Húsfyllir á borgarafundi HH í Stapanum, Reykjanesbæ
Húsfyllir var á borgarafundi HH í Stapanum, Reykjanesbæ í gærkvöldi, undir yfirskriftinni "Fast er sótt á Suðurnesjamenn", þar sem fjallað var um stöðu heimila á Suðurnesjum.
Ólafur Arnarson, hagfræðingur stýrði fundinum. Frummælendur voru Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Þórólfur Halldórsson sýslumaður í Keflavík, Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar í suðurkjördæmi, og Ólafur Garðarsson formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Árni hóf fundinn og lagði í erindi sínu áherslu á að hið mikla atvinnuleysi á svæðinu væri undirrót vandans sem taka yrði á með því að efla atvinnulífið. Þórólfur Halldórsson fór yfir helstu niðurstöður skýrslu sem unnin var á vegum embættis sýslumannsins í Keflavík fyrir velferðarráðuneytið: Nauðungarsala íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum 2001–2011. Þórólfur vakti athygli á því að stór hluti þeirra sem misst hefðu húsnæði sitt á nauðungarsölum á þessu tímabili hefðu gert það aðeins 2-4 árum eftir kaup, sem vekti upp ýmsar spurningar m.a. varðandi lánveitingar. Oddný Harðardóttir talaði því næst um aðgerðir núverandi ríkisstjórnar vegna skuldavanda heimilanna. Oddný sagði það vera hlutverk þeirra sem kosnir yrðu á þing í vor að nýta það svigrúm sem núverandi ríkisttjórn hefði skapað með endurreisn efnahagslífsins eftir hrun, til frekari aðgerða fyrir heimilin. Síðastur frummælenda var Ólafur Garðarsson sem fjallaði í erindi sínu um skjaldborgina um fjármálakerfið. Hægt er að lesa erindi Ólafs í heild sinni hér.
Að loknum þessum erindum var komið að þátttakendum í pallborði að kynna hugmyndir framboða sinna til lausna á skuldavanda heimilanna, en í pallborði sátu fulltrúar allra framboða til Alþingiskosninganna í vor. Alls tólf framboð áttu þar fulltrúa; Samfylkingin, VG, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Hægri grænir, Björt framtíð, Dögun, Píratar, Alþýðufylkingin, Framfaraflokkurinn, Regnboginn og Flokkur heimilanna. Loks talaði sérstakur gestur fundarins, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmur sagði það sem ólíkindum að menn kæmust upp með umræðu eins og þá sem einkennt hefur verðtryggingarumræðuna. Þar er því blákalt haldið fram að ekkert sé hægt að gera fyrir heimilin sem tóku á sig gríðarlegar álögur í formi verðbóta sem bæst hafa við höfuðstól verðtryggðra lána frá hruni. Hundruðum milljarða var dælt í bankakerfið af stjórnvöldum eftir hrun, þeim hinum sömu og sáu ekkert því til fyrirstöðu að skattgreiðendur greiddu fyrir innstæður í Hollandi og Bretlandi þegar leita átti samninga vegna Icesave. Þegar hins vegar fram kemur krafa almennings um leiðréttingu lána er viðkvæðið alltaf það sama: "Peningarnir eru ekki til".
Að loknu erindi Vilhjálms tóku við fyrirspurnir fundarmanna, sem flestar beindust til frummælenda fundarins og fjölluðu m.a. um aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart skuldugum heimilum og framgöngu sýslumanna við framkvæmd fullnustugerða. Fundinum lauk með því að borin var upp tillaga stjórnar HH að ályktun fundarins:
"Borgarafundur HH í Stapa Reykjanesbæ fimmtudagskvöldið 21. mars tekur undir áskorun félagsfundar HH 7. mars 2013 til sýslumanna og annarra opinberra embættismanna sem hafa slík mál með höndum, að stöðva nú þegar allar fullnustugerðir á grundvelli ólöglegra lána. Á þeim hvílir sú skylda að rannsaka ávallt gaumgæfilega lögmæti þeirra lánasamninga og annarra gagna sem lögð eru fram vegna slíkra gjörninga. Allan vafa um lögmæti ber að túlka neytendum í hag og sökum þess aðstöðumunar sem er fyrir hendi hlýtur að teljast eðlilegt að sönnunarbyrði um lögmæti krafna hvíli á þeim sem halda þeim kröfum í frammi."
Ályktunin var samþykkt með lófataki.
Upptaka Hjara veraldar af fundinum mun birtast á vefnum um leið og eftirvinnslu lýkur.
Húsfyllir var á borgarafundi HH í Stapanum, Reykjanesbæ í gærkvöldi, undir yfirskriftinni "Fast er sótt á Suðurnesjamenn", þar sem fjallað var um stöðu heimila á Suðurnesjum.
Ólafur Arnarson, hagfræðingur stýrði fundinum. Frummælendur voru Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Þórólfur Halldórsson sýslumaður í Keflavík, Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar í suðurkjördæmi, og Ólafur Garðarsson formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Árni hóf fundinn og lagði í erindi sínu áherslu á að hið mikla atvinnuleysi á svæðinu væri undirrót vandans sem taka yrði á með því að efla atvinnulífið. Þórólfur Halldórsson fór yfir helstu niðurstöður skýrslu sem unnin var á vegum embættis sýslumannsins í Keflavík fyrir velferðarráðuneytið: Nauðungarsala íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum 2001–2011. Þórólfur vakti athygli á því að stór hluti þeirra sem misst hefðu húsnæði sitt á nauðungarsölum á þessu tímabili hefðu gert það aðeins 2-4 árum eftir kaup, sem vekti upp ýmsar spurningar m.a. varðandi lánveitingar. Oddný Harðardóttir talaði því næst um aðgerðir núverandi ríkisstjórnar vegna skuldavanda heimilanna. Oddný sagði það vera hlutverk þeirra sem kosnir yrðu á þing í vor að nýta það svigrúm sem núverandi ríkisttjórn hefði skapað með endurreisn efnahagslífsins eftir hrun, til frekari aðgerða fyrir heimilin. Síðastur frummælenda var Ólafur Garðarsson sem fjallaði í erindi sínu um skjaldborgina um fjármálakerfið. Hægt er að lesa erindi Ólafs í heild sinni hér.
Að loknum þessum erindum var komið að þátttakendum í pallborði að kynna hugmyndir framboða sinna til lausna á skuldavanda heimilanna, en í pallborði sátu fulltrúar allra framboða til Alþingiskosninganna í vor. Alls tólf framboð áttu þar fulltrúa; Samfylkingin, VG, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Hægri grænir, Björt framtíð, Dögun, Píratar, Alþýðufylkingin, Framfaraflokkurinn, Regnboginn og Flokkur heimilanna. Loks talaði sérstakur gestur fundarins, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmur sagði það sem ólíkindum að menn kæmust upp með umræðu eins og þá sem einkennt hefur verðtryggingarumræðuna. Þar er því blákalt haldið fram að ekkert sé hægt að gera fyrir heimilin sem tóku á sig gríðarlegar álögur í formi verðbóta sem bæst hafa við höfuðstól verðtryggðra lána frá hruni. Hundruðum milljarða var dælt í bankakerfið af stjórnvöldum eftir hrun, þeim hinum sömu og sáu ekkert því til fyrirstöðu að skattgreiðendur greiddu fyrir innstæður í Hollandi og Bretlandi þegar leita átti samninga vegna Icesave. Þegar hins vegar fram kemur krafa almennings um leiðréttingu lána er viðkvæðið alltaf það sama: "Peningarnir eru ekki til".
Að loknu erindi Vilhjálms tóku við fyrirspurnir fundarmanna, sem flestar beindust til frummælenda fundarins og fjölluðu m.a. um aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart skuldugum heimilum og framgöngu sýslumanna við framkvæmd fullnustugerða. Fundinum lauk með því að borin var upp tillaga stjórnar HH að ályktun fundarins:
"Borgarafundur HH í Stapa Reykjanesbæ fimmtudagskvöldið 21. mars tekur undir áskorun félagsfundar HH 7. mars 2013 til sýslumanna og annarra opinberra embættismanna sem hafa slík mál með höndum, að stöðva nú þegar allar fullnustugerðir á grundvelli ólöglegra lána. Á þeim hvílir sú skylda að rannsaka ávallt gaumgæfilega lögmæti þeirra lánasamninga og annarra gagna sem lögð eru fram vegna slíkra gjörninga. Allan vafa um lögmæti ber að túlka neytendum í hag og sökum þess aðstöðumunar sem er fyrir hendi hlýtur að teljast eðlilegt að sönnunarbyrði um lögmæti krafna hvíli á þeim sem halda þeim kröfum í frammi."
Ályktunin var samþykkt með lófataki.
Upptaka Hjara veraldar af fundinum mun birtast á vefnum um leið og eftirvinnslu lýkur.