Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Afskriftatími krafna vegna lána Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu styttur í þrjú ár

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli þeirra sem misst hafa fasteignir á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs og sem sótt hafa um Leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, á nýlegri breytingu á reglugerð um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu, þar á meðal í þeim tilvikum sem kröfur sjóðsins hafa verið hærri en endurheimtur þeirra af söluandvirði fullnustueignar við nauðungarsölu. Með reglugerð nr. 359/2010 var stjórn Íbúðalánasjóðs heimilað að afskrifa slíkar kröfur að liðnum fimm árum frá sölu fasteignar. Í júní síðastliðnum stytti félags- og húsnæðismálaráðherra þann tíma hinsvegar niður í þrjú ár með nýrri reglugerð nr. 534/2015 á grundvelli 47. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Breytingin getur haft þýðingu fyrir hundruðir einstaklinga og fjölskyldna sem hafa misst heimili sín á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs á undanförnum fimm árum, þar sem leiða má að því líkur að í hluta þeirra tilfella séu nú þegar liðin þrjú ár eða meira frá nauðungarsölu og skilyrði fyrir afskriftum séu þar með uppfyllt. Hlutaðeigandi er bent á að einfalt er að sækja um slíkar afskriftir með því að fylla út þar til gert eyðublað sem hægt er að nálgast á heimasíðu Íbúðalánasjóðs og senda umsóknina til sjóðsins. Rétt er að benda á að í eyðublaðinu er vitnað í eldra orðalag brottfallinnar reglugerðar nr. 119/2003, þar sem var viðbótarskilyrði fyrir afskrift að skuldari hefði ekki fjárhagsgetu til að greiða kröfuna vegna ófyrirséðra eða óviðráðanlegra atvika. Með núgildandi reglugerð hefur það skilyrði hinsvegar verið fellt brott og er nú eingöngu skilyrði að þrjú ár séu liðin frá sölu fasteignar. Þá skal áréttað að úrræðið nær aðeins til lána Íbúðalánasjóðs en ekki annarra lánveitenda.

Sérstaklega getur þessi breyting haft þýðingu fyrir þá sem hafa sótt um leiðréttingu lána sem glatað hafa veðtryggingu, en hafa ekki fengið endanlegar niðurstöður birtar, til dæmis vegna endurupptöku eða athugasemda við fyrri niðurstöður sem eru til úrlausnar hjá embætti Ríkisskattsjóra eða hafa verið kærðar til úrskurðarnefndar. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána skal leiðréttingarfjárhæð ráðstafað til lækkunar á slíkum kröfum hafi þær ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjanda, en samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sbr. breytingu með reglugerð nr. 1160/2014, skal framkvæmdin miðast við eftirstöðvar krafna á samþykktardegi leiðréttingar. Þeir sem bíða enn eftir endanlegum niðurstöðum vegna leiðréttingarinnar og hafa misst fasteign á nauðungarsölu að kröfu Íbúðalánasjóðs fyrir meira en þremur árum, eru þar af leiðandi hvattir til þess að sækja um afskrift á eftirstandandi skuldum við Íbúðalánasjóð áður en lokið verður við ákvörðun og samþykki leiðréttingar.

Hér má nálgast umsóknareyðublað Íbúðalánasjóðs.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum