Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Þingfesting stefnu Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðs fasteignaláns

Í dag var þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur stefna gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs neytendaláns sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki. Samtökin hófu þessa vegferð innan dómskerfisins fyrir rúmi ári síðan, en ríkislögmaður (fyrir hönd Íbúðalánasjóðs) fór fram á frávísun málsins vegna meints formgalla og féllust dómsstólar á þá kröfu í fyrstu atrennu.

Málshöfðunin byggir meðal annars á þeirri forsendu að lánasamningur hins verðtryggða fasteignaláns standist ekki kröfur þær sem skýrt er kveðið á um í lögum um neytendalán (nr. 121/1994) varðandi það að tæmandi upplýsingar um heildarlántökukostnað skuli liggja fyrir við undirritun lánasamninga, miðað við raunverulegar forsendur. Lánveitanda sé því ekki heimilt að innheimta þann kostnað.

Forsætisráðherra flutti í dag munnlega skýrslu á Alþingi um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142. Samkvæmt því sem þar kom fram virðast fyrirhugaðar leiðréttingar af hálfu stjórnvalda eiga að fela í sér samninga við kröfuhafa og að nýta það svigrúm sem þar skapast til lækkunar verðtryggðra lána og hefur hlutfallið 20% gjarnan verið nefnt í því samhengi. Hagsmunasamtökin vilja benda stjórnvöldum á að margvísleg rök hníga að því að verðtryggð neytendalán hafi verið ólöglega útfærð frá 2001. Til samanburðar má benda á að bara frá 1.1.2008 hefur verðtryggingin hækkað verðtryggð lán u.þ.b. 50 % þannig að allir samningar um eitthvað minna en það eru hjóm eitt í því samhengi.

Teljum við að allir aðilar þurfi nú að flýta ofangreindu dómsmáli HH í gegnum íslensk dómstig þannig að úr þessari óvissu um lögmæti verðtryggingarinnar verði skorið sem fyrst og verðum við að treysta íslenskum dómurum til að dæma eftir íslenskum lögum. Íslensk heimili þola ekki enn eina smáskammtalækninguna í formi samninga við þá sem orsökuðu forsendubrestinn margumtalaða og íslenskar fjölskyldur þola ekki lengri bið eftir því að fá úr því skorið hvort verðtrygging neytendalána sé ólöglega útfærð.

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum