Lögvernduð okurlánastarfsemi verðtryggingarinnar
Andstæð sjónarmið tókust á um verðtryggingu í Kastljósþætti gærkvöldsins á RÚV og þá lagalegu meinbugi sem Hagsmunasamtökin telja að séu á reglum Seðlabanka Íslands um framkvæmd hennar.
Á meðan Vilhjálmur H. Bjarnason, fjárfestir og lektor við Háskóla Íslands, studdi þá skoðun að verðtryggingin væri í framkvæmd ekki aðeins rétt heldur einng réttlát, færði Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunastaka heimilanna, rök fyrir hinu gagnstæða. Verðtryggingin sé í núverandi mynd bæði röng og ranglát.
Helstu rök Vilhjálms voru þau, að skilningur á núvirðingu lána* yrði að vera til staðar svo ræða mætti verðtrygginguna á réttum forsendum, jafnvel þó að „núvirðing“ reynist flestum torskilin. Það gefi villandi mynd af heildarkostnaði lántakenda að framreikna vaxta- og verðbótaþátt 30 til 40 ára verðtryggðra lána án þess að hafa núvirði þeirra til hliðsjónar. Að teknu tilliti til þess snarlækki heildarskuldbinding þeirra í krónum talið.
Andrea benti í meginatriðum á, að núvirðing snerti ekki þau margfeldisáhrif sem verðbótafærslur á höfuðstóli verðtryggðra lána leiði af sér, með þeim afleiðingum að hann hækkar, ekki í takt við þróun vísitölu neysluverðs, heldur sem margfeldi síendurtekinna uppfærslna. Sé reyndin sú, greiði lántakendur verðtryggð lán margfalt til baka og langt umfram kaupmáttarþróun eins og hún mælist í vísitölu neysluverðs. Þegar upp er staðið, megi því nánast leggja verðtryggð lán að jöfnu undir lögverndaða okurlánastarfsemi.
Að mati Hagsmunasamtakanna heimilanna heimila lög nr. 38 um vexti og verðtryggingu ekki slíkar höfuðstólsuppfærslur. Lögin heimili einungis að verðbætur séu reiknaðar af greiðslum, þ.e. afborgunum lána og lögum samkvæmt beri því að staðgreiða þá verðbólgu sem mælist, án þess að átt sé við höfuðstól lána. Óverðtryggð lán uppfylli sem dæmi þessi skilyrði laga.
Ranglæti verðtryggingarinnar í núverandi mynd birtist svo að sögn Andreu í þeirri einhliða áættu sem lántakendum er gert að axla á verðbólgu- og gengisþróun næstu áratuga. Það sé algjört einsdæmi í heiminum á almennum íbúðalánamarkaði.
Sjá Kastljósumfjöllunina í heild sinni (RÚV 17. ágúst 2011)
Ítarefni:
Sjá bloggfærslu Þórðar Björns Sigurðssonar,
varastjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, um ólöglega svikamyllu verðtryggingarinnar
Sjá umfjöllun Andreu J. Ólafsdóttur um svikamyllu verðtryggingarinnar
* Núvirðing þýðir í stuttu máli að reikna út þá fjárhæð sem leggja þyrfti til hliðar í dag, sem stæði undir öllum skuldbindingum á lánstímanum.
Þessi fjárhæð er umtalsvert lægri en samanlagðar afborganir á 30 eða 40 ára lánstíma. Ástæðan er sú að fé sem lagt væri til hliðar í dag til að mæta skuldbindingunum myndi safna vöxtum þangað til farið yrði að greiða af láninu og þeir vextir myndu líka nýtast til afborgana. (Heimild orðskýringar: Icesavereiknir mbl.is og Data Market)