Niðurstöðu Neytendastofu áfrýjað
Neytendastofa hefur komist að niðurstöðu vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Landsbankanum frá febrúar síðastliðnum. Kvörtunarefnið var að í vefreiknivél á vefsíðu bankans þar sem sýnd voru dæmi um lánskostnað, kom ekki fram árleg hlutfallstala kostnaðar, eins og skylt er samkvæmt lögum um neytendalán að tilgreina í auglýsingum.
Kjarninn í niðurstöðu Neytendastofu er þessi:
"Árleg hlutfallstala kostnaðar er mikilvæg neytendum til samanburðar á lánamöguleikum, bæði ólíkum lánum sama lánveitenda eða sambærilegum lánum annarra lánveitenda, og leggja lög nr. 121/1994 mikið upp úr að neytendum séu veittar upplýsingar um hlutfallstöluna. Því telur Neytendastofa það einnig fela í sér villandi viðskiptahætti, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/2005 að hlutfallstalan sé ekki tilgreind í auglýsingum fyrir neytendalán.
Með vísan til ofangreinds hefur Landsbankinn brotið gegn ákvæðum 13. gr. laga nr. 121/1994 auk 5. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/2005 með því að tilgreina árlega hlutfallstölu kostnaðar ekki í lánareiknivél á heimasíðu sinni. Með vísan til 2. mgr. 21. gr. b. laga nr. 57/2005 er þeim fyrirmælum beint til Landsbankans að gæta þess að árleg hlutfallstala kostnaðar komi ávallt fram í auglýsingum um neytendalán."
Þar sem Landsbankinn hafði brugðist við með því að laga umrædda vefreiknivél áður en Neytendastofa komst að niðurstöðu, að fenginni ábendingu um kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna, var það jafnframt ákvörðun stofnunarinnar að aðhafast ekki frekar vegna málsins. Þessari niðurstöðu hefur nú verið áfrýjað til áfrýjunarnefndar neytendamála, þar sem farið er fram á að Landsbankinn verði beittur sektum fyrir brotið innan þess ramma sem lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu leyfa.
Niðurstaða Neytendastofu er þrátt fyrir allt afar athyglisverð, þar sem í lögunum um neytendalán er einnig kveðið á um að skylt sé að tilgreina árlega hlutfallstölu kostnaðar í lánssamningum við neytendur. Viðurlög við vanrækslu á þeirri upplýsingaskyldu eru meðal annars þau að þá er lánveitanda óheimilt að innheimta lánskostnað umfram það sem tilgreint er í samningi eða árlega hlutfallstölu kostnaðar sé hún of lágt reiknuð. Neytendur eru hvattir til að skoða lánssamninga sína með hliðsjón af þeim upplýsingum sem þar koma fram um lánskostnað, þar á meðal árlega hlutfalltölu kostnaðar og hvort hún sé rétt tilgreind.