Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH kæra velferðarráðuneytið öðru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) sendu þann 18. febrúar sl. erindi til Velferðarráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að fá afhenta reglugerð þá sem ráðherra er skylt að setja skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010), þar sem lögunum til fyllingar skal nánar kveðið á um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Skemmst er frá því að segja að engin svör hafa borist frá ráðuneytinu við fyrirspurninni og hafa HH því kært tafir og skort ráðuneytisins á svörum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samtökin telja ótvírætt að slík reglugerð hljóti að vera gagn sem skylt sé að veita almenningi aðgang að skv. upplýsingalögum, sé þess óskað.



Þess má geta að HH hafa áður, þann 17. janúar sl., kært á sama veg skort ráðuneytisins á svörum við sambærilegri fyrirspurn samtakanna frá nóvember 2012 sem var ítrekuð í desember, varðandi reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kveðið skal á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar, og sem tryggja skal samræmdar verklagsreglur hjá embætti Umboðsmanns skuldara (UMS) við afgreiðslu og framkvæmd greiðsluaðlögunar.

Þar sem þessar tvær umræddar reglugerðir liggja hvergi frammi að því er virðist, og hvorug þeirra hefur fengist afhent þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, virðist sem allnokkur óvissa ríki um þær málsmeðferðarreglur sem unnið er eftir í greiðsluaðlögun og kærumeðferð slíkra mála. Kann það að gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stjórnsýslulegu lögmæti framkvæmdar greiðsluaðlögunar í þeim málum sem þegar hafa verið afgreidd eða eru til meðferðar, hafi í reynd aldrei verið settar viðhlítandi reglur sem átt hafi að tryggja samræmda framkvæmd við meðferð þeirra. Slík staða kynni hugsanlega að þurfa að koma til skoðunar í ljósi jafnræðissjónarmiða stjórnsýsluréttar.

Hagsmunasamtök heimilanna munu koma á framfæri upplýsingum um framvindu eftirgrennslan um þær reglugerðir sem um ræður þegar að því kemur að þær liggi fyrir, en eðlilegur tími til slíkrar málsmeðferðar er allt að fimm vikur samkvæmt verklagsreglum úrskurðarnefndarinnar.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum