HH fara fram á að FME sinni lögbundnu eftirlitshlutverki sínu
Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem FME er beðið um að rækja skyldur sínar varðandi eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Samtökin hafa fengið áreiðanlegar fregnir af því að bifreiðar hafi verið fjarlægðar af einkalóðum án þess að láta eigendur þeirra vita og jafnvel hafi slíkt gertæki af hálfu vörslusviptingafyrirtækis farið fram í skjóli nætur. Vilja samtökin benda á að innheimta án starfsleyfis þar sem bílar/eigur fólks eru brottnumdar af einkalóðum í skjóli nætur, er gróft brot á stjórnarskrárvarinni friðhelgi einkalífs og heimilis.
Hér má sjá erindið í heild sinni;
Mikil harka er nú hlaupin í innheimtuaðgerðir fjármögnunarfyrirtækjanna. Félagsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) hafa kvartað til samtakanna undan ágangi fyrirtækjanna. Samtökin telja að FME geti með leiðbeinandi tilmælum slegið á aðgerðir fjármögnunarfyrirtækjanna. Aðgerðir fyrirtækjanna byggja oft á tíðum á hótunum um vörslusviptingu eða hreinlega að taka bifreiðar af eigendum eða umráðamönnum þeirra. Báðar þessar aðgerðir eru í andstöðu við ákvæði hegningarlaga. Sé vikið fyrst að hótuninni þá eru starfsmenn fyrirtækisins Vörslusviptingar meðal annars fengnir til að hringja beint í lántakendur með þau skilaboð að ef ekki verði greitt þá verði bíllinn tekinn. Þetta er bein hótun og sem slík er sú aðgerð ein og sér í andstöðu við. 233. gr. alm. hegningarlaga.
Jafnframt er ljóst að hvorki fjármögnunarfyrirtækin né svokölluð vörslusviptingafyrirtæki, hafa heimild til að taka eignir í umráðu leigutaka, án þess að komi til þess sérstakur úrskurður eða dómur. Geri þau það þá er slíkt gertæki í andstöðu við 260. gr. almennra hegningarlaga og eftir atvikum brot á 264. gr. sömu laga. (Tímarit Lögfræðinga 5. árg. 1955, bls. 36). Samningur um að fjármögnunarfyrirtækið megi endurheimta bifreið án aðfarargerðar hefur ekki þýðingu þar sem aðfararlögin eru óundanþæg og því er ekki hægt að semja sig frá þeim, ella væri aðilum heimilað að innheimta kröfur sínar sjálfir án niðurstöðu dómstóla um réttarágreining er varðar kröfuna sem býr að baki vörslum á hlutnum. Það eru einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra sem framkvæma mega aðfarargerðir til fullnustu kröfum, sbr. 1. og 4. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Samtökin hafa fengið áreiðanlegar fregnir af því að bifreiðar hafi verið fjarlægðar af einkalóðum án þess að láta eigendur þeirra vita og jafnvel hafi slíkt gertæki af hálfu vörslusviptingafyrirtækis farið fram í skjóli nætur. Vilja samtökin benda á að innheimta án starfsleyfis þar sem bílar/eigur fólks eru brottnumdar af einkalóðum í skjóli nætur, er gróft brot á stjórnarskrárvarinni friðhelgi einkalífs og heimilis.
Samtökin vilja í þessu sambandi vísa til aðvörunar innanríkisráðherra: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27201.
Hæstiréttur hefur í tveimur dómum sínum komist að þeirri niðurstöðu að samningar sem fjármögnunarfyrirtæki kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings væri lánssamningur sbr. dóma Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010. Einu gildir hvort um leigu- eða lánssamning er að ræða. Í báðum tilvikum þarf atbeina opinbers valds eftir dómsúrskurð um það hvort leigusamningur eða lánssamningur sé í gildi eða ekki eða hvort riftun nái fram að ganga og endurheimtur bifreiðar séu því heimilar. Sýslumaður getur einn kveðið úr um með beinni aðfarargerð eftir ákvæðum aðfararlaga hvar formleg umráð bifreiðar skuli liggja - hjá leigutaka (umráðamaður) eða lántaka (eigandi) eða fjármögnunarfyrirtæki.
Samtökin óska eftir því að FME sendi út leiðbeinandi tilmæli til allra fjármálastofnana um vörslusviptingar. Einungis sýslumaður og fulltrúar hans hafa slíka heimild skv. 4. gr. laga um aðför nr. 90/1989 eins og fyrr er nefnt og starfsemi einkarekinna verktakafyrirtækja á þessu sviði á því ekkert skylt við lögmætan atvinnurekstur. Almennt hafa slíkir málaliðar ekki heldur starfsleyfi til innheimtustarfsemi, eins og upplýsingar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins bera með sér. Samtökin brýna fyrir FME að rækja skyldur sínar samkvæmt 15. og 16. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 og gefa út slík leiðbeinandi tilmæli sem byggir á skýrum rétti eigenda eða umráðamanna að hafa eign/leigumun í sínum fórum þar til dómsúrskurður gengur honum í óhag að viðlagðri aðvörun um að ella geti fyrirtækin sem að slíkri aðgerð standa átt von á að kæru til refsingar fyrir brot á almennum hegningarlögum.