AÐVÖRUN TIL NEYTENDA: Skoðið vaxtaskilmála lánssamninga ykkar
Neytendastofa hefur ítrekað staðfest að ýmsar útgáfur lánaskilmála um breytilega vexti brjóti í bága við lög um neytendalán og vaxtahækkanir á grundvelli þeirra hafi því verið ólögmætar.
Skilmálar um breytilega vexti sem tilgreina ekki við hvaða aðstæður eða skilyrði þeir breytist, heldur áskilja lánveitanda einhliða sjálfdæmi um ákvörðun vaxta, eru ólöglegir.
Vaxtahækkanir á grundvelli ólöglegra skilmála fela í sér alvarleg brot á neytendarétti.
Slíkir skilmálar eru nokkuð algengir hér á landi. Ekki síst í útistandandi lánum sem voru veitt í gildistíð eldri laga um neytendalán frá árinu 1994, þar á meðal húsnæðislánum frá árinu 2001, en einnig eru dæmi um slíka skilmála í nýrri lánum.
Þrátt fyrir ítrekaða úrskurði og dóma um ólögmæti skilmála um breytilega vexti og í sumum tilvikum viðurkenningu fjármálafyrirtækjanna sjálfra á ólögmæti þeirra, hafa þau þó oftar en ekki þráast við að leiðrétta hlut viðskiptavina sinna ef þeir sækjast ekki sérstaklega eftir því. Þannig hefur hver og einn neytandi verið settur í þá stöðu að þurfa að leita réttar síns sérstaklega, í stað þess að slík leiðrétting fari fram sjálfkrafa með samræmdum hætti sem nái jafnt yfir alla að ganga.
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja því neytendur til að skoða lánssamninga sína og athuga hvort löglegir skilmálar hafi legið að baki mögulegum vaxtahækkunum.
Samtökin benda enn fremur á ábyrgð stjórnvalda þegar brotið er á neytendum.
Stjórnvöldum ber að sjá til þess að fjármálafyrirtæki, hvort sem það eru bankar eða lífeyrissjóðir, hlíti niðurstöðum eftirlitsstofnana eða sæti að öðrum kosti lögbundnum viðurlögum.
Það er engin heilbrigð skynsemi í því að hver og einn þurfi að fara í mál um það nákvæmlega sama og allir aðrir í sömu stöðu. Það á aldrei að vera undir lögbrjótum komið hvort þeir bæti fyrir brot sín eða ekki. Breytir þá engu hvort um ásetning eða (endurtekin) „mistök“ sé að ræða.
Hagsmunasamtök heimilanna bjóða neytendum upp á leiðbeiningar og aðstoð við að leita réttar síns. Hægt er að óska eftir aðstoð með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Nánari upplýsingar á vefsíðu Hagsmunasamtaka heimilanna:
Neytendatorg: Breytilegir vextir (almennar upplýsingar og ítarefni)
Neytendaréttur og ólöglegar vaxtabreytingar (fréttatilkynning 24. júní 2019)