Málsókn SP-fjármögnunar vísað frá í Héraðsdómi
Eftirfarandi er útdráttur úr dómsorði:
"Eins og áður greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.
Stefnandi sem er fjármögnunarleiga krefur í máli þessu stefndu um greiðslu eftirstöðva bílasamnings aðila, sem stefnandi rifti hinn 12. desember 2008. Stefndu krefjast frávísunar málsins þar sem málatilbúnaður stefnanda sé ekki í samræmi við áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991.
Af stefnu verður ráðið að stefnufjárhæðin í málinu sé eftirstöðvar samnings aðila sem og gjaldfallin leiga og kostnaður að frádregnu mati á umræddri bifreið. Þá var í stefnu sagt að inni í þeirri fjárhæð væri tilgreindur kostnaður vegna bifreiðagjalda, trygginga frá Sjóvá, vörslusviptingar, viðgerðar, stöðumælasektar og mats á viðgerðarkostnaði. Stefnandi féll síðan frá kröfum vegna hluta þessa kostnaðar við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu. Verður að fallast á það með stefnda að sundurliðun þessi sé bæði ruglingsleg og óljós, og með engu móti unnt reikna út hvernig þessar fjárhæðir eru fundnar út eða hvaða áhrif þær hafi á skuld stefndu. Varð sundurliðun þessi á engan hátt skýrari við það að stefnandi lækkaði kröfur sínar. Þá er ekki í stefnu að finna útskýringu eða sundurliðun á því hvernig gjaldfallin leiga er reiknuð út, við hvaða vísitölu er miðað eða hvað stefndu hafa greitt af samningsfjárhæðinni. Er því ekki ljóst hvernig stefnufjárhæðin er fundin. Telst því málatilbúnaður stefnanda svo óljós og óskýr að hann fullnægir ekki kröfum e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til þess að efnisdómur verði lagður á málið. Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa lagt málið upp með nægilega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður. Þá þykir málatilbúnaður stefnanda vera mjög til þess fallinn að takmarka möguleika stefndu á að halda uppi vörnum í málinu.
Ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefndu um að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefndu in solidum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan."