Niðurstöður aðalfundar 2020
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2020 var haldinn 25. febrúar síðastliðinn. Á fundinum var kosin ný stjórn sem hefur nú skipt með sér verkum og er skipuð þannig:
- Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður
- Vilhjálmur Bjarnason varaformaður
- Sigríður Örlygsdóttir gjaldkeri
- Hólmsteinn Brekkan ritari
Varamenn: Þórarinn Einarsson, Ragnar Unnarsson, Björn Kristján Arnarson, Stefán Stefánsson.
Þau hafa öll starfað áður í stjórn samtakanna.
Aðalfundurinn samþykkti að félagsgjöld 2020 verði óbreytt 4.900 kr. og valkvæð sem fyrr.
Þá voru skoðunarmenn reikninga samtakanna, Sigfríð Gerður Hallgrímsdóttir og Sólveig Sigurgeirsdóttir, endurkjörnar.
Á fundinum var samþykkt breytingartillaga á samþykktum samtakanna sem stjórn var falið að útfæra nánar en hún er eftirfarandi:
- Núverandi [fyrrverandi] 2. mgr. 9. gr. svohljóðandi: Stjórnarstörf eru ólaunuð, svo og þau verkefni sem stjórnarmenn taka að sér fyrir samtökin. Þó er heimilt að greiða fyrir útlagðan kostnað sem til fellur vegna rekstrar samtakanna.
- Orðist svo: Stjórnarstörf eru ólaunuð, en heimilt er að greiða fyrir útlagðan kostnað vegna rekstrar samtakanna. Þrátt fyrir það getur stjórnarmaður til jafns við aðra gefið kost á sér til verkefna, sem stjórn ákveður að stofna til og kaupa þjónustu fyrir gegn eðlilegu og sanngjörnu endurgjaldi, enda hafi atkvæði hans ekki ráðið úrslitum um þá ákvörðun. Skal hann þá jafnframt víkja sæti við allar frekari ákvarðanir stjórnar um verkefnið. Gera skal skriflegan þjónustusamning um hvert verkefni, sem innihaldi skýra verklýsingu og upplýsingar um alla kostnaðarskiptingu verkefnisins milli verkkaupa og verksala.
Loks samþykkti aðalfundurinn eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna lýsir því yfir að ekki komi til greina að selja bankana, hvorki að hluta né öllu leyti, fyrr en Alþingi hafi séð til þess að farið verði ofan í saumana á þeirri meðferð sem heimilin máttu þola í kjölfar bankahrunsins af hálfu fjármálafyrirtækja og stjórnvalda, með því að láta gera Rannsóknarskýrslu heimilanna.
Ofsóknir hafa átt sér stað á Íslandi frá hruni. Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur verið hraktar frá heimilum sínum í krafti aflsmuna og án nokkurra varna. Það eina sem þetta fólk gerði af sér var að treysta ráðgjöfum bankanna og taka húsnæðislán. Þau fengu aldrei að verja sig en hafa verið dæmd til harðrar refsingar án þess að sekt þeirra væri sönnuð. Þau eiga rétt á áheyrn og uppreist æru!
Við segjum hingað og ekki lengra! Fundurinn lýsir því yfir að Alþingismenn sem ekki styðji gerð Rannsóknarskýrslu heimilanna eða standi í vegi hennar á einhvern hátt, setji með því sérhagsmuni framar hagsmunum almennings. Ekkert orðspor, enginn flokkur og enginn einstaklingur er þess virði að tugir þúsunda þjáist fyrir. Það er komið nóg!
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna krefst Rannsóknarskýrslu heimilanna - fyrir heimilin og hagkerfið!