Leið HH er allt að helmingi ódýrari
10% leið ásamt lækkun vaxta er áætluð að kosti 24 milljarða á ári ef marka má fréttaflutning RÚV af málinu. Leiðréttingaleið Hagsmunasamtaka heimilanna kostar hinsvegar frá 12 til 16 milljarða á ári eftir því hversu miklar tekju/eigna - tengingar eru í dæminu. Stærsti ókostur 110% leiðréttingar er að fasteignir halda áfram að vera yfirveðsettar. Það kemur í veg fyrir losun um fasteignamarkað.
Annar ókostur er sá að þeir sem settu fram minnst eigið fé í fasteignakaup fá mestar afskriftir en þær duga nú samt ekki til því 110% er ennþá yfirveðsetning. Þeir sem lögðu fram mikinn eigin sparnað fá oft á tíðum enga leiðréttingu. Lækkun vaxta er góð fyrir alla en losar ekki um markaðinn í bráð. Það er eiginlega furðulegt að menn skuli vera að ræða á þessum nótum því það er í besta falli óskynsamlegt ef ekki ólöglegt fyrir fjármálafyrirtæki að telja sér til eigna yfirveðsetningu á eignum.
Fyrirsjáanlegt er að verð fasteigna haldi áfram að lækka, það er í það minnsta nokkuð góðar líkur á því og líkurnar minnka ekki með þessari leið. Kostir leiðar Hagsmunasamtaka heimilanna eru mun fleiri, koma fleirum til góða og hjálpar fasteignamarkaðnum af stað. Eftirfarandi er tafla sem sýnir "kostnað" þeirrar leiðar. VIð setjum orðið kostnað innan gæsalappa vegna þess að meintur kostnaður er í raun blekking. Hér er aðeins verið að gefa eftir hluta af því sem ætlunin var að kúga út úr heimilunum á mjög ósanngjörnum forsendum.
Leiðréttingaleið HH með tekju og eignatengingum að forskrift MGN:
Leiðréttingaleið HH án tekju eða eignatenginga:
Hversvegna vilja Hagsmunasamtök heimilanna leiðréttingarleiðina?:
Verða heimilin með í endurreisninni?
Með lækkun höfuðstóls fasteignalána er markmiðið að heimilin nái fótfestu með hvað þau skulda og að dragi úr yfirveðsetningu. Yfirveðsetning og óvissa með framtíðina eru helstu ástæður þess að fasteignamarkaðurinn er dauður. Væntanlegir kaupendur halda að sér höndum því þeir hafa trú á að verð fasteigna hafi ekki náð botni. Framboð á lánsfé og vaxtastig hafa þarna einnig nokkur áhrif. Megin veltan á fasteignamarkaði almennt er fólk sem er að stækka við sig, minnka við sig eða færa sig um set á einhvern hátt. Að óbreyttu er útlit fyrir að lánveitendur fasteignalána yfirtaki mikið af eignum á næstu árum. Eignirnar fara væntanlega á markað og setja aukin þunga á fasteignaverð niðurávið. Þetta er ekki alslæmt fyrir þá sem eiga ekki fasteignir fyrir, svo framarlega sem þeir eiga fyrir útborgun, hafa lánstraust og vinnu og eru tilbúnir að greiða þá vexti sem eru í boði. Þeim fækkar þó óðum í yfirstandandi samdrætti.
Hver er ávinningurinn?
Meiri ráðstöfunarfé heimilanna gerir margt fyrir marga. Sem dæmi væru fleiri sem hefðu efni á að vera áskrifendur að ritum eins og DV. Auglýsingakakan stækkar sem hefur einnig góð áhrif á fjölmiðla sem treysta á auglýsingatekjur. Hagfræðingar hafa fært rök fyrir því að aukinn kaupmáttur í lægri tekjuenda millistéttarinnar hefur jákvæðust áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Hagkerfið þarf á meiri veltu að halda, sérstaklega í þjónustugreinunum. Leiða má getur að því að þjónustugreinarnar séu komnar töluvert undir eðlilegt jafnvægisástand vegna stöðugs samdráttar í eftirspurn. Vísbendingar um þetta má finna í hagtölum Hagstofunnar um gjaldþrot í þessum greinum.
Hvernig sem menn skipta árlegum endurgreiðslum 12 til 16 milljarða stökkbreytts hluta íbúðalána á milli ríkissjóðs, banka og lífeyrissjóða er alveg ljóst að heimilin geta ekki greitt þennan reikning nema með sambærilegum samdrætti veltu og eftirspurnar í hagkerfinu. Ráðamenn þurfa aðeins að líta á hagtölur síðustu tveggja ára til að sjá hvaða áhrif það hefur að fjármálastofnanir sogi til sín allt fjármagn. Menn gleyma því stundum að gjaldmiðillinn er til þess upp fundinn að láta verðmæti og verðmætasköpun flæða í hagkerfinu. Ekki ósvipað og blóðið hefur það hlutverk að láta orku og næringu flæða um líkamann. Hefti menn flæði fjármuna eða safna þeim of mikið eða þynna út dregur úr flutning næringar frá líffærum til vöðva, heila og vefja samfélagsins og þar með getu þess til að láta til sín taka.
Mikilvægi réttlætis
Hornsteinn tillagna HH er um réttlæti. Lántökum finnst afar óréttlátt að vera ætlað að bæta einir upp geigvænlegt aulatap lífeyrissjóða svo ekki sé minnst á fjármögnun eigin fés kennitöluflakkandi banka. Tillögurnar leggja út frá sameiginlegri ábyrgð þ.e. af um 30% hækkun verðbóta verði rétt rúmum helming skilað til heimilanna. Lagt er til að fórnarlömb stökkbreyttra íbúðalána (lögheimila) sitji við sama borð með því að taka stöðuna 1. janúar 2008 og reikna lánin frá þeim degi með 4% þaki á verðbætur en gengisbundnu lánin verði einnig með verðbótum og þaki frá þeim degi. Verðbólga er nú vel undir 4% og því engar fjármálastofnanir að tapa neinu af því þaki á næstu árum á meðan fjármálakerfið heldur sér á mottunni í útlánum (fylgni óhóflegra útlána og verðbólgu er margreynd bæði hérlendis og annarstaðar).
Án réttlætis verða lántakar um langa framtíð í mótþróa við allt sem bankar, lífeyrissjóðir og ríkisstjórn leggja til. Sárindin yfir óréttlætinu éta okkur að innan, við viljum síður leggja okkur fram, við verðum veikari, við látum í besta falli draga okkur áfram eða leggjumst í andóf. Við flytjum úr landi, við vantreystum samborgurum okkar, mörg okkar verða óvirk. Tilfinningin er lamandi tilfinning um tilgangsleysi. Tilfinningin er sambærileg við afleiðingar innbrots og þjófnaðar en það sem verra er að þjófarnir ætlast til að þú vinnir í tugi ára upp í það sem þeir náðu ekki í fyrstu umferð. Skuldaþrældómur. Hversu margir munu kjósa frelsið með einum eða öðrum hætti vitum við ekki. Þó má reikna með að ofangreindar tilfinningar leiði til minni virðingar, glæpa og almennrar hnignunar samfélagsins. Kostnaður okkar allra af þeim völdum er ómælanlegur. Réttlæti er samfélaginu afar dýrmætt.