Formenn HH og VR funduðu með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra
Þann 7. júní sl. áttu formenn Hagsmunasamtaka heimilanna og VR fund með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Þau Ásthildur Lóa og Ragnar Þór greindu ráðherrunum frá áhyggjum sínum af stöðu heimilanna í hækkandi verðbólgu vegna afleiðinga heimsfaraldursins og fóru fram á að ráðherranir myndu beita þeim aðgerðum sem þeir ráða yfir til að tryggja að þær afleiðingar muni ekki skella af fullum þunga á heimilum landsins.
Helstu kröfur okkar voru að ríkisstjórnin:
- Tryggi að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins.
- Setji þak á verðtryggingu húsnæðislána og leigu miðað við upphaf faraldursins í mars 2020.
- Setji þak á vexti óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum og sjái til þess að vaxtalækkanir seðlabankans skili sér að fullu til neytenda.
Einnig lýstu formenn samtakanna áhyggjum sínum af því að ríkisstjórnin hefði ekki staðið loforð um að draga úr vægi verðtryggingarinnar, sem þó er talað um í stjórnarsáttmálanum og samið var um í lífskjarasamningum.
Ráðherrarnir, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson tóku formönnum HH og VR vel en því miður lítur ekki út fyrir að þau ætli að grípa til neinna aðgerða til að verja heimili landsins fyrir þeirri kreppu sem fyrirsjáanleg er. Enn og aftur á að leggja örlög heimilanna í hendur bankanna.
Þessi afstaða ráðherranna og ríkisstjórnarinnar var endanlega staðfest þegar breytingartillaga sem hefði tryggt öllum þeim sem fastir eru í gildru verðtryggingar í ótryggu ástandi, rétt til að skipta yfir í óverðtryggð lán, óháð efnahagslegri stöðu, var felld á Alþingi, nokkrum dögum eftir þennan fund (sjá fréttatilkynningu samtakanna).
Meðfylgjandi er minnisblað sem samtökin sendu ráðherrunum fyrir fundinn.
Hagsmunasamtök heimilanna
Minnisblað sem sent var ráðherrum:
Forsætisráðherra, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, 101 Reykjavík
Fjármála- og efnahagsráðherra, Arnarhvoli við Lindargötu, 101 Reykjavík
Reykjavík 7. júní 2021
Minnisblað vegna fundar með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra
Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá ársbyrjun 2009 barist fyrir, hjálpað og ráðlagt fjölskyldum sem lentu í vandræðum í kjölfar bankahrunsins 2008. Fullyrða má að reynslan og þekkingin á þessum málum sé hvergi meiri hér á landi en innan vébanda samtakanna og þó víðar væri leitað.
Sá tollur sem slík barátta tekur af fólki, einstaklingum og fjölskyldum, verður aldrei metinn til fjár.
Það er að sjálfsögðu gríðarlegt fjárhagslegt áfall að missa heimili sitt og þurfa að byrja upp á nýtt, oft á erfiðum leigumarkaði, með tvær hendur tómar en sá andlegi og líkamlegi tollur sem barátta fyrir afkomu sinni og heimili tekur af fólki er ekki síður alvarlegur, jafnvel þó því takist að halda heimilinu.
Samtökin vilja með öllum ráðum koma í veg fyrir að nokkuð líkt því sem gerðist eftir bankahrunið endurtaki sig því það á enginn að þurfa að ganga í gegnum slíkar þrengingar, sérstaklega ekki af ástæðum sem viðkomandi ber enga ábyrgð á.
Það á við núna. Ekkert okkar, hvort sem er ríkisstjórnin, bankarnir eða heimilin, bera nokkra ábyrgð á heimsfaraldrinum, en af þessum þremur aðilum, er aðeins einn algjörlega áhrifalaus og á valdi hinna tveggja.
Það er ljóst að eftir hrun var farið í margar misráðnar aðgerðir sem gáfu bönkunum úrslitavald yfir örlögum tugþúsunda. Vítin eru til að varast þau og núna þarf að stíga fast til jarðar svo hörmungar eftirhrunsáranna endurtaki sig ekki nú.
Til að setja ástandið í tölulegt samhengi þá nemur hvert prósentustig af dæmigerðu 30 milljón króna húsnæðisláni 300.000 kr. sem jafngildir hér um bil mánaðarlegum ráðstöfunartekjum einstaklings í láglaunastarfi. Það gildir einu hvort um er að ræða prósentustig verðbólgu eða vaxta, eini munurinn er að verðtryggingin étur upp eignarhlut í húsnæði en vextir éta beint úr launaumslaginu.
Þegar heimsfaraldurinn barst til Íslands snemma árs 2020 var ársverðbólga 2,1% en í apríl á þessu ári mældist hún 4,6% eða 2,5 prósentustigum hærri. Miðað við fyrrnefndar forsendur jafngildir það því að tvær og hálf launaútborgun hafi þurrkast út. Nú er útlit fyrir að verðbólga verði áfram há eða yfir 4% jafnvel fram á næsta ár og vextir eru teknir að hækka. Heimilin þola ekki annað árið í röð að missa heilar mánaðartekjur, hvað þá meira, á þetta vaxta- og verðbólgubál.
Aðgerðirnar sem ríkið þarf að grípa til eru einfaldar og þurfa ekki að vera kostnaðarsamar. Þær krefjast fyrst og fremst vilja og að teknar séu pólitískar ákvarðanir.
Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að ríkisstjórnin:
- Tryggi að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins.
- Setji þak á verðtryggingu húsnæðislána og leigu miðað við upphaf faraldursins í mars 2020.
- Setji þak á vexti óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum og sjái til þess að vaxtalækkanir seðlabankans skili sér að fullu til neytenda.
Allar aðrar leiðir liggja beint út í ófærur með allskyns hremmingum og ómældum kostnaði sem ekki verður allur metinn til fjár. Fjárhagslegi skaðinn verður mikill en hinn sem ekki sést verður enn meiri og hann verður aldrei hægt að meta að fullu.
Stór kostur við þessar aðgerðir er að þær krefjast í raun engra útgjalda úr ríkissjóði og þær væru þjóðfélaginu öllu til hagsbóta því fjölskyldur sem halda heimilum sínum geta í langflestum tilfellum risið aftur upp þrátt fyrir tímabundna erfiðleika og þar með myndu færri þurfa á félagslegri aðstoð að halda og færri myndu veikjast vegna álagssjúkdóma.
Fjármálafyrirtækin og bankarnir myndu engu tapa en hugsanlega ekki hagnast jafn mikið og annars. Það er sjálfsögð krafa að lánveitendur, sem eru flestir gríðarlega fjársterkir fyrir, deili byrðunum með þjóðinni vegna “Force Majeure” ástands og sýni fram á að við séum öll í sama bátnum.
Núna í þessari kreppu, verða fjölskyldurnar og heimilin að njóta vafans. Það má líkja ástandinu núna við vetur þegar allt leggst í dvala, en á eftir vetri kemur vor og þá þurfum við öll, bæði heimili og fyrirtæki, að geta lifnað aftur við. Við verðum öll að fá tækifæri til að rísa upp á ný án þess að þá leggist á okkur auknar byrðar vegna tímabundins ástands sem ekkert okkar ber neina ábyrgð á.
Fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna,
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður.