Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Lögvernduð okurlánastarfsemi verðtryggingarinnar

Andstæð sjónarmið tókust á um verðtryggingu í Kastljósþætti gærkvöldsins á RÚV og þá lagalegu meinbugi sem Hagsmunasamtökin telja að séu á reglum Seðlabanka Íslands um framkvæmd hennar.

Á meðan Vilhjálmur H. Bjarnason, fjárfestir og lektor við Háskóla Íslands, studdi þá skoðun að verðtryggingin væri í framkvæmd ekki aðeins rétt heldur einng réttlát, færði Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunastaka heimilanna, rök fyrir hinu gagnstæða. Verðtryggingin sé í núverandi mynd bæði röng og ranglát.

Helstu rök Vilhjálms voru þau, að skilningur á núvirðingu lána* yrði að vera til staðar svo ræða mætti verðtrygginguna á réttum forsendum, jafnvel þó að „núvirðing“ reynist flestum torskilin.  Það gefi villandi mynd af heildarkostnaði lántakenda að framreikna vaxta- og verðbótaþátt 30 til 40 ára verðtryggðra lána án þess að hafa núvirði þeirra til hliðsjónar. Að teknu tilliti til þess snarlækki heildarskuldbinding þeirra í krónum talið.

Andrea benti í meginatriðum á, að núvirðing snerti ekki þau margfeldisáhrif sem verðbótafærslur á höfuðstóli verðtryggðra lána leiði af sér, með þeim afleiðingum að hann hækkar, ekki í takt við þróun vísitölu neysluverðs, heldur sem margfeldi síendurtekinna uppfærslna. Sé reyndin sú, greiði lántakendur verðtryggð lán margfalt til baka og langt umfram kaupmáttarþróun eins og hún mælist í vísitölu neysluverðs. Þegar upp er staðið, megi því nánast leggja verðtryggð lán að jöfnu undir lögverndaða okurlánastarfsemi.

Að mati Hagsmunasamtakanna heimilanna heimila lög nr. 38 um vexti og verðtryggingu ekki slíkar höfuðstólsuppfærslur. Lögin heimili einungis að verðbætur séu reiknaðar af greiðslum, þ.e. afborgunum lána og lögum samkvæmt beri því að staðgreiða þá verðbólgu sem mælist, án þess að átt sé við höfuðstól lána. Óverðtryggð lán uppfylli sem dæmi þessi skilyrði laga.

Ranglæti verðtryggingarinnar í núverandi mynd birtist svo að sögn Andreu í þeirri einhliða áættu sem lántakendum er gert að axla á verðbólgu- og gengisþróun næstu áratuga. Það sé algjört einsdæmi í heiminum á almennum íbúðalánamarkaði.

Sjá Kastljósumfjöllunina í heild sinni (RÚV 17. ágúst 2011)

Ítarefni:

Sjá bloggfærslu Þórðar Björns Sigurðssonar,
varastjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, um ólöglega svikamyllu verðtryggingarinnar

Sjá umfjöllun Andreu J. Ólafsdóttur um svikamyllu verðtryggingarinnar

* Núvirðing þýðir í stuttu máli að reikna út þá fjárhæð sem leggja þyrfti til hliðar í dag, sem stæði undir öllum skuldbindingum á lánstímanum.

Þessi fjárhæð er umtalsvert lægri en samanlagðar afborganir á 30 eða 40 ára lánstíma. Ástæðan er sú að fé sem lagt væri til hliðar í dag til að mæta skuldbindingunum myndi safna vöxtum þangað til farið yrði að greiða af láninu og þeir vextir myndu líka nýtast til afborgana. (Heimild orðskýringar: Icesavereiknir mbl.is og Data Market)

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum