteignalána.”
Úr efnahagstillögum Framsóknarflokksins (Plan B) um endurskipulagningu skulda:
1. “Verðtrygging verði afnumin í skrefum. Óverðtryggðum lánakostum verði fjölgað og stutt við
fjölgun búsetuforma, m.a. með eflingu leigumarkaðar.
2. Óvissu um skuldir heimila og fyrirtækja verði eytt eins fljótt og kostur er. Breyta þarf
vaxtalögum þannig að bráðabirgðaákvæði nái einnig til fyrirtækjalána auk lána heimila.
3. Svigrúm fjármálastofnana verði nýtt til almennrar leiðréttingar skulda heimilanna eftir því
sem kostur er eins og Framsóknarflokkurinn hefur áður lagt til, eða með öðrum almennum
aðgerðum sem stefna að sama marki. …”
Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar
“Neytenda-, húsnæðis- og lífeyrissjóðsmál ...
Forsendubrestur á lánamarkaði síðustu ára verði leiðréttur með almennri skuldaleiðréttingu...
...Samstaða vill að verðtrygging neytendalána verði afnumin og komið verði á norrænu
fasteignalánakerfi...”
Hreyfingin
“Víðtækar aðgerðir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum
Alvarleg staða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar handvirkt
fram fyrir hrun hagkerfisins (janúar 2008) og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til
samæmis við það.
Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2% - 3% og afborgunum af húsnæðislánum verði
hægt að fresta um tvö ár með lengingu lánsins um þann tíma. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra
íbúðalána verði lagfærð í samræmi við lagfæringu verðtryggðra íbúðalána. Náð verði samkomulagi
við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að þeim verði breytt í skuldabréf með föstum vöxtum og
verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði bönnuð.”
Dögun
“Öflugar aðgerðir í þágu heimila
Við erum sammála um að leysa verði skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta
aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar
en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu
húsnæðislána. Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest. Við viljum berjast fyrir því að
vextir í landinu verði hóflegir.”
Frjálslyndi flokkurinn
“Vaxtamál …
Lækkum vexti og fjármagnskostnað og afnemum verðtryggingu af lánum.”
Borgarahreyfingin
“Efnahagsmál
Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð vegna forsendubrests, með því að færa vísitölu
verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána
lækki til samræmis við það. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra
húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í
lánasamningum verði afnumin.
Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í ljósi þess að
gengistryggingarákvæðin voru ólögleg og lánveitendum verði gert að axla fulla ábyrgð.
Afnema skal verðtryggingu húsnæðislána, Slík verðtrygging brýtur í bága við evrópskar reglur um
neytendavernd sem Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða. …”
Björt framtíð
Guðmundur Steingrímsson á beinni línu hjá DV.is 11. desember 2011:
“Auðbergur Magnússon
Hefur þessi "flokkur" einhverja stefnu og hvenær verður hún kynnt? Hver er t.d. stefnan í
gjaldmiðilsmálum okkar, ESB og verðtryggingu?
Guðmundur Steingrímsson
Stefnuskrá kemur fram eftir að málefnastarf hefst. Annað væri ekki lýðræðislegt. En skoðanir höfum við:
Við viljum klára ESB viðræðurnar. Nýjan gjaldmiðil þarf. Þá er hægt að losna við verðtryggingu.”
“Þórður Guðjohnsen
Hver er stefna ykkar varðandi að leiðrétta verðtryggð lán almennings? og mögulega endurskoðun
verðtryggingu í heild? setja kannski þak á hana td 4% ?”
“Guðmundur Steingrímsson
Varðandi lánin og verðtryggingu. Ég á mér þann draum að hér rísi upp lánamarkaður sem getur boðið
fólki óverðtryggð lán til langs tíma á 3-5% vöxtum. Það er markmiðið sem við verðum að setja okkur.”
“Margrét Sólveig Ólafsdóttir
Guðmundur, það þarf nýja hugsun í stjórnmálin, og algjörlega nýja hugsun í húsnæðismálum. Munt þú
beita þér fyrir afnámi verðtryggingar sem allra fyrst?
Guðmundur Steingrímsson
Ég mun beita mér fyrir viðvarandi stöðugleika, og þar með afnámi verðtryggingar. Óstöðugleikinn er
vandamálið.”